Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Opnir samningar
Mynd / BBL
Skoðun 12. apríl 2018

Opnir samningar

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Búvörusamningarnir hafa nú verið í gildi í rúma 15 mánuði. Það er ekki langur tími í atvinnugrein þar sem framleiðsluferlar eru langir og fyrirsjáanleiki er flestu öðru mikilvægari.
 
Eitt af því sem gagnrýnt var við meðferð málsins á Alþingi á haustdögum 2016 var að samningarnir væru til of langs tíma. Þeir voru áður til sjö ára en voru nú gerðir til tíu ára með ákvæðum um tvær endurskoðanir, árin 2019 og 2023. Það er nýmæli. Það var auk þess samið um alla samningana fjóra í einu sem áður var gert sitt í hvoru lagi. Samningurinn sem lengst hafði gilt hafði reyndar staðið í 15 ár vegna framlenginga. Samningaferlið 2015–16 var opnara en nokkru sinni fyrr því ekki hafði áður verið gert hlé á samningunum til að halda opna bændafundi í því skyni að kynna stöðuna sem þá var uppi í samningagerðinni.
 
Pólitískar sviptingar hafa tafið fyrir
 
Efni samninganna hefur verið til nær óslitinnar umræðu frá því að þeir tóku gildi. Það er vissulega eðlilegt því að í þeim var og er margt nýtt sem hefur tekið tíma að innleiða. Matvælastofnun hefur í sumum tilvikum átt erfitt með að koma út greiðslum í samræmi við það sem bændur væntu sem auðvitað hefur valdið verulegum óþægindum. Vonandi lýkur þeim erfiðleikum á þessu ári. Þá hafa ítrekaðar breytingar á samráðshópi um endurskoðun búvörusamninga ekki hjálpað til. Samráðshópurinn var hugmynd þáverandi meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis í því skyni að ná víðari sátt um landbúnaðarstefnuna. Í nefndaráliti sama meirihluta við afgreiðslu málsins eru talin upp níu atriði sem þessum samráðshópi var ætlað að fara yfir áður en kæmi að fyrri endurskoðun árið 2019. Þar voru meðal annars talin upp loftslags- og umhverfismál, sérstöðugreining, samkeppnismál, upplýsingagjöf til neytenda, upprunamerkingar, afkoma bænda, hagtölusöfnun og fleira. Öll þau atriði hafa enn sömu þýðingu, en vegna þeirra pólitísku sviptinga sem voru á árunum 2016 og 17 hefur minna orðið úr verki. Fyrr á þessu ári var samráðshópurinn skipaður í þriðja sinn og lagt fyrir hann að ljúka störfum fyrir árslok. Leggja verður áherslu á að það takist vel til við vinnu hans út þetta ár, en tíminn er óneitanlega minni en ákjósanlegt væri.
 
Tollvernd þarf að endurskoða
 
Sviptingar hafa auðvitað líka orðið víðar. Bændur hafa miklar áhyggjur af innleiðingu tollasamnings við Evrópusambandið sem undirritaður var af þáverandi ríkisstjórn árið 2015 og samþykktur hérlendis haustið 2016. Nú tekur fyrsti áfangi hans gildi 1. maí næstkomandi en á sama tíma hefur nær ekkert komist í framkvæmd af tillögum starfshóps þáverandi ráðherra um viðbrögð við samningnum sem skilað var í júní 2016. Það er ótækt og undirstrikar enn nauðsyn þess að fara yfir stöðu tollverndar í heild. Hún er mikilvægur hluti landbúnaðarstefnunnar í ákveðnum greinum og vöruflokkum og þarf að virka þar sem henni er beitt. Á tímum sterkrar krónu og tolla sem hafa sumpart verið óbreytt krónutala frá 1995 þá er það ekki raunin. 
 
Til viðbótar varpar niðurstaða EFTA-dómstólsins í hinu svokallaða hráakjötsmáli skugga sem hefur eðlilega áhrif á umræður um starfsskilyrði bænda. Reyndar kom fram í máli landbúnaðarráðherra á aðalfundi sauðfjárbænda að núverandi ríkisstjórn ætlar að efna til viðræðna við Evrópusambandið um málið, ekki bara að gleypa það hrátt.  Það eru sannarlega jákvæðar fregnir og í samræmi við þær ábendingar sem fram komu í bréfi Bændasamtakanna til ráðherra í febrúar síðastliðnum. Vitanlega er ekkert gefið um niðurstöður þeirrar vinnu en það er afar mikilvægt að þarna verði gengið fram af festu og ákveðni. Allt þetta hefur veruleg áhrif á starfsskilyrði landbúnaðarins og þar af leiðandi um búvörusamningana.
 
Áherslur aðalfunda leggja línurnar um framhaldið
 
Nú hafa þau þrjú búgreinafélög, sem hafa sjálfstæða samninga, lokið aðalfundum sínum og þar voru áherslur þeirra við endurskoðunina til umræðu. Áður hafði Búnaðarþing einnig ályktað um endurskoðunina í síðasta mánuði. Kúabændur ályktuðu að þeir vildu halda framleiðslustýringu áfram í greininni, en atkvæðagreiðsla meðal bænda er ráðgerð síðar eins og samningur þeirra kveður á um. Það er langstærsta málið í þeirri grein, en svo virðist sem að yfirgnæfandi stuðningur sé við áframhaldandi framleiðslustýringu, þó atkvæðagreiðslunni sé ætlað að leiða það endanlega í ljós.  
 
Sauðfjárræktin hefur glímt við mikil vandamál undanfarin misseri. Viðræður við stjórnvöld um lausnir gengu hægt en núverandi ríkisstjórn brást við skammtímavandanum með fjárveitingu í fjáraukalögum 2017. Viðræður um langtímalausn standa enn. Sauðfjárbændur samþykktu á sínum fundi að það ætti að frysta greiðslur samningsins á næstu árum þannig að allt sem geti talist framleiðsluhvetjandi verði aftengt. Sumt er þó enn óútfært í þeirri samþykkt. 
 
Í garðyrkjunni var samið um að skoða ætti fyrir endurskoðun hvort aflétta ætti tollvernd af fleiri tegundum en tómötum, gúrkum og papriku, þá gegn því að teknar yrðu upp beingreiðslur í þeim greinum á móti. Það myndi þýða aukin útgjöld en lægri tolla á móti.  Þetta eru aðeins stærstu atriðin en fleira mætti auðvitað telja til.
 
Hvað vill ríkisvaldið?
 
Ríkisstjórnin sjálf á síðan eftir að koma fram með sínar áherslur. Þær eru auðvitað í stjórnarsáttmálanum að hluta til en þegar sest verður við samningaborðið við endurskoðunina sjálfa þá þarf að vera skýr sýn af beggja hálfu hverju á að breyta, hvað það þýðir og hvernig það verður útfært í raun og sann. Ráðherra hefur nefnt nokkur einstök atriði og mun e.t.v. fela sínum fulltrúum að ræða áherslur í samráðshópnum fyrst, en nú hafa bændur mótað sína stefnu og þá væri skynsamlegt að heyra sem fyrst hvað ráðherra hefur að segja um þær og hvað hann kemur með að borðinu.
 
Bændasamtökin munu fljótlega skipa sína fulltrúa í samninganefnd til að annast endurskoðunina sjálfa í samráði við aðildarfélögin. Að endurskoðuninni lokinni verður niðurstaðan borin undir félagsmenn í atkvæðagreiðslu, og endurskoðaður samningur tekur þá gildi 1. janúar 2020. Umræðan mun vafalítið halda áfram alveg þangað til.
Aspir og wasabi ræktuð samhliða
Fréttir 24. maí 2024

Aspir og wasabi ræktuð samhliða

Nordic Wasabi er um þessar mundir að setja á innanlandsmarkað frostþurrkað wasab...

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“
Fréttir 24. maí 2024

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“

Jóhannes Geir Gunnarsson, bóndi á Efri-Fitjum í Vestur-Húnavatnssýslu, er bjarts...

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu
Fréttir 24. maí 2024

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu

Í samstarfsverkefni Matís og Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) er unnið að því a...

Samdráttur samfélags
Fréttir 23. maí 2024

Samdráttur samfélags

Póstþjónusta landsmanna hefur verið hitamál svo lengi sem menn muna og ekki síst...

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal
Fréttir 22. maí 2024

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal

Út er komin skýrslan Bætt orkunýtni og ný tækifæri til orkuöflunar. Hún hefur að...

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu
Fréttir 22. maí 2024

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu

Ábúendurnir í Hafrafellstungu í Öxarfirði fengu nafnbótina Bændur ársins 2023 í ...

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur
Fréttir 22. maí 2024

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur

Herdís Magna Gunnarsdóttir, nautgripabóndi á Egilsstöðum og stjórnarmaður í Bænd...

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva
Fréttir 22. maí 2024

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva

Starfsemi Kornræktarfélags Suðurlands var endurvakin á fundi kornbænda í Gunnars...