Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Ónýt samgönguáætlun!
Lesendarýni 29. apríl 2016

Ónýt samgönguáætlun!

Á borðum okkar þingmanna  liggur þessa dagana enn ein vanmáttug tilraun ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks til þess að uppfylla lagaskyldu sína um að unnið sé samkvæmt gildri samgönguáætlun. Skemmst er frá því að segja að hvað innihaldið varðar er verr af stað farið en heima setið. Plaggið er ónýtt.
 
Steingrímur J. Sigfússon.
Hörmungarsaga fyrri tilrauna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum verður ekki rakin hér. Niðurstaðan er að stjórn sem nú hefur þegar að mestu leyti lifað lífi sínu, samanber að vísu óljós loforð um kosningar í haust, hefur enga samgönguáætlun afgreitt. Verst er auðvitað að málaflokkurinn hefur verið vanræktur og sveltur þannig að til stórtjóns horfir. Ákvörðunarvaldið um skiptingu vegafjár hefur í tvígang verið tekið úr hinum lögbundna farvegi samgönguáætlunar samþykktri af Alþingi og yfir á ríkisstjórnarborðið þar sem smávægilegum aukafjárveitingum hefur verið skipt af ríkisstjórn en ekki Alþingi. Vinnubrögðin og frammistaðan fá því falleinkunn hvernig sem á málin er litið.
 
Samgönguinnviðirnir að hrynja
 
En víkjum þá að því sem mestu skiptir að ræða. Það er hvar við erum á vegi stödd með okkar samgöngukerfi, hvaða fjármunum við erum að verja til viðhalds og uppbyggingar samanborið við þörf og í þjóðhagslegu samhengi. Niðurstaðan af slíkri skoðun er hrollvekjandi. Tímans og plássins vegna verður hér látið duga að ræða f.o.f. vegamálin, en staðan er síst betri þegar litið er til hafna og flugvalla.
 
Vinnubrögðin við úrbætur í fjarskiptamálum eru svo kapítuli út af fyrir sig en þar hefur sveitarfélögunum verið att saman í kapphlaup um allt of litla fjármuni til ljósleiðaravæðingar í strjálbýli og í minni þéttbýliskjörnum.
 
Sagan kennir okkur að ríkið þarf að meðaltali að verja a.m.k. 2% af vergri landsframleiðslu til fjárfestinga þannig að samgönguinnviðir, húsakostur og annað það sem ríkið þarf að byggja upp til að mæta kröfum hvers tíma séu í sæmilegu lagi. Verg landsframleiðsla, VLF, er um þessar mundir nálægt 2.200 milljarðar króna. Fjárfestingar ríkisins ættu samkvæmt því að vera um 45 milljarðar á ári og stærsti einstaki fjárfestingaliðurinn hefur jafnan verið á sviði vegamála. Fjarri fer að við séum á þeim stað. Samanlagðar fjárfestingar hins opinbera, þ.e. að sveitarfélögunum meðtöldum, og þó viðhaldi sé bætt við, gera varla betur en ná ofangreindu viðmiði. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur, þrátt fyrir batnandi árferði, samfelldan hagvöxt frá síðari hluta árs 2010 og ríkisfjármál í jafnvægi frá árinu 2013, hlutir sem hún tók í arf, sáralítið aukið fjárfestingar að nafnvirði og alls ekki sem hlutfall af VLF. Málaflokkurinn er síst betur staddur hvað fjárveitingar snertir en á erfiðustu árunum eftir hrun.
 
Hvað vegina snertir hefur þetta grafalvarlegar afleiðingar. Þrátt fyrir umtalsvert aukna umferð landsmanna sjálfra á nýjan leik og stóraukinn ferðamannastraum, færumst við fjær því en ekki nær að halda í horfinu hvað viðhald snertir og núverandi vegakerfi beinlínis liggur undir skemmdum. Til nýbygginga samtals á svo aðeins að verja 10–13 milljörðum króna árlega samkvæmt hinni nýframlögðu samgönguáætlun. Áætlunin horfir reyndar að hluta aftur í tímann, sbr. árin 2015–2018, sem hún tekur til. Það segir auðvitað sitt um frammistöðuna að nú er lögð fram afturvirk samgönguáætlun.
 
Norðausturkjördæmi 
 
Ekki er annað hægt en nefna útkomu Norðausturkjördæmis hvað vegaframkvæmdir snertir, óljúft sem það þó er greinarhöfundi að fara út í slíkt. Ég hef á langri pólitískri æfi sem þingmaður og ráðherra glaðst af hjarta yfir öllum mikilvægum samgöngubótum hvar í landinu sem þær verða. En nú er svo að hagsmunum Norðausturkjördæmis vegið að ekki verður um það þagað. Margt af því sem hér verður rakið á meira og minna við um önnur svæði landsins, svo sem óviðunandi ástand tengi- og héraðsvega. Helst eru það Vestfirðingar sem hafa yfir einhverju að gleðjast þar sem hillir undir Dýrafjarðargöng og byrjunarframkvæmdir á Dynjandisheiði í lok áætlunartímans.
 
Skemmst er frá því að segja að þegar Norðfjarðargöngum lýkur á næsta ári, framkvæmd sem sett var af stað á grundvelli fjárfestingaráætlunar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna á síðasta kjörtímabili, þá þorna að mestu upp nýframkvæmdir á sviði vegamála í Norðausturkjördæmi.  Á Norðursvæði er nánast engum fjármunum varið til framkvæmda seinni tvö árin, 2017 og 2018, eða 50–100 milljónum að slepptum almennum undirbúningi. En hér koma helstu staðreyndir um útkomu Norðausturkjördæmis:
 
Mesta fuðu vekur að samkvæmt samgönguáætlun á að láta staðar numið við Dettifossveg þegar núverandi framkvæmdum neðan frá Ásbyrgi og upp í Vesturdal lýkur á þessu ári. Engar fjárveitingar eru í framhaldið, haftið frá Vesturdal og upp að Dettifossi, árin 2017 og 2018. Dettifossvegur var annar tveggja meiri háttar ferðaþjónustuvega sem kom inn í áætlun á sínum tíma. Hin framkvæmdin var Suðurstrandarvegur frá Þorlákshöfn til Grindavíkur en þeirri framkvæmd er lokið eins og kunnugt er. Tæpast er hægt að kalla það neitt annað en svik við íbúa og ferðaþjónustuaðila á Norðausturlandi að ljúka nú ekki með samfelldum framkvæmdum því sem eftir er af Dettifossvegi vestan ár. Ekki er heldur hægt að fá botn í þá hagfræði sem að baki liggur. Þ.e. að ljúka ekki framkvæmd sem nú þegar er búið að leggja svo mikla fjármuni í sem raun ber vitni þannig að hún nýtist til fulls og þær vonir sem við hana hafa verið bundnar varðandi stóraukna heilsársferðamennsku geti ræst. 
 
Framkvæmdir í Berufjarðar­botni, sem beðið hafa á áætlun undanfarin ár og tafist vegna ágreinings um vegstæði og skipulagsmál, á að teygja til 2018 ef ekki lengur miðað við fullnaðaruppgjör.
 
Áframhaldið inn Skrið­dal og upp að vegamótum við Breiðdalsheiði og Öxi er komið aftast í áætlunina (2018).
 
Rétt er látið glitta í áframhaldandi úrbætur fyrir Borgarfjörð eystri og veginn á Langanesströnd milli Bakkafjarðar og Þórshafnar á síðasta ári (2018) með smávægilegum fjármunum.
 
Brú á Jökulsá á Fjöllum við Grímsstaði er horfin út og nú fjallað sameiginlega í texta um brú á Skjálfandafljót í Kinn og Jökulsá á Fjöllum einhvern tímann inn í framtíðinni með smávægilegum undirbúningsfjárveitingum. 
 
Þar með er það í aðalatriðum upp talið, lesendur góðir. Annað er svo smávægilegt að það tekur naumast að nefna það. Ekki vottar fyrir því brýna átaki sem löngu er orðið knýjandi  í endurnýjun og uppbyggingu tengi- og héraðsvega.  Ekkert svæði á eins mikið undir í því og norðan- og austanvert landið en þar er lengsta vegakerfi, samanstandandi af óburðugum malarvegum, sem fyrirfinnst. 
 
Lokaorð
 
Niðurstaðan er skýr. Samgöngu­áætlunin er ónýtt plagg og útkoma Norðausturkjördæmis er sérstaklega hrakleg. Bak kosningum verður ný ríkisstjórn og nýr þingmeirihluti að gerbreyta um áherslur og setja  uppbyggingu og eflingu samgönguinnviða aftur í öndvegi. Að óbreyttu er verið að mynda risavaxna skuld við framtíðina og hefta eðlilega framþróun mannlífs, atvinnulífs og byggðar langt umfram það sem efni standa til og nokkur skynsemi er í. Það sárgrætilega er að ef núverandi ríkisstjórn hefði ekki gert mikið annað en þó það að færa markaða tekjustofna til vegamála upp til verðlags undanfarin ár væri staðan allt önnur og betri. Í greinargerð með samgönguáætlun kemur nefnilega fram að ef það hefði verið gert hefði vegagerðin haft um sjö milljörðum króna meiru úr að moða. Að markaðar tekjur til vegamála skuli ekki hafa verið látnar fylgja verðlagi að undanförnu, nú þegar alveg óvenju lágt olíuverð gerir það miklum mun auðveldara en endranær, er óskiljanlegt. Allt ber að sama brunni, áhugaleysið og metnaðarleysið í þessum málaflokki er algert hjá núverandi ríkisstjórn og á því vandamáli eru kosningar eina lausnin og því fyrr því betra.
 
Steingrímur J. Sigfússon.
Höf. er alþingismaður Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi og m.a. fyrrv. samgönguráðherra.
Nýir liðsmenn Bændablaðsins
Fréttir 21. júní 2024

Nýir liðsmenn Bændablaðsins

Lesendur hafa kannski tekið eftir nýjum efnisþáttum í blaðinu í vor. Hugarleikfi...

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun
Fréttir 21. júní 2024

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun

Lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi fá aðgengi að 3,2 milljarða króna fjármög...

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum
Fréttir 20. júní 2024

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum

Hvítlauksbændurnir í Neðri-Brekku í Dölum fengu nýlega tvo styrki úr Matvælasjóð...

Verðlaunuðu góðan árangur
Fréttir 20. júní 2024

Verðlaunuðu góðan árangur

Tabea Elisabeth Schneider hlaut verðlaun fyrir besta árangur á B.S. prófi þegar ...

Fuglum fækkar vegna óveðurs
Fréttir 20. júní 2024

Fuglum fækkar vegna óveðurs

Samkvæmt fuglatalningu varð algjört hrun í fjölda fugla á Norðausturlandi þegar ...

Óhrædd að takast á við áskoranir
Fréttir 19. júní 2024

Óhrædd að takast á við áskoranir

Tilkynnt var um ráðningu Margrétar Ágústu Sigurðardóttur í starf framkvæmdastjór...

Halla færir út kvíarnar
Fréttir 19. júní 2024

Halla færir út kvíarnar

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjuframleiðandi og eigandi garðyrkjustö...

Sala Búvís stöðvuð
Fréttir 19. júní 2024

Sala Búvís stöðvuð

Samkeppniseftirlitið hefur komið í veg fyrir að Skeljungur kaupi Búvís ehf. þar ...