Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Okkar sjálfra að passa heilsuna
Mynd / HKr.
Skoðun 25. apríl 2018

Okkar sjálfra að passa heilsuna

Höfundur: Guðrún Tryggvadóttir
Löngum var ég læknir minn, 
lögfræðingur, prestur, 
smiður, kóngur, kennarinn, 
kerra, plógur, hestur.
 
Þessi ágæta vísa eftir Stephan G. Stephansson gæti verið byrjun á starfslýsingu bænda. Þar kemur þó ekki fram að bóndinn er líka gjaldkeri og rekstrarsérfræðingur, sem ber ábyrgð bæði á fjárhag búsins og fjölskyldunnar. Sinnir eftirlitsstörfum, áætlanagerð, skipulagsmálum, velferð og svo mætti lengi telja.  Bóndinn er þverfaglegur sérfræðingur í öllu því sem kemur að rekstri búsins.  
 
Bændur eru oft einir í starfi, makinn útivinnandi, þannig að ef misbrestur verður á heilsunni er kannski enginn sem getur hlaupið í skarðið. Búskapurinn sér ekki um sig sjálfur, skepnum og/eða plöntum þarf að sinna og margir halda því áfram svo lengi sem þeir geta. 
 
Góð heilsa mikilvæg
 
Fátt er mikilvægara en góð heilsa, þetta er staðreynd sem við getum sjálfsagt öll verið sammála um, hvort sem um líkamlega eða andlega heilsu er að ræða. Hún hefur veruleg áhrif á lífsgæði okkar og vellíðan almennt.  Við njótum ekki lífsins til fullnustu ef okkur líður ekki vel og við komum síður í verk því sem við þurfum að gera ef okkur líður illa.  
 
Við hugsum dags daglega ekki mikið um heilsuna og hættir jafnvel til að taka hana sem sjálfsögðum hlut þar til að eitthvað kemur upp á. Ekki svo að skilja að það sé heldur gott að hún taki hugann allan. Það eru samt ákveðin viðmið sem höfð eru að leiðarljósi þegar rætt er um heilsu og heilsuleysi. Það verða allir lasnir, það finna allir einhvern tímann fyrir kvíða, depurð, sorg og áhyggjum. Sveiflur í sálarlífi eru eðlilegar, það er ekki fyrr en einkennin fara að verða yfirþyrmandi og heltaka daglegt líf, hefta manneskjuna í því að geta tekið þátt í verkefnum dagsins sem farið er að tala um sjúkdóma. Umræða um heilsu og líðan hefur ekki verið áberandi innan bændastéttarinnar en sem betur fer er almenn umræða um andlega heilsu að aukast. Áföll, erfiðleikar og krísur eru eitthvað sem allflestir þurfa að takast á við einhvern tímann á ævinni. Hvernig við svo vinnum úr þeim hefur mikið um framhaldið að segja.  Það getur verið talsvert átak að taka upp símtólið til að leita sér aðstoðar, sérstaklega þegar enginn tími er laus og mönnum er bent á að hringja síðar. Varðandi aðgengi að heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni þá eru vegalengdir  oft hamlandi og úrræðin fá. 
 
Það gjarnan einkennir fólk sem alið er upp í sveit að það er vant að klára verkefnin, enda hafa börn úr sveitum verið eftirsótt vinnuafl því þau hafa lært að það er ekki hætt fyrr en verkefnið er búið.  
 
En hvað þýðir þetta? Erum við svo hörð á því að klára verkefnin að við hundsum þær viðvaranir sem við fáum?  Er ábyrgðin í dagsins önn svo mikil að við látum heilsuna sitja á hakanum?
 
Öryggis- og heilsuverndarmál bænda
 
Á Búnaðarþingi 2013 var samþykkt að koma af stað verkefni um öryggis- og heilsuverndarmál bænda.  Í framhaldi af því var settur á laggirnar starfshópur sem vann að vinnuverndarverkefni sem hlaut síðar nafnið Búum vel – öryggi heilsa umhverfi, en markmið þess voru að bæta öryggis- og vinnuverndarmenningu í sveitum, fækka slysum í landbúnaði, stuðla að góðu vinnuumhverfi og bættri ásýnd bæja. Fyrst í stað voru öryggis- og umhverfismál efst á baugi og fjöldi bænda fékk heimsóknir og úttektir á búum sínum.  Núna nýverið var farið að huga alvarlega að heilsufarsþættinum. Sá hluti er búinn að vera í vinnslu  síðastliðið ár og var leitað fagþekkingar hjá læknum og fleiri heilbrigðisstarfsmönnum.  Nýverið var haldinn fyrsti kynningarfundurinn meðal bænda. Hann stóð svo sannarlega undir væntingum og verður gott veganesti í áframhaldandi þróun  heilsuverndarhluta verkefnisins. Þessi fyrsti fundur var haldinn í S-Þingeyjarsýslu og hafnar eru viðræður við búnaðarsambönd á fleiri svæðum. 
 
Það er okkur öllum heilsufarslega hollt að líta upp úr dagsins önn og gefa okkur tíma til að njóta lífsins með fjölskyldu og vinum.  Taka alvöru frí af og til  líkt og aðrar stéttir? Á Búnaðarþingi í mars var ákveðið skoða hvernig staðið er að afleysingamálum í nágrannalöndum okkar með það að markmiði að tryggja öllum bændum möguleikann á því að taka sér frí frá störfum því þau úrræði skortir í dag. Öll viljum við búa góðu búi. Er ekki lykilþáttur í því að taka sér frí, koma endurnærður heim á sál og líkama, tilbúin að takast á við þau verkefni sem fyrir liggja? 
 
Þegar upp er staðið þá er það okkar sjálfra að passa heilsuna, passa að keyra sig ekki út líkamlega og andlega. Oft þarf ekki mikið til að bæta líðan.  Mikilvægast er að leita sér hjálpar, hlusta á líkama og sál og taka ábyrgð á eigin heilsu. 
Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð
Fréttir 5. desember 2024

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð

Ný skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem fjögur erlend kúakyn voru borin s...

Skrásetja sögu brautryðjenda
Fréttir 5. desember 2024

Skrásetja sögu brautryðjenda

Sögur brautryðjenda í garðyrkju varpa ljósi á þá miklu þróun sem hefur átt sér s...

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland
Fréttir 5. desember 2024

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland

Eigendur Friðheima, Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir, munu taka við ...

Áfrýjar dómi
Fréttir 5. desember 2024

Áfrýjar dómi

Undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum féllu úr gildi með dómi Héraðsdó...

Mismunur bændum í óhag
Fréttir 5. desember 2024

Mismunur bændum í óhag

Í dag kostar 306 krónur að framleiða lítra af mjólk samkvæmt nýsamþykktum verðla...

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...