Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Margrét Ágústa skellti sér í hestaferð um helgina. Riðið var við Mýrdalsjökul og nágrenni. Gæðingurinn heitir Hrappur frá Árbæjarhjáleigu II.
Margrét Ágústa skellti sér í hestaferð um helgina. Riðið var við Mýrdalsjökul og nágrenni. Gæðingurinn heitir Hrappur frá Árbæjarhjáleigu II.
Mynd / Einkaeign
Fréttir 19. júní 2024

Óhrædd að takast á við áskoranir

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Tilkynnt var um ráðningu Margrétar Ágústu Sigurðardóttur í starf framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands á dögunum og tekur hún til starfa 1. ágúst nk. Margrét segist ekki veigra sér við að takast á við þau fjölbreyttu verkefni sem fram undan eru í starfi samtakanna.

„Ég hef alltaf verið svakalega heilluð af bændum og hef alltaf borið mikla og djúpa virðingu fyrir atvinnugreininni, landbúnaðinum sem slíkum. Mér finnst starfið áhugavert og er ég sá það auglýst var ég sannfærð um að ég gæti gert bændum og samtökunum gagn. Fyrir utan það hef ég haft gríðarlegan áhuga á íslenskum landbúnaði alla tíð og fannst því tilvalið að sækja um starfið. Það eru miklar áskoranir fram undan sem ég er sannfærð um að samtökunum muni vegna vel úr hendi.“

Margrét Ágústa, sem er alltaf kölluð Magga, er á 41. aldursári, fædd og uppalin í vesturbæ Reykjavíkur. Hún er dóttir hjónanna Sigurðar Árnasonar krabbameins- og lyflæknis og Helgu Erlendsdóttur, lífeindafræðings og klínísks prófessors. Margrét á tvö börn, Matthildi Helgu að verða 14 ára og Árna að verða 10 ára,og er í sambandi með Daða Hrafnkelssyni tannlækni. „Hann á fjögur börn á aldrinum 11–25 ára þannig að það er líf og fjör þegar fjölskyldan kemur öll saman,“ segir Margrét.

Hún á þrjú systkini, tvö á lífi. „Ég missti bróður minn úr heilaæxli þegar ég var 29 ára og hann 35 ára. Það hefur verið minn stærsti skóli í lífinu og í gegnum þann harmleik lærði ég að gefa óþarfa hlutum ekki of mikið rými. Hversdagslegir hlutir verða ekki að neinu í samanburði við það að upplifa svona sorg. Þess vegna er ég kannski enn jákvæðari að eðlisfari eftir missinn. Ef það koma upp vandamál þá leysir maður þau bara.“

Margrét er lögfræðingur og hefur starfað sl. sex ár hjá endurskoðunarfyrirtækinu PwC. Áður starfaði hún hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu í tæp sjö ár.

„Hjá PwC hef ég verið að sinna ýmsum málum, ekki bara út frá skattalegum sjónarhornum heldur út frá ýmsum lögfræðilegum álitaefnum, í raun hverju nafni sem nefnist,“ segir Margrét. Hún telur að sérfræðiþekking hennar í Evrópurétti geti nýst samtökunum vel. „Ég er sérfræðimenntuð í evrópskum og alþjóðlegum skattarétti, sú þekking mun vonandi koma að gagni þegar kemur að því að nálgast tollamál og tollverndina og annað, það sem snýr að ESB- regluverkinu, sem kemur í gegnum EES-samninginn og hvernig slíkt er útfært í íslenskri löggjöf og regluverki. Þess utan vann ég lengi vel í ráðuneytinu og vann þá náið með þinginu. Stjórnsýslan er mér því vel kunn.“

Vildi verða bóndi

Þrátt fyrir að vera borgarbarn er Margrét með sterkar taugar til sveitarinnar og sleit meðal annars barnsskónum á bænum Seglbúðum í Landbroti við Kirkjubæjarklaustur, þaðan sem hún er ættuð.

„Frændur mínir báðir voru ábúendur á jörðinni á mínum uppvaxtarárum og nú er annar þeirra ábúandi, ásamt konu sinni, á jörðinni. Áður fyrr vorum við með hrossin okkar þar í lengri tíð og tókum þátt í ýmsum bústörfum og ekki síst réttunum á haustin. Mér fannst allra skemmtilegast að taka þátt í heyskap en man sérstaklega vel eftir því þegar Gunni, stóri frændi minn, kastaði mér í hlöðuna, fulla af nýslegnu heyi, og ég missti andann í fyrsta skipti. Ég var búin að gleyma þessu þar til nú en ég þarf klárlega að minna hann á þetta. Í dag erum við fjölskyldan með bústað sem afi og amma komu sér upp,“ segir Margrét, en amma hennar hét Margrét Helgadóttir og var hún systir Jóns Helgasonar, fyrrum landbúnaðarráðherra og Framsóknarmanns. Þrátt fyrir að vera komin af Framsóknarkyni segist Margrét óflokksbundin. „Það er sama hvaðan gott kemur, þvert á flokkspólitík.“

Hún ætlaði snemma að verða bóndi. „Ég var í eilífðarstríði við Ófeig, frænda minn, um hver yrði betri bóndi. Ég var á þeim tíma mun sterkari en hann og gat stokkið yfir girðingar og náð hvaða hrossum og kindum sem var. Þess utan fór ég miklu fyrr að keyra bíl en hann og það hugnaðist honum illa. Hann fór stundum, eða reyndar mjög oft, í fýlu, enda krakki einu ári yngri, og kannski bara af því að ég vann hann í sjómann eða gat bakkað betur í stæði, þá níu ára. Ég var frekar kotroskinn krakki, vildi helst vera með fullorðna fólkinu og taka þátt í samfélagsumræðunni. Ég hef í raun og veru verið alveg ótrúlega óþolandi. Ég hafði alltaf skoðanir á öllu og hef enn. Krefjandi og kannski bara almennt frekar erfið, sérstaklega fyrir tólf ára aldurinn.“

Margrét stundar hestamennsku af miklum móð og kláraði nýlega nám í Reiðmanninum hjá Endurmenntun LbhÍ. Hún segir að hápunktur dagsins og hennar hugleiðsla felist í að fara í hesthúsið eftir amstur dagsins og sumrin eru jafnan undirlögð hestaferðum.

„Ég og kærastinn eigum núna samtals fimm hross og mig grunar að stóðið fari stækkandi. Framan af var ég mikið á heimaræktuðu. Við pabbi ræktuðum undan Mósu frá Hemlu, sem er meri sem var keypt handa bróður mínum heitnum á sjö þúsund krónur á sínum tíma. Hún var svakalega krefjandi og viljug, mögulega eins og ég var kannski. Núna erum við með síðasta heimaræktaða hrossið á húsi, sem er í reynd fjórði og síðasti ættliðurinn í ræktuninni okkar pabba míns.“

Tilbúin í samtalið

Margrét segist hlakka til samræðna við bændur. „Það sem heillar mig við starfið er að fá að tala við fólk. Þegar ég var barn voru mínar helstu gæðastundir með pabba þegar við rúntuðum um sveitirnar og heimsóttum bændur. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa hitt algjörar kempur eins og Villa á Hnausum, sem var einbúi í Meðallandi. Mér er einnig mjög minnisstætt að hafa heimsótt Þórð í Haga í Skorradal. Hann var með eitt auga og eitt sinn þegar við komum til hans var hann að gefa músum ostbita úr hendinni.“

Hún lítur björtum augum á nýja starfið og ætlar að láta hendur standa fram úr ermum.

„Mér finnst mikilvægt að samtökin séu í miklu og beinu samtali við félagsmenn. Eftir að ég tek til starfa 1. ágúst næstkomandi langar mig fyrst og fremst að eiga beint samband við félagsmenn, og þá byrja á því að eiga fundi með hverri búgreinadeild fyrir sig og heyra beint frá hverri deild hvað hún telur gott og hvað megi bæta í starfi samtakanna. Í framhaldi langar mig að sækja bændur heim og ræða beint við þá. Ég hlakka mikið til þess, enda ráðin til þess að gæta hagsmuna stéttarinnar í hvívetna.“

Bændur byggja rétt
Fréttir 22. október 2024

Bændur byggja rétt

Bændur í Steinadal á Ströndum stóðu að byggingu nýrrar réttar í Kollafirði og va...

Stofnverndarsjóður lagður niður
Fréttir 22. október 2024

Stofnverndarsjóður lagður niður

Stofnverndarsjóður íslenska hestakynsins verður lagður niður í lok árs. Sjóðurin...

Fyrirhuguð risaframkvæmd
Fréttir 21. október 2024

Fyrirhuguð risaframkvæmd

Um 220 herbergja hótel, baðlón og 165 smáhýsi er fyrirhugað að rísi í Ásahreppi.

DeLaval til Bústólpa
Fréttir 21. október 2024

DeLaval til Bústólpa

Umboðið á DeLaval-mjaltabúnaði færðist þann 1. október til Bústólpa á Akureyri.

Rýr uppskera af melgresi
Fréttir 18. október 2024

Rýr uppskera af melgresi

Fræskurður hefur staðið yfir í haust á vegum landgræðsluhluta Lands og skógar.

Fuglainflúensa víða
Fréttir 18. október 2024

Fuglainflúensa víða

Rökstuddur grunur er um fuglainflúensu í hröfnum og öðrum villtum fuglum.

Aukið fjármagn til Brothættra byggða
Fréttir 17. október 2024

Aukið fjármagn til Brothættra byggða

Verkefnið Brothættar byggðir hlýtur 135 milljóna króna aukafjárframlag frá Byggð...

Enn reynt að fá leyfi til veiða á ágangsfuglum
Fréttir 17. október 2024

Enn reynt að fá leyfi til veiða á ágangsfuglum

Fimm þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram þingsályktuna...