Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Hindber eru til margra hluta nytsamleg, hvort sem í eftirréttinn, ísinn eða í saft og sultur.
Hindber eru til margra hluta nytsamleg, hvort sem í eftirréttinn, ísinn eða í saft og sultur.
Mynd / EHG
Á faglegum nótum 4. ágúst 2016

Ofurfæðan hindber

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir

Hindber eru af brómberja- og rósa- ætt og eru að margra mati ofurfæða enda innihalda þau mikið magn andoxunarefna, C-vítamína ásamt A og B-vítamínum. Þau innihalda í raun meira magn C-vítamína en appelsínur, eru trefjarík, innihalda lítið af kaloríum og eru rík af fólinsýru.

Um 200 hindberjaplöntutegundir eru til í heiminum. Plönturnar eru gríðarlega öflugar og er í raun erfitt að halda þeim í skefjum því þær breiða úr sér með síðuskotum sem koma upp rétt við aðalplöntuna. Hindber eru sæt á bragðið og henta við ýmis tækifæri, sem eftirréttur með rjóma, í ís, saft, sultur og eða í salat. Hvert ber samanstendur af nokkrum litlum ávöxtum sem settir eru saman af einu fræi sem er þakið rauðu ávaxtakjöti. Klasi af slíkum ávöxtum verður síðan að heilu hindberi. Hvert hindber getur innihaldið á bilinu 100–120 fræ. Hindber geta verið rauð, fjólublá, gyllt eða svört á lit, þau gylltu eru sætasta tegundin og eru mjög bragðgóð.

Villihindber gegn reiði og gráti

Samkvæmt grískri goðafræði voru það hindber sem hjálpuðu Júpíter frá því að verða svikinn af sínum eigin föður. Satúrnus, sem var afbrýðisamur og hafði fyrir vana að borða börn sín. Þegar Júpíter var nýfæddur var hann sendur í skjól til Krítar þar sem Ida nokkur hugsaði um hann. Hún gaf honum hunang og geitamjólk til matar en það besta sem hún gat gefið honum voru hvít villihindber sem uxu í fjöllunum. Þau slógu á bæði grát og reiði en Júpíter hafði mikið skap. Þess vegna gerður Rómverjar hann að guði þruma og eldinga. Sem ungbarn var skap Júpíters svo mikið að móðirin hafði sent hann í burtu með nokkra djöfla, sem nefndust korybantar sem gátu með þrumuháum trommuslætti og eldgnístandi dansi yfirgnæft öskrin svo faðir hans gæti ekki komist á snoðir um hvar drengurinn var falinn.

Dag einn yfirgnæfði þó Júpíter yfir djöflunum og það var einmitt þá sem Ida greip til villihindberjanna í þeirri von að það myndi róa hann niður. Á meðan hún tíndi átti hún á hættu að skaða sjálfa sig á þyrni stráðum runnunum. Slíkt gerðist og blóðið rann niður á berin sem gaf þeim hinn rauða lit. Berin gerðu það að verkum að þau þögguðu niður í skapsmunum Júpíters, felustaður hans var áfram leyndur og hann óx upp og varð konungur guðanna. Upp frá þessu hafa guðirnir séð til þess að hindber séu ávallt rauð á lit.

Lækningamáttur hindberjaplantna

Ida var verðlaunuð ríkulega fyrir sína viðleitni af bæði guðum og manneskjum. Júpíter þakkaði henni fyrir umhyggju sína með því að senda hana til himna þar sem hún lifir um ókomna tíð sem stjörnumyndin Litli-Björn. Fólk kallaði fjöllin á Krít, þar sem Júpíter var alinn upp, Ida-fjöllin og berin sem voru svo skapgerðar-stillandi rubus idaeus eða rauðu berin hennar Idu.

Rubus er heiti úr latínu og kemur af ruber sem þýðir rauður og er sameiginleg lýsing á plöntufjölskyldu sem samanstendur af nokkur hundruð tegundum. Innan þeirra eru meðal annars brómber og moltuber.

Samkvæmt Hippokrates (460–370 f.Kr. ), voru hindber ræktuð bæði til matar- og lyfjagerðar í Grikklandi á hans tíma. Rómverjar voru einnig uppteknir af lækningamætti hindberjaplantna. Pedanioa Dioscorides, sem var læknir í rómverska hernum fyrstu árin eftir fæðingu Krists, safnaði saman kunnáttu um heilandi plöntur við Miðjarðarhafið. Í bókinni De Matria Medica eru nákvæmar lýsingar á um fimm hundruð plöntum og hvað hægt væri að nota þær í. Hindberja- og brómberjaplöntur sagði hann meðal annars geta læknað munnangur, linað þjáningar við ristilbólgum, vera góðar gegn lús, gyllinæð og fleiri kvillum. Einnig höfðu plönturnar góða virkni gegn hjartakvillum. Þegar hálf- þroskaðra berja var neytt átti það að stöðva niðurgang og blómin höfðu sömu virkni ef þau voru innbyrt saman með víni vel að merkja.

Gott gegn hálsbólgu og munnsárum

Hindber eru full af andoxunarefnum og C-vítamíni ásamt fleiri fæðubótarefnum. Menn uppgötvuðu snemma lækningamátt plantnanna. Þannig tuggðu Rómverjar blöðin til að losna við munnsár og hindberjasaft var talið geta komið í veg fyrir hálsbólgu. Te af hindberjablöðum er hægt að nota við fleiru en munnsári og bólgnum hálskirtlum því innan jurtafræða eru þau talin geta læknað niðurgang og linað túrverki. Efni í blöðunum gerir það að verkum að slímhimnan dregur sig saman. Aðrir hafa haldið því fram að í berjunum séu efni sem komi í veg fyrir krabbameinsmyndun og vírussýkingar.

Einnig er mælt með hindberjatei fyrir ófrískar konur því það vinnur gegn flökurleika á meðgöngu og hefur góð áhrif á grindarbotnsvöðvana sem getur haft það að verkum að fæðingin gengur betur fyrir sig. Teið flýtir einnig fyrir bata á kviðnum eftir barnsburð. Í kínverskum jurtafræðum eru óþroskuð, þurrkuð ber notuð gegn getuleysi á meðan þroskuð ber áttu að virka styrkjandi fyrir sjónina.

Vegur hindberjanna hefur farið víða og virðast vinsældir þeirra aukast með hverju árinu enda eru bragðgæði þeirra mikil og góð. Ekki skemmir heldur fyrir hversu rík þau eru af bætiefnum og hvað hægt er að nota þau sem bragðauka í marga mismunandi rétti. 

 

Hindberjaheiti á öðrum tungumálum

Sænska – Hallon, Skogshallon

Danska – Hindbær

Finnska – Vattu, Vadelma, Vaapukka

Enska – Raspberry, Red raspberry, European red raspberry, Wild raspberry

Þýska – Himbeere, Waldhimbeere

Franska – Framboise, Framboisier, Ronce du Mont Ida

Spænska - Frambueso

Japanska - Ezo-ichigo

6 myndir:

Skylt efni: hindber

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð
Fréttir 5. desember 2024

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð

Ný skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem fjögur erlend kúakyn voru borin s...

Skrásetja sögu brautryðjenda
Fréttir 5. desember 2024

Skrásetja sögu brautryðjenda

Sögur brautryðjenda í garðyrkju varpa ljósi á þá miklu þróun sem hefur átt sér s...

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland
Fréttir 5. desember 2024

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland

Eigendur Friðheima, Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir, munu taka við ...

Áfrýjar dómi
Fréttir 5. desember 2024

Áfrýjar dómi

Undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum féllu úr gildi með dómi Héraðsdó...

Mismunur bændum í óhag
Fréttir 5. desember 2024

Mismunur bændum í óhag

Í dag kostar 306 krónur að framleiða lítra af mjólk samkvæmt nýsamþykktum verðla...

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...