Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Kústur.
Kústur.
Á faglegum nótum 14. október 2016

Öflug naut úr 2010-árganginum

Höfundur: Guðmundur Jóhannsson ábyrgðarmaður í nautgriparækt
Fagráð í nautgriparækt ákvað á fundi sínum þann 29. september sl. að setja sjö naut úr 2010-árganginum í notkun sem reynd naut til viðbótar þeim sem áður voru komin til notkunar. Þetta var gert á grunni þess að nú í september var keyrt nýtt kynbótamat fyrir afurðaeiginleika. 
 
Þessi sjö naut eru Kústur 10061 frá Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi, Lúður 10067 frá Brúnastöðum í Flóa, Sólon 10069 frá Bessastöðum á Heggstaðanesi, Dropi 10077 frá Fossi í Hrunamannahreppi, Neptúnus 10079 og Úranus 10081 frá Hvanneyri í Andakíl og Úlli 10089 frá Dæli í Fnjóskadal.
 
 
Þarna eru á ferðinni geysilega öflug naut sem sést best á heildareinkunn þeirra en sem dæmi standa bæði Dropi 10077 og Úranus 10081 með 115 sem skipar þeim í hóp allra hæstu nauta. Sem stendur er Bambi 08049 efstur með 119 í heildareinkunn og næstir koma Koli 06003 með 118 og Birtingur 05043 með 117. Dropi 10077 og Úranus 10081 koma næst á eftir þeim.
 
Nautsfeður næstu mánuði verða Strákur 10011, Lúður 10067, Dropi 10077, Úranus 10081 og Úlli 10089. Áfram eru menn beðnir um að tilkynna um kálfa undan Keip 07054, Bláma 07058, Gusti 09003, Bolta 09021 og Fossdal 10040.
 
Þau naut sem falla úr notkun eru Logi 06019, Rjómi 07017, Flekkur 08029, Gói 08037, Gæi 09047, Ferill 09070, Dráttur 09081 og Drangi 10031. Þessi naut falla út af ýmsum ástæðum en flest þó vegna lítillar notkunar. Logi 06019 telst vera fullnotaður enda búinn að vera mjög lengi í notkun, sæði úr Flekk er nánast uppurið og Ferill er tekinn úr notkun vegna lágs fanghlutfalls.
 
Rétt er að líta aðeins nánar á þau naut sem koma ný til notkunar nú en þarna eru eins og áður sagði á ferðinni öflug naut.
 
Kústur 10061 er frá Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi, faðir er Gyllir 03007 og móðir Litla-Skessa 322 Tópasdóttir 03027. 
 
Dætur Kústs eru mjólkurlagnar með fremur há hlutföll verðefna í mjólk. Þetta eru fremur stórar kýr, í góðu meðallagi háfættar, boldjúpar en útlögulitlar með aðeins veika yfirlínu. Malirnar eru frekar grannar, beinar en þaklaga. Fótstaða er bein og sterkleg en aðeins hallandi um kjúkur. Júgurgerðin er mjög góð, júgurfesta mikil, júgurband áberandi og júgrin vel borin. Spenar eru vel gerðir, hæfilega grannir og stuttir og ákaflega vel settir. Mjaltir eru í meðallagi og lítið er um galla í mjöltum. Skap þessara kúa er nokkuð mikið.
 
Lúður 10067 er frá Brúnastöðum í Flóa, faðir er Gyllir 03007 og móðir Flauta 343 Ófeigsdóttir 02016. 
Dætur Lúðurs eru mjólkurlagnar, fituhlutfall í mjólk er um meðallag en próteinhlutfall gríðarhátt. Þetta eru fremur stórar kýr, nokkuð háfættar, boldjúpar með miklar útlögur en nokkuð veika yfirlínu. Malirnar eru fremur breiðar, aðeins hallandi og þaklaga. Fótstaða er bein og sterkleg. Júgurgerðin er úrvalsgóð, júgurfesta mjög mikil, júgurband mjög áberandi og júgrin ákaflega vel borin. Spenar eru vel gerðir, hæfilega grannir og stuttir og ákaflega vel settir. Mjaltir eru úrvalsgóðar og lítið er um galla í mjöltum. Skap þessara kúa er um meðallag.
 
Sólon 10069 er Bessastöðum á Heggstaðanesi, faðir er Ás 02048 og móðir Sólsrönd 254 Glannadóttir 98026.
 
Dætur Sólons eru mjólkurlagnar, fituhlutfall í mjólk er í góðu meðallagi og próteinhlutfall hátt. Þetta eru ágætlega stórar kýr, háfættar, prýðilega boldjúpar með ágætar útlögur og fremur beina yfirlínu. Malirnar eru meðalbreiðar, beinar og fremur flatar. Fótstaða er mjög góð, bein, rétt og sterkleg. Júgurgerðin er góð, júgurfesta í góðu meðallagi, júgurband nokkuð áberandi og júgrin vel borin. Spenar eru vel gerðir, hæfilega grannir, stuttir og vel settir. Mjaltir eru í góðu meðallagi og lítið er um galla í mjöltum. Skap þessara kúa er nokkuð.
 
Dropi 10077 er frá Fossi í Hrunamannahreppi, faðir er Glæðir 02001 og móðir Sletta 349 Stígsdóttir 97010.
 
Dætur Dropa eru mjólkurlagnar, fituhlutfall í mjólk er nokkuð undir meðallagi en próteinhlutfall er hátt. Þetta eru meðalstórar kýr, háfættar, fremur bolgrunnar með litlar útlögur og aðeins veika yfirlínu. Malirnar eru tæplega meðalbreiðar, nokkuð beinar en þaklaga. Fótstaða er mjög góð, bein, rétt og sterkleg.
Júgurgerðin er frábær, mikil júgurfesta, mjög áberandi júgurband og júgrin sérstaklega vel borin. Spenar eru vel gerðir, hæfilega grannir og stuttir og vel settir. Mjaltir eru góðar og mjög lítið er um galla í mjöltum. Skap þessara kúa er gott.
 
Neptúnus 10079 er frá Hvanneyri í Andakíl, faðir er Flói 02029 og móðir Sokka 219 Hegradóttir 03014. 
Dætur Neptúnusar eru prýðilega mjólkurlagnar og efnahlutföll í mjólk eru há. Þetta eru tæplega meðalkýr að stærð, fremur háfættar, boldjúpar með góðar útlögur og beina yfirlínu. Malirnar eru breiðar, nokkuð beinar og flatar. Fótstaða er mjög góð, bein, rétt og sterkleg. Júgurgerðin er öflug, góð júgurfesta, áberandi júgurband og júgrin mjög vel borin. Spenar eru vel gerðir, hæfilega grannir og stuttir og vel settir. Mjaltir eru úrvalsgóðar og mjög lítið er um galla í mjöltum. Skap þessara kúa er um meðallag.
 
Úranus 10081 er frá Hvanneyri í Andakíl, faðir er Síríus 02032 og móðir Urður 1229 Laskadóttir 00010. 
Dætur Úranusar eru gríðarlega mjólkurlagnar en fituhlutfall í mjólk er undir meðallagi en próteinhlutfall liggur nærri því. Þetta eru stórar kýr, háfættar, boldjúpar með miklar útlögur en aðeins veika yfirlínu. Malirnar eru breiðar, eilítið hallandi og nokkuð flatar. Fótstaða er góð, bein, rétt og sterkleg. Júgurgerðin er öflug, mikil júgurfesta, áberandi júgurband og júgrin ákaflega vel borin. Spenar eru vel gerðir, hæfilega grannir og stuttir en örlítið gleitt settir. Mjaltir eru frábærar og mjög lítið er um galla í mjöltum. Skap þessara kúa er mjög gott.
 
Úlli 10089 er frá Dæli í Fnjóskadal, faðir er Ófeigur 02016 og móðir Rán 476 Hyggsdóttir 05008. 
Dætur Úlla eru ákaflega mjólkurlagnar með hátt próteinhlutfall í mjólk og fituhlutfall nærri meðallagi. Þetta eru stórar og mjög háfættar kýr, boldýpt í meðallagi, útlögur fremur litlar en yfirlína nokkuð bein. Malirnar eru fremur grannar, beinar og þaklaga. Fótstaða er bein og sterkleg en aðeins þröng. Júgurgerðin er mjög góð, júgurfesta í góðu meðallagi, júgurband mjög áberandi og júgrin vel borin. Spenar eru vel gerðir, hæfilega grannir og stuttir og prýðilega settir. Mjaltir eru góðar og lítið er um galla í mjöltum.
Skapið er í meðallagi.
 
Þessi naut eru sett í notkun með algjöran lágmarksfjölda dætra með afurðaupplýsingar í nokkrum tilvikum. Það er því ljóst að afurðamat þeirra getur tekið breytingum við næstu keyrslur á kynbótamati. Hins vegar er staða þeirra hvað þá þætti varðar mjög sterk þannig að fagráð taldi óhætt að setja þau í notkun og endurnýja þannig hóp reyndra nauta allverulega. 
 
Segja má að afkvæmadómi 2010-árgangsins sé að mestu lokið. Á þessum tímapunkti eru aðeins tvö naut sem ekki eru komin með tilskilinn dætrafjölda með afurðaupplýsingar. Góðar líkur eru á að annað þeirra muni koma til notkunar en tvísýnna með hitt.
 
Þau reyndu naut sem áfram verða í notkun standa öll vel við fyrri dóm. Þetta eru Keipur 07054, Blámi 07058, Blómi 08017, Þáttur 08021, Gustur 09003, Bolti 09021, Strákur 10011, Fossdal 10040 og Bætir 10086. Helstu breytingar sem urðu á afurðamati þeirra eru þær að; Blómi 08017 lækkaði aðeins hvað mjólkurmagn varðar, og lækkaði þess vegna um eitt stig í heildareinkunn, Þáttur 08021 hækkaði aðeins fyrir afurðir en stendur í stað í heildareinkunn, Bolti 09021 hækkaði aðeins í prótein% og þess vegna um eitt stig í heildareinkunn, Fossdal 10040 lækkaði fyrir afurðir og um tvö stig í heildareinkunn og Bætir 10086 lækkaði nokkuð fyrir afurðir og um þrjú stig í heildareinkunn. Þessi naut standa eftir sem áður með sterkan afkvæmadóm og verða áfram í notkun.
 
Kynbótamat verður keyrt næst í nóvember að loknu október-uppgjöri. Ég vil því biðja menn að hraða skýrsluskilum fyrir október eins og mögulegt er, ná fullum skilum og skila mjaltaathugun sem keyrð var nú í september. Þannig náum við sem mestum upplýsingum með í næstu keyrslu.

8 myndir:

Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...

Vetnisknúin skip í smíðum
Fréttir 15. maí 2024

Vetnisknúin skip í smíðum

Smíði er hafin á tveimur vetnis­ skipum á vegum Samskipa. Áætlað er að þeim verð...

Drómasýki í hrossum
Fréttir 13. maí 2024

Drómasýki í hrossum

Drómasýki er vaxandi vandamál í íslenskri hrossarækt. Til stendur að stofna star...