Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Of mikil notkun sýklalyfja getur leitt til þess að þau verða gagnslaus
Fréttir 18. nóvember 2015

Of mikil notkun sýklalyfja getur leitt til þess að þau verða gagnslaus

Í lok ágúst árið 2013 báðu framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar og ráðherrar heilbrigðismála á Norðurlöndum Bo Könberg um að taka saman skýrslu um aukið samstarf Norðurlanda í heilbrigðismálum. Tillögurnar áttu að vera þess eðlis að hægt væri að hrinda þeim í framkvæmd á næstu fimm til tíu árum. Bo skilaði skýrslunni um mitt síðasta ár en ein af ályktunum hans er að gera þurfi átak á heimsvísu vegna aukins sýklalyfjaónæmis. Eftirfarandi texti er fenginn að miklu leyti úr skýrslu Bo Könberg, „Framtíðarsamstarf Norðurlanda í heilbrigðismálum“.
 
Bo Könberg er frjálslyndur, sænskur stjórnmálamaður. Á árunum 1991–1994 var hann heilbrigðis- og almannatryggingaráðherra í Svíþjóð og stjórnaði þá endurbótum á sænska ellilífeyriskerfinu. Könberg hefur tekið þátt í ýmsum úttektum á velferðarmálum í Svíþjóð.
 
Drögum úr notkun sýklalyfja
 
Meginniðurstaða skýrslunnar varðandi sýklalyfjaónæmi er að vinna þurfi markvisst og grípa til róttækra aðgerða gegn vaxandi sýklalyfjaónæmi og ónæmi tengdu lyfjum gegn berklum og malaríu. 
 
Bo Könberg. Hann vill meðal annars banna dýralæknum innan Evrópusambandsins að hagnast á sölu sýklalyfja.
Notkun sýklalyfja í mönnum er að meðaltali minni á Norðurlöndum en í öðrum hlutum Evrópu og hlutdeild norrænu landanna er lítil á heimsvísu. Mat Könberg var að Norðurlöndin ættu að setja sér sín eigin markmið um að draga hratt, það er að segja á næstu fimm árum, úr notkun sýklalyfja þannig að hún verði á við það sem lægst gerist í Evrópu, sem um þessar mundir er í Hollandi.
 
Í skýrslunni sagði enn fremur að Norðurlönd ættu að beita sér fyrir því á vettvangi Evrópusambandsins, Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og Sameinuðu þjóðanna að sem fyrst verði hrint í framkvæmd áætlun sem miðar að því að draga úr þeirri óeðlilega miklu notkun sýklalyfja sem nú tíðkast, að því að efla kerfi og samstarfshætti sem geta stuðlað að þróun nýrra sýklalyfja og að því að veita verðlaun fyrir slíka þróun. 
 
 
 
Eftirfarandi þrír þættir ættu að vera með í áætluninni:
  • Að gerð verði krafa um lyfseðla í þeim löndum þar sem heilbrigðiskerfið er nógu þróað til að það sé hægt og að tekið verði fyrir aukagreiðslur til lækna og sjúkrahúsa sem ávísa sýklalyfjum. Einnig að tekið verði fyrir að dýralæknar selji sjálfir sýklalyf sem þeir ávísa.
  • Öll lönd ættu að setja reglur og markmið um að draga úr eigin notkun.
  • Auka þarf hvata til þróunar nýrra sýklalyfja. Ríku löndin ættu að veita 15 milljörðum sænskra króna árlega á næstu fimm árum í það að efla kerfi og skipuleggja samstarf sem getur stuðlað að þróun nýrra sýklalyfja og í það að verðlauna þá sem finna upp og þróa ný lyf af þessu tagi.
 
25 þúsund dauðsföll í Evrópu leidd til sýklalyfjaónæmis
 
Þróun og fjöldaframleiðsla pensillíns og annarra sýklalyfja er á meðal helstu uppfinninga 20. aldarinnar. Þessi uppgötvun var gerð fyrir rúmlega 80 árum og árið 1945 voru Nóbelsverðlaunin í læknisfræði veitt fyrir hana. Einn verðlaunahafanna, Sir Alexander Fleming, varaði í þakkarávarpi sínu við því að of mikil notkun sýklalyfja í framtíðinni gæti leitt til þess að þau yrðu gagnslaus.Slík ofnotkun hefur verið stunduð lengi og ónæmið hefur fylgt henni. Árið 2013 mátti rekja að minnsta kosti 25 þúsund dauðsföll í Evrópu til vaxandi ónæmis fyrir sýklalyfjum. Um það bil jafnmargir létust í umferðarslysum í Evrópu sama ár. Í Bandaríkjunum er áætlað að meira en 23 þúsund manns hafi látist af sömu orsökum. Ofan á þetta bætist að þróun nýrra sýklalyfja hefur í raun og veru stöðvast. Fram til ársins 1970 bættist á þriðja tug sýklalyfja við. Eftir það hafa tvö ný lyf komið til sögunnar, hvorugt þeirra þó eftir árið 1987, segir í skýrslu Könberg.
 
Eftir því sem best er vitað eru engin ný lyf í vændum og miðað við hvernig þróunin lítur út eru litlar líkur á að ný lyf komi til sögunnar á næstu tíu árum að mati Könbergs.
 
Heilbrigðiskerfið háð sýklalyfjum
 
Ónæmi gegn sýklalyfjum veldur miklum vanda í heilbrigðiskerfinu vegna þess að heilbrigðiskerfi nútímans er algerlega háð sýklalyfjum. Könberg heldur því fram að sú þróun sem þegar er hafin og verði sífellt meira áberandi í framtíðinni sé aukin dánartíðni vegna sýkinga. Dauðsföllin geta til dæmis verið af völdum sára eða meiðsla eftir umferðarslys og einnig sýkinga á borð við lungnabólgu eða þvagfærasýkinga sem nú á dögum er litið á sem hættulausar vegna þess að hægt er lækna þær með sýklalyfjum. Ófært eða mjög áhættusamt verður að framkvæma margar líffæraígræðslur og skurðaðgerðir vegna þess að sýklalyf eru gefin bæði í fyrirbyggjandi skyni og eftir aðgerðir. Þegar glímt er við sjúkdóma sem veikja ónæmiskerfið, til dæmis krabbamein eða HIV smit, er algengasta dánarorsökin óviðráðanleg sýking.
 
Ofnotkunin á Norðurlöndum og í Evrópu er að öllum líkindum minni en í Kína, á Indlandi og í Bandaríkjunum. Engu að síður verður að draga úr henni, bæði til þess að leggja af mörkum til þess að draga úr vexti ónæmisins og til þess að geta unnið af enn meiri krafti að því að fá aðra heimshluta til að draga úr sinni notkun.
 
Sýklalyfjanotkun í landbúnaði
 
Fyrir utan ofnotkun á sýklalyfjum hjá mannfólkinu eru þau einnig notuð í miklum mæli í dýraeldi. Sýklalyfin eru hvort tveggja notuð gegn sýklum og af viðskiptalegum ástæðum í því skyni að auka vöxt. Síðarnefnda notkunin er ekki lengur leyfð innan Evrópusambandsins en leyfilegt er að gefa sýklalyf til að fyrirbyggja sjúkdóma og þar eru mörkin nokkuð óljós. Svíþjóð er dæmi um hvernig hægt er með góðum árangri að draga úr notkun sýklalyfja á dýrum. Í Svíþjóð hefur sýklalyfjagjöf til dýra minnkað um meira en þriðjung á síðustu sex árum og er nú líklega sú minnsta í Evrópusambandinu. Þetta hefur tekist með því að að beita aðgerðum til að bæta dýraeldi og hreinlæti. Notkunin er enn minni á Íslandi og í Noregi.
Þrátt fyrir að sameiginlegar reglur gildi í Evrópusambandinu um hvernig gefa eigi dýrum sýklalyf er enn mikill munur á löndunum. Í sumum aðildarlöndum Evrópusambandsins mega dýralæknar sjálfir selja þau sýklalyf sem þeir ávísa. Þetta getur leitt til þess að lyfjum verði ávísað oftar og í of miklu magni og það þarf að stöðva. Að mati Könbergs þarf að banna dýralæknum innan Evrópusambandsins að hagnast á sölu sýklalyfja. Munurinn á notkun sýklalyfja á dýr milli einstakra Evrópusambandsríkja er einnig mjög mikill eins og fram kom í umfjöllun Bændablaðsins þann 22. október sl. 
 
/ Heimild: Skýrsla Bo Könberg, Framtíðarsamstarf Norðurlanda í heilbrigðismálum,  www.norden.org/is/utgafa
Nokkrir bændur meðal styrkhafa
Fréttir 14. júní 2024

Nokkrir bændur meðal styrkhafa

Matvælaráðherra úthlutaði tæpum 500 milljónum króna úr Matvælasjóði þann 5. júní...

Ekkert hægt að gera
Fréttir 14. júní 2024

Ekkert hægt að gera

Æðarbændur fóru ekki varhluta af kulda og úrkomu á Norður- og Austurlandi í byrj...

Hretið seinkar vorverkum
Fréttir 13. júní 2024

Hretið seinkar vorverkum

Óveðrið sem gekk yfir Norður- og Norðausturland á dögunum hafði aðallega þau áhr...

ESA spyr um óvissuatriði breytinga á búvörulögum
Fréttir 13. júní 2024

ESA spyr um óvissuatriði breytinga á búvörulögum

Í byrjun maí sendi ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, erindi til matvælaráðuneytisins þ...

Viðbragðshópur vegna kuldatíðar
Fréttir 13. júní 2024

Viðbragðshópur vegna kuldatíðar

Matvælaráðherra hefur sett á laggirnar viðbragðshóp vegna þeirra erfiðleika sem ...

Bein og langvinn áhrif á búgreinar
Fréttir 13. júní 2024

Bein og langvinn áhrif á búgreinar

Matvælaráðherra stofnaði þann 7. júní sérstakan viðbragðshóp vegna ótíðarinnar á...

Sjálfbærninám á háskólastigi
Fréttir 12. júní 2024

Sjálfbærninám á háskólastigi

Fulltrúar Háskóla Íslands (HÍ) og Hallormsstaðaskóla hafa staðfest samstarfssamn...

Ætla að virkja sólargeisla og senda til jarðarinnar
Fréttir 11. júní 2024

Ætla að virkja sólargeisla og senda til jarðarinnar

Íslenska loftslagsfyrirtækið Transition Labs er komið í samstarf við breska fyri...