Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Horft yfir tilraunareitina í kornræktinni, en fimm tilraunir á korni eru í gangi. Hrannar stendur á milli tilraunareita í sáðmagnstilraun.
Horft yfir tilraunareitina í kornræktinni, en fimm tilraunir á korni eru í gangi. Hrannar stendur á milli tilraunareita í sáðmagnstilraun.
Mynd / smh
Fréttir 27. ágúst 2019

Nýtt upphaf jarðræktarrannsókna á Hvanneyri

Höfundur: smh
Í fyrravor flutti Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) höfuðstöðvar sínar frá Korpu í Reykjavík til Hvanneyrar.
 
Undir hatti Jarðræktar­mið­stöð­varinnar er öll verkleg til­raunastarfsemi háskólans á sviði jarðræktar sem aðallega skiptist á milli tilrauna með grastegundir, grænfóður og korntegundir auk jarðvinnslu- og sáðmagnstilrauna þetta árið. 
 
Hrannar Smári Hilmarsson, til­raunastjóri jarðræktarinnar við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, tekur á móti blaða­manni í Bútæknihúsinu á Hvanneyrar­torfunni. Þar hafa starfsmenn Jarðræktar­mið­stöðvarinnar, þau Hrannar og Jónína Svavarsdóttir, meðal annars aðstöðu. Með þeim er einnig Egill Gunnarsson, bústjóri á Hvanneyrarbúinu, sem blandast inn í starfsemi Jarðræktarmiðstöðvarinnar með sinn búskap. „Við nýtum okkur búskapinn hér á Hvanneyri með ýmsum hætti, meðal annars með því að planta tilraunareitum okkar inn á tún Hvanneyrarbúsins,“ segir Hrannar Smári. „Og raunar á það við um svo marga aðra þætti, eftir flutninginn hingað á Hvanneyri hefur starfsemi okkar einhvern veginn sjálfkrafa tengst inn á svo mörg svið háskólasamfélagsins hér. Það er til dæmis mjög gott að hafa starfsmenn RML (Ráðgjafarmiðstöðvar land­búnaðarins) hér í næsta nágrenni við okkur sem við hittum gjarnan í hádegismat – sem leiðir þá oft til skrafs og ráðagerða.
 
Þjónusta vísindamenn LbhÍ
 
Þegar Hrannar Smári er spurður um eðli starfseminnar segir hann að kannski megi henni lýsa þannig að það sé í þeirra verkahring að þjónusta vísindamenn landbúnaðarháskólans sem hafa einhver jarðræktarverkefni sem rannsóknarviðfangsefni. „Þeir hanna þá einhverja rannsóknaráætlun sem þeir byggja á því hvað er búið að gera í þeim efnum og hvað á eftir að gera. Síðan sækja þeir um styrk fyrir tilraunina og ef hann er samþykktur kemur það í okkar hluta að hrinda henni í framkvæmd.
 
En við sinnum líka prófunum á sáðvörum sem eru fluttar inn til landsins og mælumst til þess að yrki  séu ekki sett á markað fyrr en þau hafi verið prófuð við íslenskar aðstæður. Við lögðum til dæmis út grænfóðurtilraun í vor með öllum þeim yrkjum sem voru á markaðnum – líklega um sex hundruð reitir. Það má segja að gerjunin sé mikil í kynbótum á sumum sviðum græn­fóðurs en á öðrum sviðum er ekki nægileg framþróun. 
 
Svo höfum við hér á Hvanneyri millistigið til atvinnulífsins og bænda, sem er Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins. Þar er starfsfólk sem er læst á vísindin og getur túlkað þau fyrir fólkið sem þarf að hagnýta sér þau.“ 
 
Á Korpu var allt unnið í höndum; slegið með lítilli handsláttuvél, sýnataka, rakað og vigtað – allt með höndunum. Nú er öldin önnur og árið 2017 var tilraunareitasláttuvélin Iðunn tekin í gagnið og í vor bættist reitasáðvélin Freyr við. Í Iðunni er hægt að saxa uppskeruna um leið til sýnatöku og vigtunar – og upplýsingarnar eru síðan lesnar þaðan beint inn í tölvuna; til dæmis hversu mikið er í reitnum. Hrannar Smári Hilmarsson og Jónína Svavarsdóttir eru hér við nýju reitasáðvélina. 
 
Jarðræktarmiðstöðin tæknivæðist
 
„Áður fyrr voru litlar tilraunastöðvar úti um allt land,“ segir Hrannar Smári. „Hér hefur alltaf verið til­raunastöð en tilraunum hér fækkaði smám saman og var hætt alveg fyrir tveimur árum síðan. Það var starfmaður á tilraunastöðinni á Möðruvöllum í mörg ár en þegar hann fluttist suður lagðist hún af að mestu. Á Korpu var auðvitað miðstöð jarðræktartilrauna í langan tíma, þar sem Jónatan Hermannsson stýrði tilraunum lengi auk þess að vera byggkynbótamaður stofnunarinnar. Þegar hann fór á eftirlaun 1. janúar 2017 þurfti að hugsa hlutina dálítið upp á nýtt. Hvar erum við stödd og hvert stefnum við? 
 
Öll aðstaða var komin til ára sinna; húsin orðin mjög léleg og aðbúnaðurinn og tækjakosturinn í raun enginn. Þá snýst spurningin um það hvar ætti að byggja upp. Það var ákveðið að við myndum byrja á því að byggja upp hér í nánd við nemendur, í nánd við Hvanneyrarbúið og í nánd við sveitina. Hér er auk þess nægt jarðnæði og vannýttur húsakostur,“ segir Hrannar Smári sem hafði unnið við LbhÍ 2016, en hann tók svo við af Jónatan sem tilraunastjóri. „Það er auðvitað enginn einn sem kemur í staðinn fyrir Jónatan Hermannsson, þannig að kannski mætti segja að við urðum að marka okkur nýtt upphaf á þessum tímamótum. Hann skildi eftir sig góðan grunn til að byggja á og auðvitað eitthvað nýtt líka því hann var tilbúinn með tvö ný byggyrki sem við erum að gera klár fyrir markaðinn; Smyril og Val – auk þess sem fleira er í vændum úr hans smiðju.
 
Við höfum sumsé verið að tækni­væðast á undanförnum tveimur árum; árið 2017 tókum við í notkun nýja tilraunareitasláttuvél, sem fékk nafnið Iðunn, og í fyrra fengum við sáðvélina Frey sem einnig er ný. Þessi nýi tækjakostur hefur gjörbylt tilraununum má segja; bæði aukið afköstin og bætt nákvæmnina til mikilla muna. Við getum nú loksins framkvæmt mjög nákvæmar sáðmagnstilraunir með henni. Þær tilraunir nýtast kornbændum vel í því að ákveða hversu miklu korni þeir eiga að sá eftir mismunandi yrkjum – sem getur verið mjög breytilegt.
 
Næsta skref verður að fjárfesta í nýrri þreskivél fyrir kornið, en það er gríðarleg handavinna að vinna úr þeim tilraunum núna.“
 
Núna erum við bara með korn­tilraunir hér og á Möðruvöllum í Hörgárdal. Á undanförnum árum höfum við verið með tilraunir víðar eins og á Vindheimum í Skagafirði, Engihlíð í Vopnafirði, Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum, Gunnarsholti og Hoffelli í Austur-Skaftafellssýslu – og þannig þyrfti það að vera áfram til að hafa fjölbreyttar aðstæður. Engin tilraun er í gangi á Korpu, en við erum í sjálfu sér ekkert búin að pakka þar saman fyrir fullt og allt. Núna er svolítið millibilsástand á meðan nýju yrkin hans Jónatans eru að koma á markað, en þegar við þurfum að fara að prófa nýjan kynbótarefnivið munum við færa okkur aftur yfir á þessi svæði. Þegar efniviður Jónatans var í prófunum árið 2017 var honum sáð í 800 reiti á átta stöðum á landinu.
 
Varðandi grastegundirnar, þá væri það vafalaust mjög spennandi kostur að fara úr í dreifðar tilraunir á fjölærum grösum líka.“  
 
Hrannar og Jónína þreifa á höfrunum. Hrannar telur að það séu bjartir tímar framundan bæði í bygg- og hafraræktun, að hafrarnir geti til dæmis verið álitlegur kostur varðandi sáðskiptahring í akurrækt. 
 
Nýtt líf á Hvanneyri
 
Að sögn Hrannars Smára hefur Jarðræktarmiðstöðin öðlast alveg nýtt líf með flutningnum á Hvanneyri. „Það sem hefur raunverulega gerst er að starfsmenn háskólans sem áður komu ekki nálægt jarðræktartilraunum hafa nú verið meira en lítið hjálpsamir, til dæmis hafa þeir sem vinna hér í þessu Bútæknihúsi sýnt okkur mikinn áhuga og gert líf okkar miklu auðveldara. 
 
Hér erum við líka mjög vel sýnileg og vekjum áhuga hjá nemendum sem koma og skoða hvað við erum að gera. Það má líka segja að það sé í takti við tímann, þar sem æ meiri áhersla er nú lögð á jarðveginn og jarðvegsvísindi í landbúnaðarháskólum á Vestur­löndum. 
 
Hrannar Smári segir að þó að veður hafi verið mannfólkinu gott í sumar gildi ekki alveg það sama fyrir gróðurinn. „Þó svo að heyfengur sé almennt góður þá sér maður hér í sveitum að tún eru víða brunnin, þannig að það verður ekki alls staðar mjög góður heyfengur. Langvarandi þurrkar hægðu líka mjög  á vexti á ýmsum svæðum á Suður- og Vesturlandi. Sömuleiðis má segja að kornuppskeruhorfurnar séu misjafnar eftir landshlutum; á Norð-Austurlandi var tíðin erfið kornbændum vegna sólarleysis, en annars staðar er útlit ágætt.“ 
 
Þórey Ólöf Gylfadóttir, lektor við LbhÍ.

Smárablöndutilraun Þóreyjar

Í húsnæðinu sem áður hýsti Ull­ar­­selið á Hvanneyri var unnið við tegundagreiningu jurta úr jarð­rækt­artilraun Þóreyjar Ólafar Gylfa­dóttur, lektors við Land­bún­aðarháskóla Íslands, þegar blaða­mann bar að garði.  
 
„Þetta er úr tilraun þar sem verið er að prófa blöndur með grösum og belgjurtum. Tegundirnar sem við erum að vinna með núna eru hvít- og rauðsmári og grastegundirnar rýgresi, hávingul og vallarfoxgras. Hluti af efniviðnum eru forsmitaðar smárablöndur sem voru í boði hjá Líflandi og hluti „heimagerðar“ blöndur.  Við erum í raun að skoða hvernig blöndurnar standa sig eftir því hvaða tegundir eru saman – og berum saman við vallarfoxgras í hreinrækt,“ útskýrir Þórey.
 
„Meginmarkmið tilraunarinnar er að kanna og bera saman, uppskeru og fóðurgæði mismunandi gras- og smárablandna við misháa áburðar­skammta samanborið við hreint vallar­foxgras. Mikilvægt er að kanna nýjungar sem í boði eru fyrir bændur og bera saman við þann efnivið sem fyrir er og reynst hefur vel í tilraunum. Það er vel þekkt að smárablöndur gefa jafn mikinn eða meiri heyfeng við lægri áburðarskammta heldur en einrækt einstakra grasa. Því er mikilvægt að auka hlutdeild smárablandna í jarðrækt hér á Íslandi og hluti af því er að afla upplýsingar með rannsóknum svo hægt sé að komast yfir hugsanlegar hindranir á aukinni smáraræktun. 
 
Forsmitað smárafræ gæti stuðlað að aukinni notkun bænda á smárablöndum þar sem smitun smárafræsins hefur hugsanlega neikvæð áhrif á almenna notkun hans. 
 
Það er líka mjög mikilvægt að bera saman nægjanlega háa áburðarskammta á smárablöndur samanborið við fulla túnskammta til að geta dregið úr áburðargjöf.
 
Í þessari tilraun eru líka tveir mismunandi áburðarskammtar, 70 og 120 kgN/ha, en sá lægri á ekki að vinna á móti niturbindingu belgjurtanna sem fullur túnskammtur gerir, en ég vildi hafa hann með til samanburðar þar sem sumir bændur sem nota smárablöndur virðast samt sem áður bera mikið á.  
 
Þannig að í þessari tilraun eru mis­munandi blöndur og mismunandi áburðar­skammtar.  Það var sáð í þessa tilraun í fyrra og þetta er fyrsta uppskeruárið en þetta er skipulagt sem þriggja ára tilraun.  Til að geta vitað um hlutföll mismunandi tegunda í upp­skerunni tökum við sýni sem við greinum til tegunda. Þannig fáum við líka hlutfall illgresis eða tegunda sem ekki var sáð. Við vitum hvert hlutfall plantnanna er þegar við sáum þessu og síðan er að sjá hvernig þær spjara sig í sambýlinu við hinar plönturnar. Eina leiðin til að meta það er að taka þessi sláttursýni og meta þetta í höndunum; hlutfall tegundanna í uppskerunni,“ segir Þórey enn fremur.
 

6 myndir:

Mikill áhugi á íbúðum
Fréttir 7. október 2024

Mikill áhugi á íbúðum

Þrettán umsóknir um sex íbúðir á Kirkjubæjarklaustri bárust íbúðarfélagi Brákar.

Þrjár efstu frá sama bæ
Fréttir 7. október 2024

Þrjár efstu frá sama bæ

Fjórtán hryssur hljóta heiðursverðlaun fyrir afkvæmi í ár. Þrjár efstu hryssurna...

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Fréttir 4. október 2024

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust

Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir
Fréttir 4. október 2024

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir

Nýlega voru skipaði þrír forstjórar fyrir nýjar ríkisstofnanir sem urðu til með ...

Eftirlíking af hálfri kú
Fréttir 4. október 2024

Eftirlíking af hálfri kú

Nautastöð Bændasamtaka Íslands tók á dögunum í notkun eftirlíkingu af kú sem er ...

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti
Fréttir 3. október 2024

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti

Heilbrigðisnefndir kringum landið hafa gagnrýnt skort á kynningu á nýrri regluge...

Aðgerðaáætlun gefin út
Fréttir 3. október 2024

Aðgerðaáætlun gefin út

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir...

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjö...