Nýtt mælaborð í Jörð
Mælaborði hefur verið bætt í skýrsluhaldskerfið Jörð.is og auðveldar það bændum að fylgjast með stöðu skráninga.
Í nýjustu útgáfu af veflæga skýrsluhaldkerfinu Jörð.is er búið að bæta við „mælaborði“ þar sem bændur geta fylgst með stöðu skráninga á sínu búi, bæði með tölulegum upplýsingum og með myndrænni framsetningu á korti. Að sögn Borgars Páls Bragasonar hjá RML er einnig komin ný frétta- og tilkynningasíða í mælaborðið þar sem meðal annars koma fram upplýsingar um skiladaga skýrsluhaldsins.
Segir hann sem dæmi nú hægt að skoða á korti á hvaða tún búið sé að skrá áburðargjöf, kölkun, ræktun og uppskeru. Þá sé hægt að sjá á litakvarða hversu langt er síðan túnin voru síðast endurræktuð og upplýsingar um uppsöfnun búfjáráburðar.
Stefnt er, að sögn Borgars, að því að halda áfram þróun mælaborðsins með það að markmiði að bændur fái betri yfirsýn yfir skýrsluhaldsgögnin svo þau nýtist sem best við ákvarðanatöku í jarðræktinni.