Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Nýtt ár og nýjar áskoranir
Skoðun 11. janúar 2018

Nýtt ár og nýjar áskoranir

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Gleðilegt nýtt ár, kæru lesendur, með þökkum fyrir þau liðnu. Á síðasta ári var oft fjallað hér um vandamál sauðfjárræktar. Enn verður hún hér til umræðu. Eins og fjallað er um annars staðar hér í blaðinu hefur núverandi ríkisstjórn nú tryggt fjármuni til að koma til móts við greinina.
 
Í fjáraukalögum 2017 sem afgreidd voru á Alþingi samhliða fjárlögum 2018 skömmu fyrir áramót var samþykkt 665 milljóna króna fjárveiting ætluð til að hjálpa sauðfjárbændum að ná sér upp úr öldudal síðustu tveggja ára. Þar af renna 550 milljónir í beinan stuðning til bænda en afgangurinn til stoðverkefna. 
 
Þetta eru verulegir fjármunir og fyrir þá ber að þakka. Til viðbótar þarf þó einnig að taka til umræðu ýmis atriði tengd starfsskilyrðum sauðfjárframleiðslunnar til að koma í veg fyrir að staða sem þessi komi upp að nýju. Óskað verður eftir viðræðum um það innan tíðar.
 
Holl umræða um markaðsmál búvara
 
Sauðfjárræktin þarf einnig að líta í eigin barm og athuga hvar hún getur gert betur. Fullur vilji er til þess meðal bænda miðað við hvað margir sóttu opinn fund um markaðsmál lambakjöts sem haldinn var á Hellu á þrettándanum. Þar komu um 370 manns saman til að hlýða á erindi forystumanna sauðfjárbænda sem og framkvæmdastjóra IKEA og Kjötkompanísins sem veltu upp mörgum spurningum um hvort rétt væri staðið að sölu- og markaðsmálum lambakjöts. Sérstaka athygli vakti erindi Þórarins Ævarssonar, framkvæmdastjóra IKEA, þar sem hann sagði frá metnaðarfullum hugmyndum sínum um að selja margfalt meira lambakjöt og gagnrýndi einnig frammistöðu annarra við það. Ég vona að brýning hans hreyfi við þeim sem starfa á þessum markaði, en það má vissulega segja að stundum verði áföll eða krísur til að fá menn til að hugsa hlutina á nýjan hátt og vonandi verður það einmitt raunin hér.
 
Velviljaðir neytendur
 
Landbúnaðurinn snýst um að framleiða gæðavörur sem neytendur vilja kaupa og við skulum aldrei gleyma því að við verðum alltaf að viðhalda sambandinu við þá sem neyta framleiðslunnar. Það þarf sífellt að draga fram sérstöðu og kosti hennar – af hverju það ætti að kaupa okkar framleiðslu. Um það hefur oft verið fjallað hér, s.s. litla lyfja- og varnarefnanotkun, hreint vatn, strangar reglur um framleiðsluhætti og fleira. En það verður líka að gæta þess að framleiðslan sé unnin með þeim hætti og í því formi sem neytendur vilja. Í afurðafyrirtækjum landbúnaðarins á sífellt að vinna að nýsköpun og framþróun, það er verkefni sem lýkur aldrei og þar er alltaf hægt að gera betur. Neytendur eru mjög velviljaðir íslenskri framleiðslu en við getum aldrei tekið því sem gefnu.
 
Dýravelferðarmál og rétt upplýsingagjöf
 
Í liðinni viku var til dæmis fjallað nokkuð um dýravelferð í þættinum Samfélagið á Rás 1. Þar var rætt við forsvarsmenn samtakanna Velbú sem greinilega höfðu ekki réttar upplýsingar að öllu leyti um íslenskan landbúnað og töldu frásagnir af framleiðsluháttum erlendis eiga að mörgu leyti við hér. Það fær ekki staðist en þarna verður greinilega að gera betur til að upplýsa neytendur.
 
Ný lög um velferð dýra tóku gildi í ársbyrjun 2014. Í þeim eru mjög framsæknar reglur um velferð dýra og fylgja innleiðingu þeirra miklar áskoranir fyrir landbúnaðinn. Lögin og reglugerðir sem á þeim byggja gera ríkari kröfur til aðbúnaðar búfjár en áður hefur tíðkast. Markmiðið er að tryggja velferð og heilbrigði dýra með góðri meðferð, umsjá og aðbúnaði. Reglugerðir um einstakar dýrategundir lágu þó ekki allar fyrir fyrr en í byrjun árs 2015 og reglugerðin um gæludýr reyndar ekki fyrr en í byrjun ársins 2016. Þá loks má segja að umgjörðin hafi verið fullbúin.
 
Bændasamtök Íslands hafa alltaf fordæmt illa meðferð á dýrum enda hafa samtökin ávallt lagt áherslu á að íslenskur landbúnaður sé til fyrirmyndar hvað varðar dýravelferð og góðan aðbúnað. 
 
Það hafa komið upp tilvik hér á landi þar sem aðbúnaður var ekki eins og hann á að vera og fólki talin trú um annað. Dæmi eru um að neytendur hafi verið blekktir um árabil. Slíkt er óafsakanlegt og vonandi sjáum við ekki aftur slík dæmi.
 
Bændasamtökin hafa áður lýst yfir mikilvægi þess að eftirlit sé gott með þeim sem stunda landbúnað og matvælaframleiðslu og farið sé eftir lögum og reglum í hvívetna. Matvælastofnun hefur á síðustu árum þróað eftirlitskerfi og hefur fleiri úrræði en áður til þess að bregðast við slæmri meðhöndlun dýra. Hlutverk stofnunarinnar er að gæta þess að dýravelferðarmál séu í lagi. 
 
Bændafundir í næstu viku
 
Hér í blaðinu er svo kynnt fundaferð sem Bændasamtökin ætla að efna til í næstu viku til að hitta félagsmenn og ræða verkefnin fram undan. Bændafundirnir eru mikilvægur vettvangur til að segja frá því sem við höfum haft fyrir stafni hjá BÍ auk þess að heyra hvað brennur mest á félagsmönnum og hvaða verkefni þeir leggja áherslu á. Ég vonast til að sjá sem flesta félaga í samtökunum á einhverjum fundanna átján, en býð líka nýja félaga velkomna. Við erum því sterkari sem við erum fleiri.
Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...