Nýr íshellir til athugunar
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur lagt fram tillögu nýs deiliskipulags sem tekur til manngerðs íshellis á Langjökli.
Deiliskipulagið nær yfir fimm hektara svæði þar sem afmörkuð verður 3,5 hektara lóð og byggingareitur fyrir manngerðan íshelli. Aðkoma verður frá Skálpanesvegi, sem liggur að Kjalvegi skammt sunnan við Hvítárvatn. Auglýst hefur verið tillaga til aðalskipulagsbreytingar sem tekur til skilgreiningar á afþreyingar- og ferðamannasvæði á jöklinum.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur samþykkt framlagt deiliskipulag. Sveitarstjórn telur að brugðist hafi verið við umsögnum sem bárust vegna málsins með fullnægjandi hætti og mælist til að deiliskipulagið taki gildi. Skipulagsstofnun hefur farið yfir framlögð gögn en getur ekki tekið afstöðu þar sem leita þarf umsagnar forsætisráðuneytisins.