Nýju lífi blásið í gróðurstöðina að Tumastöðum
Skógrækt ríkisins rak á sínum tíma gróðurstöðvar víða um land. Ein þessara stöðva var á Tumastöðum í Fljótshlíð og þótti hún framleiða einstaklega góðar plöntur.
Af samkeppnisástæðum var Skógræktinni ekki heimilað að reka gróðrarstöð á Tumastöðum þótt skógræktin sjálf væri heimil. Síðan hefur stöðin verið í ýmsum höndum, síðast á vegum Barra ehf. sem varð gjaldþrota fyrir um tveimur árum.
Hjónin Óskar Magnússon og Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir á Sámsstaðabakka tóku stöðina á leigu í vor og stefna að því að endurreisa hana.
Sárt að horfa á stöðina í niðurníðslu
Óskar, sem er einn af stærstu eigendum Morgunblaðsins, segir að þeim hjónum hafi þótt óþægilegt að horfa á stöðina í niðurníðslu og grotna niður. „Ég hafði samband við Skógræktina og við söndum um að taka stöðina á leigu og við fengum hana formlega afhenta seint í vor.
Við erum ekkert sérstakt skógræktarfólk og höfum ekki stundað neina sérstaka skógrækt til þessa. Við kunnum vel við okkur í víðsýninu hér á Sámsstaðabakka. Leigan á Tumastaðastöðinni er því meira hugsuð til þess að skapa einhverja atvinnu og koma í veg fyrir að stöðin eyðileggist eins og þegar var byrjað að gerast.
Gróðurstöðin á Tumastöðum á sér farsæla sögu og naut á sínum tíma mikilla vinsælda og virðingar. Nafnið og staðsetningin er því traust og markmið okkar er að koma rekstrinum í gang aftur og reyna að láta hann standa undir sér.“
Sáðu 160 þúsund birkifræjum
„Fyrsta verk okkar var að sá 160 þúsund birkifræjum í bakka og setja þær í uppeldi í köldu gróðurhúsi. Við það skapaðist nokkur vinna í vor og sumar fyrir heimamenn héðan úr Fljótshlíðinni. Ég vonast því til að geta ráðið fleiri þegar starfsemin eykst og við getum farið að selja plönturnar.
Hrafn Óskarsson, starfsmaður Skógræktarinnar, er okkur svo innan handar með ráðgjöf varðandi ræktunina og ekki veitir af því að halda í höndina á okkur því við hjónin höfum ekkert fengist við þetta áður. Án hans miklu en hógværu þekkingar kæmumst við ekki langt.“
Óskar segir að þrátt fyrir að hafa ekki ræktað mikið í gegnum tíðina finnist honum það ekki leiðinlegt hlutverk í sjálfu sér. „Ræktun er í eðli sínu uppbyggileg og okkur hjónunum þykir spennandi að rótast í þessu.“
Aldrei neinn stóriðja
„Ég á ekki von á að gróðurstöðin á Tumastöðum verði nein stóriðja en ég hef samt trú á að stöðin geti vel risið undir fornri frægð með tímanum og að fólk komi á ný langan veg þangað til að kaupa plöntur.
Við munum að sjálfsögðu laga okkur að markaðnum og rækta þær plöntur sem fólk vill kaupa í dag og bæði selja til stærri kaupenda í útboðum og til einstaklinga sem heimsækja okkur heim á hlað.“
Var aldrei í sveit
Óskar slær og heyjar túnin á bökkum Sámsstaða svo að þau fari ekki í órækt þrátt fyrir að vera ekki með skepnur. „Ég var aldrei í sveit sem krakki og er líklega að fá útrás fyrir það núna,“ segir Óskar Magnússon að lokum.