Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Nýjar leiðir?
Skoðun 31. ágúst 2015

Nýjar leiðir?

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Undanfarna mánuði hefur verð á mjólkurafurðum á heimsmarkaði lækkað mjög mikið, í sumum tilvikum um helming. Það hefur valdið miklum erfiðleikum hjá kúabændum víða um heim þar sem verðið sem þeim stendur til boða dugir ekki fyrir framleiðslukostnaði. 
 
Ástæður þessa eru einkum þríþættar. Í fyrsta lagi hefur hægt talsvert á hagvexti í Kína. Afleiðingar þess eru meðal annars að dregið hefur úr eftirspurn eftir mjólkurvörum þar í landi, en hún hefur verið í stöðugum og hröðum vexti undanfarin ár. Í öðru lagi eru það aðgerðir Rússa gegn innflutningi á matvælum. Eins og fram hefur komið hafa Rússar lagt bann við innflutningi á matvælum frá flestum löndum Evrópu, þar með talið Íslandi. Það hefur þýtt að vörur sem ætlunin var að flytja þangað hafa leitað annað, með þeim afleiðingum að verð hefur lækkað á flestum mörkuðum. Í þriðja lagi er um að ræða afnám Evrópusambandsins á framleiðslustýringu á mjólk. Það hefur þýtt aukna samkeppni sem hefur enn frekar ýtt undir verðlækkanir.
 
Bændur í Evrópu ósáttir
 
Bændur eru eðlilega ósáttir við þetta ástand og hafa mótmælt víða í Evrópu, m.a. í Bretlandi og fyrirhugaðar eru umfangsmiklar mótmælaaðgerðir í Brussel í næsta mánuði. Þessi staða er vitanlega ósjálfbær. Fái bændur ekki fyrir framleiðslukostnaði þýðir það auðvitað ekki annað en gjaldþrot á endanum. Það sér allt sanngjarnt fólk, bæði neytendur, stjórnmálamenn og aðrir sem málið snertir. 
Flestum þykir líka vænt um sinn landbúnað og vilja standa vörð um hann. Staðan hefur líka orðið umhugsunarefni m.a. hjá frændum vorum Dönum, sem hafa um árabil rekið mjög útflutnings- og markaðsdrifinn landbúnað og lagt áherslu á stækkun búa. Þrátt fyrir þessa aðferðafræði hefur það ekki leitt til þess að afkoma greinarinnar hafi verið ásættanleg og núverandi ástand hjálpar sannarlega ekki til.
Það er athyglisvert að í Bretlandi og Danmörku hefur verslunin gripið inn í. Stórmarkaðir í þessum löndum hafa í sumum tilvikum hækkað verð á mjólk, með því skilyrði að hækkunin renni öll til bænda. Norska verslunarkeðjan REMA 1000, sem starfar í Danmörku og öðrum löndum, hækkaði t.d. mjólkurverð um 50 danska aura fyrir nokkrum dögum með þessum skilmálum og breska keðjan ASDA gerði slíkt hið sama. Líklegt má telja að fleiri sigli í kjölfarið. Neytendur eru að öllu jöfnu ekki hrifnir af verðhækkunum en í þessum tilvikum hafa þeir tekið hækkunum vel. Þeir vilja passa upp á sinn landbúnað.
 
Önnur staða á Íslandi
 
Hér á Íslandi er staðan nokkuð önnur. Um síðustu mánaðamót fengu kúabændur smávægilega hækkun á mjólkurverði eftir að það hafði verið óbreytt frá því í október 2013. Margir telja þá hækkun of litla og vel er hægt að rökstyðja að svo sé, en eftir sem áður var þetta hækkun, en ekki verðfall eins og erlendir mjólkurframleiðendur hafa mátt þola. Eins og fram hefur komið þá er verð til bænda á mjólk og heildsöluverð ákveðið af verðlagsnefnd búvöru og miðað við greiningar á því fyrirkomulagi hefur það skilað sér í lægra verði til neytenda en á flestum öðrum neysluvörum.
 
Verðlag á kjöti hérlendis er hins vegar frjálst á öllum stigum. Sauðfjárbændur eru til dæmis afar ósáttir þessa dagana enda er útlit fyrir að afurðaverð til þeirra í komandi sláturtíð standi í stað eða lækki frá fyrra ári. Svínabændur hafa einnig vakið athygli á því að verð til þeirra fer nú lækkandi á sama tíma og smásöluverð hækkar. Afkoman í kjötframleiðslu er í mörgum tilvikum fjarri því að vera nægilega góð.
 
Sauðfjárbændur hafa vakið athygli á að skipting kökunnar sé ekki sanngjörn. Það er að vísu nokkuð erfitt að meta skiptinguna þar sem kjötskrokkar nýtast í framleiðslu á mörgum vörum sem allar eru verðlagðar með sjálfstæðum hætti. Skiptingin verður aldrei að fullu ljós nema að afurðastöðvarnar gefi upp á hvaða meðalverði þeir selja skrokkinn frá sér. Það hafa þær ekki viljað gera hingað til og bera fyrir sig samkeppnissjónarmið. Það er skiljanlegt en það þýðir líka að notast er við gögn sem geta ekki sagt alla söguna.  Allt að einu er það sanngjarnt að vekja máls á skiptingu kökunnar og fjalla um hvort að það sé rétt gefið. Hlutarnir eru bara fjórir – bóndinn, afurðastöðin, smásalan og ríkið. Hvað er að því að það sé allt uppi á borðinu?
 
Íslenskur landbúnaður mikilvægur
 
En það er líka þannig hér á Íslandi að margir vilja standa vörð um landbúnaðinn. Það hefur ítrekað komið fram í könnunum að mikill meirihluti almennings telur mikilvægt að hér sé stundaður landbúnaður.
 
Greinin á því marga stuðningsmenn meðal neytenda. Verslunin hefur líka stundum talað hlýlega til bænda – þó að þar sé nú reyndar oft gert upp á milli þeirra eftir búgreinum. En myndi íslensk verslun til dæmis gera sambærilega hluti og nú eru að gerast erlendis – að hjálpa bændum að ná hærra afurðaverði? Það væri forvitnilegt að vita. Það væru sannarlega nýjar leiðir. 
Evrópa bjó sjálf til orkukreppu
Fréttir 9. desember 2021

Evrópa bjó sjálf til orkukreppu

Það sem getur farið úrskeiðis mun fara úrskeiðis, samkvæmt lögmáli Murphys. Leik...

Notkun lífræns áburðar og beitarfriðun aukist
Fréttir 9. desember 2021

Notkun lífræns áburðar og beitarfriðun aukist

Í skýrslu Landbótasjóðs segir að 2020 hafi verði úthlutað tæpum 95 milljónum kró...

Ísteka riftir samningum við bændur
Fréttir 8. desember 2021

Ísteka riftir samningum við bændur

Líftæknifyrirtækið Ísteka hefur rift samningum við þá bændur sem sjást beita hry...

New Holland T6 Metan, sjálfbærasta dráttarvélin 2022
Fréttir 8. desember 2021

New Holland T6 Metan, sjálfbærasta dráttarvélin 2022

New Holland dráttar­véla­framleiðandinn heldur áfram að sópa að sér verðlaunum o...

Konur borða meira af laufabrauði en karlar
Fréttir 8. desember 2021

Konur borða meira af laufabrauði en karlar

Um 90% þjóðarinnar borða laufabrauð um jólin samkvæmt könnun sem Gallup gerði fy...

Skortur á yfirsýn í úrgangs- og loftslagsmálum
Fréttir 8. desember 2021

Skortur á yfirsýn í úrgangs- og loftslagsmálum

Niðurstöður könnunar benda til skorts á yfirsýn í úrgangs- og loftslagsmálum. Sa...

Erfðabreytt búfé
Fréttir 6. desember 2021

Erfðabreytt búfé

Erfðafræðingar binda vonir við að með aðstoð erfðatækni megi koma í veg fyrir al...

Íbúar hópfjármagna byrjun framkvæmda
Fréttir 6. desember 2021

Íbúar hópfjármagna byrjun framkvæmda

„Undanfarin ár hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra lagt áherslu á að framkvæmdu...