Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Sigurgeir Hreinsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar.
Sigurgeir Hreinsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar.
Fréttir 22. september 2017

Nýjar fjósbyggingar eða breytingar á eldri húsum á yfir 20 bæjum

„Framkvæmdagleðin er vissulega mikil, mér telst svo til að framkvæmdir standi yfir við alls 22 nýjar byggingar víðs vegar um Eyjafjörð, þar er um að ræða að verið er að byggja alveg ný fjós, stækka þau sem eldri eru og eða gera aðrar breytingar á húsakosti til að bæta aðbúnað,“ segir Sigurgeir Hreinsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar.
 
Hann hefur grannt fylgst með gangi mála á svæðinu. „Bændur eru að vinna í sínum málum og gera það á misjöfnum hraða, sumir fara sér hægt og taka eitt skref í einu, aðrir reisa heilu húsin á mettíma.“
 
Svarfdælskir bændur standa í ströngu
 
Vakið hefur athygli að í Svarfaðardal hafa nú í sumar staðið yfir framkvæmdir á 6 bæjum þar sem umtalsverðar breytingar hafa verið gerðar á eldri húsakosti þar sem mjólkurframleiðsla er stunduð og eða að byggð eru ný fjós. 
 
Nýir mjaltaþjónar hafa verið eða verða teknir í notkun í kjölfar framkvæmda. Svarfdælskir kúa­bændur hafa valið sér fjórar tegundir af mjaltaþjónum. Í fyrrasumar og sumarið þar áður hafa bændur á nokkrum bæjum til viðbótar verið með álíka framkvæmdir á sínum bæjum. Þegar upp verður staðið og framkvæmdum lokið eru harla fáir bæir þar sem mjólkurframleiðsla er stunduð þar sem ekki verður búið að gera heilmikla bragarbót og breytingar á húsakosti.
 
Nýtt fjós er um þessar mundir í byggingu á Göngustöðum, á Hofsá hefur allt innvols verið rifið innan úr fjósi og hlöðu og verið að byggja upp á nýtt. Viðbygging er að rísa við Sökku þar sem verða legubásar fyrir kýr og eldra fjósi verður breytt fyrir gjafaaðstöðu með plássi fyrir mjaltaþjón. Á Melum er nýlegt fjós og unnið að því að innrétta hlöðu til viðbótar hinu nýja fjósi. Á Búrfelli standa svo yfir framkvæmdir við byggingu nýs fjóss og talsverð viðbygging er að rísa við Hól á Upsaströnd, skammt norðan Dalvíkur.  
 
Nýbyggingar og eða breytingar
 
Sigurgeir nefnir að víðar en í Svarfaðardal séu menn í framkvæmdahug. Þannig er unnið að umtalsverðri stækkun á fjósi við Höfða í Grýtubakkahreppi og á Nesi í sömu sveit er risin nýbygging til uppeldis. Þá standa yfir framkvæmdir og lagfæringar á byggingum í Sveinbjarnargerði og umtalsverðar endurbætur inn í fjós á Dálksstöðum í Svalbarðsstrandarhreppi. 
 
Í Eyjafjarðarsveit er verið að bæta við uppeldisaðstöðu í Garði og Staðarhóli, í Klauf standa yfir framkvæmdir við umtalsverða viðbót á aðstöðu í hlöðu, nýjar innréttingar verða settar upp á Kambi, á Stóra-Hamri er einnig verið að breyta og stækka uppeldisaðstöðu. Viðbygging sem m.a. mun hýsa mjaltaþjón er að rísa á Akri, nýtt fjós er í byggingu á Stekkjarflötum og við Gullbrekku standa yfir breytingar á hlöðu og bætt verður við aðstöðu fyrir gripi.
 
Þá má nefna að verið er að breyta hlöðu og bæta við aðstöðu fyrir gripi á Hlöðum í Hörgársveit, nýtt fjós er í byggingu á Syðri-Bægisá í sömu sveit og bændur á Auðnum hafa keypt Bakka og standa þar miklar endurbætur yfir. Loks má nefna að á Öxnhóli er verið að breyta hlöðu fyrir kýr og gera lagfæringar á fjósi.
 
Framkvæmdastyrkir standa til boða
 
Sigurgeir segir að vissulega hafi nýr búvörusamningur frá því í fyrra blásið bændum eldmóð í brjóst en í honum stóðu þeim framkvæmdastyrkir til boða. Greidd eru framlög vegna nýframkvæmda og endurbóta á eldri byggingum er varða umhverfi, aðbúnað og velferð gripa. 
 
„Annað atriði sem hvetur bændur mjög áfram í þessum efnum er aðbúnaðarreglugerð fyrir nautgripi þar sem fram koma lágmarkskröfur um ýmis atriði svo velferð dýranna verði sem best tryggð, heilbrigði þeirra og góð meðferð. Margir bændur hafa getað brugðist við með tiltölulega litlum framkvæmdum en aðrir þurfa að leggja út í mikinn tilkostnað svo þeim verði kleift að halda áfram sínum búskap og uppfylla reglugerðina. Nokkuð margir tóku þann pól í hæðina að ganga alla leið, fara út í alvöru framkvæmdir og byggja upp á nýtt, búa sér til eins fína og góða aðstöðu fyrir sinn búskap og kostur er,“ segir Sigurgeir.
 
80% kúa á legubásum
 
Eftir að bændur á þeim bæjum sem áður eru taldir hafa lokið sínum byggingaframkvæmdum segir Sigurgeir að um 80% allra kúa í héraði séu nú á legubásum. 
 
„Það er greinilegt að bændur eru verulega að spýta í lófana og þeir sýna mikinn metnað, að vissu leyti má segja að um val hafi verið að ræða, það er að drífa sig áfram eða bara að hætta mjólkurframleiðslu. Greinilega eru margir sem völdu að halda sér innan greinarinnar áfram og eru nú að byggja upp af miklum myndarskap,“ segir Sigurgeir. Hann bendir á að ekki sé endilega um hreina aukningu á framleiðslu mjólkur að ræða í héraði, þó svo að flestir bændur sem í framkvæmdum standa um þessar mundir auki við sig. Á móti hafi mjólkurframleiðslu verið hætt á 9–10 bæjum á starfssvæði sambandsins á liðnu ári. 
Aspir og wasabi ræktuð samhliða
Fréttir 24. maí 2024

Aspir og wasabi ræktuð samhliða

Nordic Wasabi er um þessar mundir að setja á innanlandsmarkað frostþurrkað wasab...

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“
Fréttir 24. maí 2024

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“

Jóhannes Geir Gunnarsson, bóndi á Efri-Fitjum í Vestur-Húnavatnssýslu, er bjarts...

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu
Fréttir 24. maí 2024

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu

Í samstarfsverkefni Matís og Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) er unnið að því a...

Samdráttur samfélags
Fréttir 23. maí 2024

Samdráttur samfélags

Póstþjónusta landsmanna hefur verið hitamál svo lengi sem menn muna og ekki síst...

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal
Fréttir 22. maí 2024

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal

Út er komin skýrslan Bætt orkunýtni og ný tækifæri til orkuöflunar. Hún hefur að...

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu
Fréttir 22. maí 2024

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu

Ábúendurnir í Hafrafellstungu í Öxarfirði fengu nafnbótina Bændur ársins 2023 í ...

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur
Fréttir 22. maí 2024

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur

Herdís Magna Gunnarsdóttir, nautgripabóndi á Egilsstöðum og stjórnarmaður í Bænd...

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva
Fréttir 22. maí 2024

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva

Starfsemi Kornræktarfélags Suðurlands var endurvakin á fundi kornbænda í Gunnars...