Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Frá Þórshöfn í færeyjum.  Mynd HKr.
Frá Þórshöfn í færeyjum. Mynd HKr.
Fréttaskýring 13. september 2018

Nýja færeyska leiðin

Höfundur: Guðjón Einarsson

Tekjur færeyskra stjórnvalda af veiðigjöldum og kvótauppboðum á þessu ári nema 4,7 milljörðum íslenskra króna. Sú fjárhæð jafngildir rétt rúmlega helmingi veiðigjalda á Íslandi á nýliðnu fiskveiðiári.

Sú var tíðin að andstæðingar kvótakerfisins á Íslandi bentu gjarnan á færeysku leiðina sem fyrirmynd að betra fiskveiðistjórnunarkerfi, en hún byggði á sóknardögum í stað kvóta. Nú hafa Færeyingar söðlað um. Á þessu ári tók gildi nýtt veiðikerfi í Færeyjum sem tekur mið af íslenska kvótakerfinu þótt á því séu ýmsar veigamiklar undantekningar.

Blandað kerfi hingað til

Reyndar hefur kvótakerfi verið við lýði í Færeyjum í veiðum á uppsjávarfiski í langan tíma og sömuleiðis í veiðum á fjarlægum slóðum, en á heimamiðum hefur botnfiskveiðum verið stjórnað með því að úthluta skipunum ákveðnum fjölda veiðidaga. Ekki er um það deilt að helstu botnfiskstofnum kringum Færeyjar hefur farið mjög hrakandi á liðnum árum. Þannig hefur afli botnfisks af heimamiðum dregist saman úr tæpum 140 þúsund tonnum árið 2005 niður fyrir 80 þúsund tonn undanfarin ár. Eitt af aðalmarkmiðum nýja fiskveiðistjórnunarkerfisins er að byggja upp fiskistofnana og gera veiðarnar sjálfbærar. Móta skal langtímastefnu um þróun hvers fiskistofns í samráði við fiskifræðinga.

Minni bátar áfram í dagakerfi

Upphaflega stóð til að afnema sóknardagakerfið með öllu og taka upp kvótakerfi fyrir öll skip, stór og smá, en vegna andstöðu varð niðurstaðan sú að minni bátarnir verða áfram í veiðidagakerfi en stærri skipum og bátum er úthlutað kvóta.

Í nýju lögunum er tekið fram að sjávarauðlindin sé í eigu færeysku þjóðarinnar og fiskveiðiheimildir megi aldrei verða einkaeign, hvorki samkvæmt lögum né í framkvæmd. Þá eru bein kaup og sala á kvótum milli manna óheimil. Til þess að veiðiheimildirnar geti skipt um hendur þarf að setja þær á uppboð. Að þessu leyti eru reglur um kvótaviðskipti þrengri í Færeyjum en á Ísland, en hérlendis er kvótasala frjáls sem kunnugt er.

Uppboð á veiðiheimildum

Þeir sem réðu yfir veiðiheimildum fyrir kerfisbreytinguna fá sóknar­dögum sínum breytt í kvóta til næstu átta ára en þá munu stjórnvöld ákveða hvernig endurnýjun þeirra verður háttað.

Veigamesta frávikið frá íslenska kvótakerfinu í færeysku löggjöfinni er það að hluti veiðiheimildanna í Færeyjum er settur á opinbert uppboð. Þannig eru 15% makrílkvótans, 15% síldarkvótans og 25% kolmunnakvótans boðin upp. Sömuleiðis eru 15% botnfiskveiðiheimilda Færeyinga á fjarlægum miðum sett á uppboð. Fari heildarkvótar í áðurnefndum tegundum upp fyrir viss mörk skal öll viðbótin boðin upp.

Beðið er með að bjóða upp botnfiskkvóta á heimamiðum þar til fiskstofnarnir þar fara að hressast, en það verður þegar þorskaflinn fer yfir 20.000 tonn, ýsuaflinn yfir 12.000 tonn og ufsaaflinn yfir 40.000 tonn. Þeir kvótar sem fara um uppboð eru seldir til skamms eða lengri tíma, allt frá einu ári og upp í 8 ár. Ef kaupandinn nýtir ekki allan keyptan kvóta rennur það sem afgangs er aftur til ríkisins óbætt.

Veiðileyfagjöld

Sá kvóti sem ekki fer á uppboð í Færeyjum sætir veiðileyfagjöldum. Sá er þó munurinn á íslensku og færeysku veiðigjöldunum að í Færeyjum eru botnfiskveiðar á heimamiðum enn sem komið er undanþegnar veiðigjöldum. Skýringin sem gefi er er sú að veiðigjöldin tengist afkomu og heimaflotinn á botnfiski hafi verið rekinn með tapi á undanförnum árum. Þegar það breytist er stefnt að því að öll færeysk fiskiskip greiði veiðigjöld.

Veiðigjöld í Færeyjum á uppsjávarveiðum á þessu ári eru sem hér segir: Fyrir makríl ein dönsk króna kílóið (16,77 ÍSK), fyrir síld 0,75 DKK (12,58 ÍSK) og fyrir kolmunna 0,20 DKK (3,36 ÍSK).

Þetta eru mun hærri veiðigjöld en tíðkast á Íslandi fyrir þessar tegundir. Núverandi gjöld á Íslandi eru 3,27 ÍSK/kg fyrir makríl og síld en 1,20 ÍSK/kg fyrir kolmunna.

Veiðigjöldin eru þannig fimm sinnum hærri í Færeyjum en á Íslandi fyrir hvert kvótakíló af makríl, tæplega fjórum sinnum hærri fyrir síld og um þrefalt hærri fyrir kolmunna. Þær veiðiheimildir sem farið hafa á uppboð hafa verið slegnar á eftirfarandi verði: Makríll 80-102 ÍSK/kg, síld 42-49 ÍSK/kg og kolmunni á 8-11 ÍSK/kg.

Veiðigjöld Færeyjar - Ísland

Ofangreindar upplýsingar fékk höfundur þessa pistils hjá færeyska sjávarútvegsráðuneytinu. Þar fékkst einnig upplýst að áætlaðar tekjur hins opinbera á þessu ári af veiðileyfagjaldinu næmu sem svarar 2.634 milljónum ÍSK og tekjur af kvótauppboðunum 2.064 milljónum ÍSK, eða samtals tæplega 4,7 milljörðum íslenskra króna.

Til samanburðar má nefna að álögð veiðigjöld á Íslandi á nýliðnu fiskveiðiári námu 9,3 milljörðum króna eða um helmingi hærri fjárhæð en í Færeyjum. Annars hafa veiðigjöldin á Íslandi sveiflast mikið á síðustu árum, voru hæst 12,8 milljarðar fiskveiðiárið 2012/13 og lægst 4,6 milljarðar fiskveiðiárið 2016/17, samkvæmt vef Fiskistofu.

Mikill stærðarmunur

Í þessum samanburði þarf að taka tillit til þess að verulegur stærðarmunur er á fiskveiðum Íslendinga og Færeyinga. Íslendingar veiddu tæplega 1,2 milljónir tonna af fiski árið 2017 samanborið við 700 þúsund tonn Færeyinga. Ekki tókst að fá upplýsingar um heildaraflaverðmæti Færeyinga hjá Hagstofu Færeyja, en nefna má að útflutningsverðmæti sjávarafurða frá Íslandi nam 197 milljörðum króna á síðasta ári samanborið við 76 milljarða íslenskra króna í Færeyjum (fiskeldi undanskilið). Verðmætið í Færeyjum er með öðrum orðum 39% af íslenska verðmætinu.

Þess ber að geta að uppsjávarfiskur er miklu stærri hlutur af heildarafla í Færeyjum en á Íslandi eða 83% á móti 60%. Útflutningsverðmæti uppsjávarfisks er 40% af heildarverðmætinu í Færeyjum en aðeins 22% á Íslandi miðað við árið 2017.

„Óbein gjaldtaka“ á Íslandi

Eins og að framan greinir eru veiðigjöld mun hærri í Færeyjum en á Íslandi á þeim tegundum sem gjöldin einskorðast við. Í skýrslu sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) tóku saman árið 2016 í aðdraganda nýju laganna í Færeyjum er lögð áhersla á að á Íslandi sé veiðigjald lagt á allar fisktegundir en í Færeyjum á aðeins þrjár, makríl, norsk-íslenska síld og kolmunna. Jafnframt sé mikilvægt að horfa til þess að sjómenn borgi hluta af veiðigjaldinu í Færeyjum, ólíkt því sem gerist á Íslandi. Þá er ennfremur vakin athygli á því sem kallað er óbein gjaldtaka í sjávarútvegi þar sem íslenska ríkið hafi til ráðstöfunar 5,3% af úthlutuðum aflaheimildum sem ráðstafað sé til strandveiða, línuívilnunar, byggðakvóta og annarra aðgerða.

Reyndar er í nýju færeysku lögunum svipað ákvæði, en þar er heimilt að taka frá allt að 8,5% af heildarkvótanum til þróunarverkefna sem stuðla að auknum verðmætum, einkum á stöðum þar sem atvinnuleysi er yfir meðallagi.

Útlendingana út

Af öðrum nýmælum í nýja kerfinu má nefna að enginn einn aðili má ráða yfir meira en 20% af heildaraflaheimildunum (hlutfallið er 12% á Íslandi) og hámarkið er 35% fyrir einstakar veiðigreinar, þ.e. uppsjávarveiðar, botnfiskveiðar á heimamiðum og veiðar á fjarlægum miðum.

Þá sætir það tíðindum að í nýju lögunum er eignarhald útlendinga í fiskveiðum bannað með öllu. Erlendum aðilum sem nú eiga í færeyskum útgerðum er gefinn sex ára frestur til þess að selja sig út. Sérstakt ákvæði gildir um Íslendinga í þessu efni en þeir fá sjö ára aðlögunarfrest. Sem kunnugt er á Samherji í útgerðinni Framherja í Færeyjum og fellur því undir þetta ákvæði. Þessar reglur gilda ekki um eignarhald útlendinga í fiskvinnslufyrirtækjum. 

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...