Ný og glæsileg gestastofa fyrir ferðamenn á Þingvöllum
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Nýlega var opnuð ný og glæsileg gestastofa á Hakinu í þjóðgarðinum á Þingvöllum í þeim tilgangi að útbúa betri aðstöðu fyrir móttöku ferðamanna fyrir ofan Almannagjá.
Í nýju stofunni eru fjölnota fyrirlestrarsalur, glæsileg gagnvirk sýning um sögu og náttúru Þingvalla, rúmgott anddyri fyrir upplýsingagjöf, verslun, veitingasala, skólastofa og skrifstofurými.
„Við erum afskaplega stolt og ánægð með nýju gestastofuna því með henni opnast enn meiri möguleikar í miðlun á sögu og náttúru Þingvalla og upplýsingagjöf til gesta þjóðgarðsins sem er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins með um eina og hálfa milljón ferðamanna á ári,“ segir Einar Á. E. Sæmundsen þjóðgarðsvörður.

Með gagnvirkni stofunnar er m.a. hægt að læra um ferðalög fornmanna til Þingvalla með gagnvirkum hætti, bregða sér í hlutverk lögsögumanns í lögréttu í sýndarveruleika, fræðast um lífríki Þingvallavatns og jarðsögu svæðisins.