Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Eins og sjá má er notkun sýklalyfja í landbúnaði langmest í þeim löndum sem framleiða megnið af því kjöti sem flutt er til Íslands.
Eins og sjá má er notkun sýklalyfja í landbúnaði langmest í þeim löndum sem framleiða megnið af því kjöti sem flutt er til Íslands.
Fréttir 25. ágúst 2017

Notkun breiðvirkra sýklalyfja í landbúnaði víða um lönd vekur ugg hjá vísindamönnum

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Nær alónæmir stofnar baktería breiðast nú um heiminn. Í stórum hluta slíkra tilfella hefur lyf að nafni colistín verið notað sem síðasta hálmstráið og virkað. Hins vegar hafa nú fundist bakteríur sem eru ónæmar fyrir colistíni og fundust þær bakteríur fyrst í Kína. Ástæðuna má að öllum líkindum rekja til þess að þar hefur gríðarlegt magn af colistíni verið notað í landbúnaði. 
 
Colistín ónæmið hefur nú þegar borist til Evrópu og finnst víða. Erfðaefnið sem segir til um þetta ónæmi er staðsett á svokölluðum plasmíðum sem geta auðveldlega borist á milli baktería. Hafa vísindamenn því einkar miklar áhyggjur af því að þessar bakteríur berist til nær alónæmra baktería og geri fleiri stofna alónæma.
 
Tengsl milli neyslu sýklalyfja og sýklalyfjaónæmis
 
Samþættar rannsóknir Matvæla­öryggis­stofnunar Evrópu (EFSA), Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) og Evrópumiðstöðvar um sjúkdómsvarnir og eftirlit (ECDC) benda á tengsl milli neyslu sýklalyfja og sýklalyfjaónæmis í mönnum og búfé.
 
Skýrslan tekur á sameinuðum gögnum um sýklalyfjanotkun og sýklalyfjaónæmi í mönnum og dýrum fyrir árin 2013–2015 og inniheldur uppfærðar niðurstöður og meiri sundurliðun en fyrsta samþætta skýrsla stofnananna sem kom út árið 2015. 
 
Búið er að uppreikna úr hefðbundinni notkun á stöðluðum dagsskömmtum í mönnum í mg/kg sem er sú eining sem notuð er fyrir sýklalyfja­notkun í dýrum. Heildarniðurstöður sýna að hlutfallslega er notkun sýklalyfja meiri í mönnum (152 mg/kg að meðaltali) en í dýrum (124 mg/kg), þótt heildarnotkun í kg sé meiri í dýrum en mönnum. Notkun í dýrum er minni í 18 af þeim 28 löndum sem rannsóknin náði til. 
 
Lítil sýklalyfjanotkun á Íslandi
 
Sýklalyfjanotkun í dýrum á Spáni, Ítalíu, Kýpur, Portúgal, Ungverjalandi og Þýskalandi er mun meiri en annars staðar í þeim löndum sem skýrslan tekur til. Notkun sýklalyfja í landbúnaði á Íslandi er með því allra minnsta sem gerist í Evrópu samkvæmt skýrslunni, og notkun sýklalyfja í menn er rétt undir meðallagi.
 
Tekin eru mörg dæmi um mismunandi sýklalyf sem eru notuð í dýrum og mönnum. Einnig má finna upplýsingar um einstaka dýrategundir. 
 
Notkun getur verið afar mismunandi en áhætta á sýklalyfjaónæmi og sýkingum er einnig mjög misjöfn eftir búfjártegundum. Auk þess er áhættan á því að smit berist úr dýraafurðum í menn afar misjöfn. 
 
Þannig er áhættan á smiti í gegnum nautalund tiltölulega lítil miðað við áhættu af kjúklingakjöti. Ástæðan fyrir því eru framleiðsluaðferðir kjötsins, auðvelt er að aðskilja meltingarfæri frá kjöti í vinnslu nauta á meðan áhættan við að þarmabakteríur mengist í kjötið er meiri við vinnslu kjúklings sem slátrað er og fláð á færibandi. 
 
Áhyggjur vísindamanna af algengu breiðvirku sýklalyfi
 
Meginniðurstöður benda á áhættu af dreifingu á flúórókínólóna sýklalyfjaflokknum. Lyfið er það breiðvirkasta sem hægt er að gefa um munn (þ.e. ekki stungulyf) og því hægt að gefa utan spítala. Það lyf sem mest er notað hér á landi í þessum lyfjaflokki er ciprofloxacin. Það er mikið notað í mönnum, t.d. við þvagfærasýkingum. Ónæmi hefur aukist í kjölfar notkunar á lyfinu og tengist það notkun á því samkvæmt skýrslunni. 
 
Flúórókínólón eru einnig notuð í landbúnaði í sumum löndum, sem vekur ugg vísindamanna, sér í lagi vegna þess að lyfin brotna afar hægt niður í umhverfinu. Því geti lyfin safnast saman í umhverfi dýra og matvælaræktunar í gegnum búfjáráburð. Þetta er sérstaklega vandamál í tilfellum verksmiðjubúskapar þar sem landsvæði eru þaulnýtt. Þessi lyf eru einnig áhættusöm fyrir aðra sýklalyfjaflokka því að notkun þeirra eykur ekki aðeins ónæmi fyrir þeim sjálfum heldur einnig fyrir öðrum sýklalyfjaflokkum.
 
Meiri áhætta af kjúklingi en nautakjöti
 
Þannig kemur fram sterkt samband milli neyslu kjúklinga á flúórókínólónum og ónæmi fyrir E. coli frá kjúklingum. Samkvæmt niðurstöðum eykst ónæmi með meiri notkun. Þetta á einnig við um kampýlóbakter í kjúklingum, en afar algengt er að kjúklingakjöt, framleitt í þauleldi í Evrópu, sé mengað af bakteríunni. 
 
Við það bætist að flestir þaulræktaðir kjúklingar t.d. á Spáni, þar sem sýklalyfjanotkun í landbúnaði er með því mesta í Evrópu, eru einnig ónæmir fyrir sýklalyfinu ciprofloxacin. Þannig er stór hluti af kampýlóbakter í kjúklingunum ónæmur fyrir aðalsýklalyfinu sem notað er gegn sýkingu. Þetta skapar tvöfalt vandamál.
 
Einkennalaus dreifing
 
Í rannsókninni er litið til gagna sem til eru um meðhöndlun á salmonellu og kampýlobakter og E.coli. Sjónum hefur á undanförnum árum verið einkum beint að E. coli vegna þess að bakterían dreifist einkennalaust.
 
Þannig verða einstaklingar sem smitast af salmonellu og kampýlóbakter iðulega veikir og þess því skýrt varir á meðan E. coli getur sameinast eðlilegri þarmaflóru án allra einkenna.
 
Af því leiðir að ónæm baktería af E.coli stofni getur borist og lifað í líkama einstaklinga án þess að einkenna þess verði vart fyrr en í harðbakka slær, þ.e. þegar manneskja fær sýkingu og lyf við henni virkar ekki.
 
Margþætt vandamál
 
Sýklalyfjaónæmi er margþætt vandamál og Matvæla­öryggis­stofnun Evrópu og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hafa ítrekað bent á að  heildstæðar aðgerðir til varnar útbreiðslu sýklalyfjaónæmis sé þörf, það nái bæði til lýðheilsu manna og dýra. Ný sýklalyf eru ekki í sjónmáli og því þurfi að reyna að hægja á aukningu ónæmis með öllum ráðum. 
 
Hluti af því er miðlun upplýsinga um málefnið, svo einstaklingar geti tekið upplýstar ákvarðanir er varða smitleiðir og áhættur þess að sýkjast af ónæmum bakteríum.
Stefnir í takmarkanir á veiðum grágæsa
Fréttir 2. desember 2022

Stefnir í takmarkanir á veiðum grágæsa

Þar sem fjöldi skráðra grágæsa á talningastöðum á Bretlandseyjum er 30% færri en...

Minkur til Danmerkur
Fréttir 1. desember 2022

Minkur til Danmerkur

Hópur danskra minkabænda, sem kallast Dansk mink, vinnur nú að því að endurvekja...

Frummenn vildu vel steiktan fisk
Fréttir 30. nóvember 2022

Frummenn vildu vel steiktan fisk

Rannsóknir á beinaleifum vatnakarfa sem fundust þar sem í dag er Ísrael benda ti...

Fyrsti rafmagnssteypubíllinn á leiðinni til landsins
Fréttir 30. nóvember 2022

Fyrsti rafmagnssteypubíllinn á leiðinni til landsins

Steypustöðin gekk nýlega frá samningi við steypudælu og -bílaframleiðandann Putz...

Ný sálmabók tekin í notkun
Fréttir 29. nóvember 2022

Ný sálmabók tekin í notkun

Þann 13. nóvember sl. var ný útgáfa sálmabókarinnar tekin í notkun í kirkjum lan...

Fljúgandi bolabítur
Fréttir 28. nóvember 2022

Fljúgandi bolabítur

Skömmu eftir miðja nítjándu öld lýsti Alfred Russel Wallace, sem var samtímamaðu...

Hjólreiða- og göngustígur milli Hellu og Hvolsvallar?
Fréttir 28. nóvember 2022

Hjólreiða- og göngustígur milli Hellu og Hvolsvallar?

Nú eru uppi hugmyndir um að leggja hjólreiða- og göngustíg á milli Hellu og Hvol...

Sólarorkuver á fjósþaki
Fréttir 25. nóvember 2022

Sólarorkuver á fjósþaki

Á Eystri-Leirárgörðum var nýlega sett upp raforkuver á útihús. Þetta er hluti af...