Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Norskir ráðgjafar vilja þvera Þorskafjörð
Fréttir 13. júlí 2018

Norskir ráðgjafar vilja þvera Þorskafjörð

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Norskir ráðgjafar telja að þverun Þorskafjarðar með 800 metra brú sé besti kosturinn fyrir veg um Gufudalssveit. Skýrsla ráðgjafanna var kynnt á opnum fundi á Reykhólum miðvikudagskvöldið 27. júní.

Þessi niðurstaða er enn einn snúningurinn sem tekinn er á þessu makalausa vegalagningarmáli sem truflað hefur þróun byggðar og atvinnuuppbyggingu  á Vestfjörðum í áratugi.

Talin möguleg leið til sátta

Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti í mars að fara svokallaða Teigsskógarleið í afgreiðslu skipulags. Mánuði síðar gekk hreppsnefnd að tilboði Hagkaupsbræðra, Sigurðar Gísla og Jóns Pálmasona um að þeir kostuðu rýni norsku verkfræðistofunnar Multiconsult á  tillögur Vegagerðarinnar, um legu Vestfjarðavegar um Gufudalssveit. Með þessu hugðist hreppsnefnd reyna að ná sátt um verkið, sem hart hefur verið tekist á um í áratugi. Vegagerðin vill fara svokallaða Þ-H leið um Teigsskóg. Það er ódýrasta leiðin en Landvernd hefur m.a. barist hart gegn henni og talið hana valda miklum umhverfisáhrifum.

Multiconsult skoðaði fimm tillögur Vegagerðarinnar að vegstæðum um Gufudalssveit. Stofan lagði til breytingar á leið D2 með styttri jarðgöngum undir Hjallaháls, og lagði svo til nýjan valmöguleika við þverun Þorskafjarðar sem þeir kalla leið R. Sú leið liggur um byggðina á Reykhólum og þverar Þorskafjörð við mynni hans. Þetta er svipað fyrri tillögu Vegagerðarinnar, A1, nema að í tillögu Norðmanna er gert ráð fyrir 800 metra hábrú.

Telja nýja leið besta kostinn

Multiconsult telur leið R litlu dýrari en leið Þ-H um Teigsskóg. Vegagerðin gerði einnig tillögu að leið sem þverar Þorskafjörð, svokallaða A1-leið. Hún var ekki talin koma til greina vegna kostnaðar, umhverfisáhrifa og skorts á rannsóknum.

Multiconsult telur að brúin eigi ekki að hafa afgerandi áhrif á sjávarföll í innri hluta fjarðarins. Þá telur Multiconsult að veglína um Reykhóla hafi góð áhrif á byggðina. Því er niðurstaðan að leið R hafi fleiri kosti en aðrar leiðir og sé góð málamiðlun.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps hyggst á næstu dögum taka afstöðu til niðurstöðunnar í samráði við Vegagerðina. Vegagerðin reiknar með að taka þennan kost til frekari skoðunar óski Reykhólahreppur eftir því, en gerir þó margvíslegar athugasemdir við skýrslu Multiconsult. Frumathugun á leið R gæti í fyrsta lagi legið fyrir síðla hausts 2018, segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.

Möguleg uppspretta nýrra deilna

Hugmyndir um þverun fjarðarins hafa áður verið harðlega gagnrýndar og taldar raska lífríki fjarðarins verulega. Svipuð gagnrýni var uppi þegar Gilsfjörður var þveraður 1997.

Miðað við forsögu málsins gæti þessi nýja tillaga um þverun Þorskafjarðar  því hæglega orðið uppspretta áratuga deilna, kærumála og málaferla.

Góður kostur fyrir sjávarfallavirkjun

Bjarni M. Jónsson, sérfræðingur í auðlindastjórnun, lagði fram hugmyndir árið 2010 um þverun Þorskafjarðar og að í brúarstæði yrði komið fyrir sjávarfallavirkjun. Vann hann málið áfram í gegnum nýsköpunarfyrirtækið Vesturorku í samvinnu við verkfræðistofuna Verkís ehf. Niðurstaðan var að miðað við uppsett afl 60 MW og 179 GWh framleiðslu  á ári, var heildarkostnaður áætlaður tæpir 14 milljarðar króna.


R-leiðin kemur á óvart segir sveitarstjóri

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps segir að ráðleggingar norsku ráðgjafanna komi nokkuð á óvart. Brú yfir mynni Þorskafjarðar samkvæmt leið A1 hafi reyndar alltaf verið inni í umhverfismatinu ásamt öðrum kostum.

Sú leið var m.a. gagnrýnd vegna umhverfisáhrifa á lífríki fjarðarins.  Ingibjörg segir að í leið ÞH séu um þrjár þveranir að ræða með 6 snertipunktum við fjöru en bara tveim í R-leið Norðmanna. Þá segir hún að Multiconsult telji að 800 metra hábrú muni ekki hafa áhrif á sjávarstöðu og vatnaskipti fjarðarins frá því sem nú er.

Vegagerðin telur kostnaðarmat Multiconsult verulega vanmetið, en Norðmennirnir telja að ný tækni við brúargerð sem reynst hafi vel í Noregi muni breyta dæminu.

„Þýðingin gagnvart þessu og því ferli sem við erum í núna er að Skipulagsstofnun telur að við þurfum ekki að stöðva ferlið, en getum sett þetta inn. Það eru þá komnir inn nýir hagsmunaaðilar með þessari leið og því þarf að fara í rannsóknir varðandi þætti sem snerta þessa brúargerð.“

Búast má við nýjum átökum

– Horfandi á forsögu þessa máls með áratuga þrætum, má ekki búast við öðru eins ef skipt verður um stefnu í málinu núna?

„Jú, en Teigsskógur nýtur verndar samkvæmt náttúruverndarlögum sem hefur verið sterkasta vopn þeirra sem barist hafa gegn þeirri leið. Þessi R-leið myndi ekki fara í gegnum neitt náttúruverndarsvæði, en færi samt sem áður í gegnum landbúnaðarsvæði sem yrði örugglega ekki sátt um heldur. Það er því mörgum spurningum ósvarað.

– En geta menn beðið endalaust eftir niðurstöðu?

„Nei, það sem hefur komið út úr þessu öllu saman er að fólk er farið að meta tímann sem stærri þátt í dæminu. Sveitarstjórnin mun setjast niður með Vegagerðinni og reyna að finna niðurstöðu um hvort við höldum áfram óbreyttu ferli og auglýsum þá ÞH-leiðina sem við höfum fullt leyfi til að gera, eða hvort við setjum þennan nýja kost inn í skipulagið.

Ég held að við verðum samt allavega komin fram á árið 2019 áður en hægt verður að gefa út eitthvert framkvæmdaleyfi,“ segir Ingibjörg.

Hægt að kæra í það endalausa

Hún segir að fólk óttist að áfram verði kært ef haldið verði áfram með Teigsskógarleiðina. Aðspurð um hvort þá sé ekki galli í umhverfisverndarlögunum ef hægt sé að kæra út í það endalausa, segir Ingibjörg:
„Jú, árið 2011 var lögunum breytt á þann veg að sett var inn þessi setning að ekki megi fara yfir svæði sem nýtur náttúruverndar nema brýna nauðsyn beri til. Enginn getur svo skilgreint hver sú brýna nauðsyn þarf að vera. Sveitarfélagið er nú í fyrsta skipti að reyna að skilgreina það til að geta farið þessa leið. Það er því vitað mál að það verður látið reyna á okkar rök.“

Ingibjörg segist þó vonast til að botn fari að nást í þetta mál til hagsbóta fyrir þá sem nota þurfa veginn. 

Skylt efni: Þorskafjörður | Vegagerð

Nóg af sæði í hafrastöðinni
Fréttir 8. nóvember 2024

Nóg af sæði í hafrastöðinni

Nóg er til af frystu hafrasæði og geitabændur hvattir til að nýta sér það til að...

Eggjaskortur vegna dýravelferðar
Fréttir 8. nóvember 2024

Eggjaskortur vegna dýravelferðar

Litlar birgðir á eggjum í verslunum má rekja til umfangsmikilla breytinga sem bæ...

Hveitikynbætur alger nýlunda
Fréttir 8. nóvember 2024

Hveitikynbætur alger nýlunda

Á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands er verið að hefja vinnu að hveitikynbótum í f...

Japanir ætla sér mikla hluti í ræktun á Íslandi
Fréttir 7. nóvember 2024

Japanir ætla sér mikla hluti í ræktun á Íslandi

Japanskt fyrirtæki hyggst bæta hrísgrjónarækt við jarðarberjaframleiðslu sína á ...

Nýr verðlagsgrunnur og ný verðlagsnefnd
Fréttir 7. nóvember 2024

Nýr verðlagsgrunnur og ný verðlagsnefnd

Drög að nýjum verðlagsgrunni kúabús liggja fyrir, sem er uppfærsla á grunninum f...

Jafnvægisverð lækkar áfram
Fréttir 7. nóvember 2024

Jafnvægisverð lækkar áfram

Á markaði með greiðslumark í mjólk, haldinn 1. nóvember, myndaðist jafnvægisverð...

Áframhaldandi vöxtur í neyslu og framleiðslu á kjúklingi
Fréttir 7. nóvember 2024

Áframhaldandi vöxtur í neyslu og framleiðslu á kjúklingi

Nýtt kjúklingframleiðsluhús er á teikniborðinu á Miðskógi í Dölum, sem verður sö...

Framleiðslan dregst saman um 340 tonn
Fréttir 7. nóvember 2024

Framleiðslan dregst saman um 340 tonn

Áfram heldur þeim lömbum að fækka sem koma til slátrunar ár hvert. Í liðinni slá...