Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Neytendur eiga rétt á að vita
Mynd / BBL
Á faglegum nótum 3. júlí 2017

Neytendur eiga rétt á að vita

Höfundur: Svavar Halldórsson
Samband íslenskra bænda og íslenskra neytenda er einstakt og náið. Það byggir á trausti, heiðarleika og greinargóðum upplýsingum. Að þessu sambandi vilja sauðfjárbændur hlúa. 
 
Svavar Halldórsson.
Mikilvægur þáttur í því er að tryggja að neytendur fái réttar og greinargóðar upplýsingar um innhald vöru og framleiðsluhætti. Á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda í lok mars var samþykkt sérstök neytendastefna samtakanna, en þetta er í fyrsta skipti sem það er gert.  Yfirskrift hennar er Okkar afurð – okkar mál. Stefnunni má skipta í fjóra meginþætti: Bætta upplýsingagjöf til neytenda, sérstaka neytendavernd fyrir börn, aldraða og sjúklinga, bætt eftirlit í þágu neytenda og siðlega innkaupastefnu hins opinbera. 
 
Bætt upplýsingagjöf alls staðar
 
Bændur er óhræddir við heiðarlega samkeppni því þeir vita að siðlegir búskaparhættir skipta neytendur máli. Þess vegna er mikilvægt að neytendur fái réttar og góðar upplýsingar hvar sem þeir kaupa matvörur, hvort sem er í verslunum, á veitingastöðum eða í mötuneytum. Íslenskir sauðfjárbændur vilja að upplýsingagjöf til neytenda verði bætt með því að styrkja verulega regluverk um vandaðar og greinargóðar upprunamerkingar matvæla. 
 
Stórt skref væri að merkja með áberandi hætti upprunaland allra afurðir sem standa neytendum til boða, hvort sem er í verslunum, mötuneytum eða á veitingastöðum. Þá er mikilvægt að raunverulegt framleiðsluland vörunnar komi skýrt fram þótt henni sé umpakkað annars staðar. Þetta þarf líka að gilda um vörur frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins.
 
Undanfarna mánuði hafa bændur unnið með tugum íslenskra veitingastaða að því að merkja sérstaklega og setja íslenskt lambakjöt í öndvegi. Mikil ánægja hefur verið með verkefnið bæði meðal erlendra ferðamanna, veitingamanna og íslenskra neytenda. Árangurinn hefur farið fram úr björtustu vonum og söluaukningin á lambakjöti hjá samstarfsstöðunum að jafnaði numið um fjórðungi.
 
Neytendur fái að vita um lyfjanotkun, dýravelferð og umhverfisfótspor
 
Réttar og ítarlegar merkingar eru grunnurinn að heiðarlegri samkeppni og raunverulegu valfrelsi neytenda og sameiginlegir hagsmunir bænda og neytenda. Sauðfjárbændur vilja að fram komi hvort – og þá hvaða – hormónar, lyf, eitur- eða varnarefni voru notuð við framleiðsluna. Einnig að upplýsingagjöf til neytenda verði bætt með því að umhverfisfótspor matvöru komi fram með skilmerkilegum og skýrum hætti. 
 
Þar verði litið til allsherjar umhverfisfótspors eins og kolefnislosunar, áburðarnotkunar, erfðabreytts fóðurs, sýklalyfja­notkunar, hormóna­notkunar, notkunar á illgresis- eða skordýraeitri o.s.frv.
 
 Til viðbótar vilja sauðfjárbændur að upplýsingagjöf til neytenda verði bætt með sérstökum merkingum á dýraafurðum m.t.t. dýravelferðar. Taka skuli sérstaklega fram með áberandi hætti ef ekki er tryggt að afurðir séu af dýrum sem alin eru við sambærilegar dýravelferðarreglur og gilda hér á landi. 
 
Réttar, aðgengilegar og ítarlegar upplýsingar eru mikilvægt vopn, hvort sem er í baráttunni við þá loftslagsvá sem nú steðjar að mannkyni eða fyrir bættri lýðheilsu þjóðarinnar. 
Sérstök neytendavernd fyrir börn, aldraða og sjúklinga
 
Íslendingar eru mikilvægustu viðskiptavinir sauðfjárbænda og innlendar landbúnaðarafurðir eru ómissandi hluti af daglegu lífi flestra. Íslenskir sauðfjárbændur eru stoltir af því að framleiða hágæða afurðir fyrir opnum tjöldum með umhverfisvænum og náttúrulegum hætti. 
 
Fjöldi bænda opnar dyr sínar á hverju ári fyrir hópum íslenskra barna sem koma og fylgjast með lífinu í sveitinni, sauðburði eða réttum. Þá nota bændur netið til að koma á framfæri upplýsingum um framleiðsluhætti og afurðir. Mikill meirihluti landsmanna telur lambakjöt vera þjóðarréttinn og fólk er almennt stolt af íslenskum landbúnaði. 
 
Aukið gegnsæi og upplýsingagjöf styrkir þetta einstaka samband. Bændur telja hins vegar ekki nóg að þeir veiti góðar upplýsingar og vilja því leita samstarfs um að koma upplýsingum til foreldra um þann mat sem boðið er upp á í skólum og leikskólum með tilliti til umhverfisfótspors, eiturefna- og lyfjanotkunar og slíkra þátta. 
 
Bændur vilja líka að sjúklingar, aldraðir og aðrir sem dvelja um lengri eða skemmri tíma á sjúkrastofnunum, dvalarheimilum og viðlíka stöðum viti með vissu hvað er borið á borð fyrir þá. 
Við sem aðstandendur, neytendur og foreldrar eigum rétt á að vita hvað börnunum okkar er boðið upp á í opinberum mötuneytum. 
 
Mikilvægt er að ríki og sveitarfélög taki undir með bændum og foreldrum í þessu efni. 
 
Bætt eftirlit í þágu neytenda
 
Íslenskir sauðfjárbændur vilja að neytendur viti sem mest um þær afurðir sem bændur leggja alúð við að framleiða í sátt við náttúru og samfélag. Það eru hins vegar aðrir sem verða að hafa eftirlit með því að neytendur fái réttar og greinargóðar upplýsingar. 
 
Bændur vilja að neytendavernd verði bætt með skilvirkara og auknu eftirliti og strangari viðurlögum gegn brotum. Stjórnvöld víða um lönd hafa á undanförnum misserum lagt aukna áherslu á að vinna gegn blekkingum og svindli í matvælageiranum. Meðal annars hefur verið komið á samvinnu alþjóðlegra lögreglustofnana til að sporna gegn matarsvindli.
 
Þessi mál hafa ekki verið í brennidepli hér á landi og jafnvel þótt starfsmenn einstakra stofnana geri sitt besta er augljós þörf á því að leggja mun meiri áherslu á þennan málaflokk. Sauðfjárbændur vilja sjá bætt og reglulegt eftirlit með merkingum í verslunum, veitingastöðum og mötuneytum og reglulega sýnatöku jafnt úr innfluttri og innlendri matvöru. 
 
Þá verði gerðar auknar kröfur um fullnægjandi vottorð með allri matvöru með tilliti til umhverfisfótspors, eiturefna- og lyfjanotkunar. Bændur vilja líka að neytendavernd verði bætt með skilvirkari og harðari viðurlögum við rangri og villandi upplýsingagjöf.
 
Siðleg opinber innkaup
 
Hið opinbera er einn allra stærsti kaupandi vöru og þjónustu í landinu. Það á líka við um innkaup á matvælum. Um þau innkaup gilda innlend lög og reglur en líka alþjóðlegar reglur og skuldbindingar. 
 
Alþjóðlega regluverkið er almennt hugsað sem grunnur til þess að tryggja að allir seljendur sitji við sama borð þegar kemur að opinberum innkaupum. En einstaka ríki mega hins vegar setja sér ítarlegri reglur svo lengi sem þær eru almennar. Ekki síst ef þær kröfur stuðla að meiri neytendavernd eða bættri upplýsingagjöf til almennings. Þetta er gert víða í nágrannaríkjunum. 
 
Til dæmis eru gerðar kröfur í Danmörku um að ákveðið hlutfall matvæla sem opinberar stofnanir kaupa séu lífrænar. Annars staðar eru sérstaklega strangar reglur um upplýsingagjöf. Sauðfjárbændur vilja að hið opinbera geri skýlausa kröfu um að fyrir liggi upplýsingar um uppruna, dýravelferð, umhverfisfótspor, hormóna-, lyfja- og eiturefnainnihald við öll opinber innkaup. Það er eðlileg krafa að það sé forsenda innkaupa bæði ríkis og sveitarfélaga að matvörur standist ströngustu gæðakröfur í þessu tilliti. Það er einnig eðlileg krafa að þessir þættir verði metnir að minnsta kosti til jafns á við verð og hæfi bjóðenda við opinber útboð og innkaup á matvælum. 
 
Líklega eru fáar opinberar aðgerðir sem geta á einu bretti skilað jafn miklum árangri varðandi lýðheilsu og minnkun kolefnislosunar eins og að alþingi setji í lög að ríki, sveitarfélög og opinberar stofnanir skuli fara að samræmdri siðlegri opinberri innkaupastefnu þar sem hollusta, hreinleiki og lágmarks umhverfisfótspor eru í öndvegi. 
 
Við viljum vita
 
Íslenskir sauðfjárbændur hafa undanfarin ár og áratugi unnið af heilindum og metnaði að ýmsum umhverfisverkefnum og hafa sett sér metnaðarfulla framtíðarstefnu þar sem meðal annars er unnið að fullri kolefnisjöfnun greinarinnar og fullkomnum rekjanleika afurða. 
 
Hér á landi eru ekki notaðir hormónar eða vaxtahvetjandi lyf, áburðarnotkun er lítil, erfðabreytt fóður bannað í sauðfjárrækt og sýklalyfjanotkun í íslenskum landbúnaði er ein sú minnsta í heimi. Bændur vilja miðla þessu til neytenda svo þeir geti tekið upplýsta og meðvitaða ákvörðun um hvaða matvörur þeir velja fyrir sjálfa sig og fjölskylduna. Þess vegna ákváðu þeir að setja sér í fyrsta sinn neytendastefnu undir yfirskriftinni Okkar afurð – okkar mál, sem lögð verður til grundvallar í allri samvinnu bænda við þá sem vinna og selja afurðirnar, almenning, samtök neytenda og stjórnvöld. 
 
Margir hafa orðið til að fagna þessu framtaki bænda og vonandi getur það orðið grundvöllur nýrrar vakningar um sjálfsögð réttindi neytenda til að vita hvað þeir eru raunverulega að setja ofan í innkaupakörfuna. Við viljum öll vita.

 

Bætt upplýsingagjöf til neytenda

Upplýsingagjöf til neytenda verði bætt með því að styrkja verulega regluverk um vandaðar og greinargóðar upprunamerkingar matvæla með eftirfarandi hætti: 
a. Skylt verði að merkja með upprunalandi allar afurðir sem standa
neytendum til boða, hvort sem er í verslunum, veitingastöðum og mötuneytum.
b. Upprunamerkingar verði settar fram með áberandi og skýrum
hætti og m.a. gerðar kröfur um leturstærð o.fl.
c. Upprunalegt framleiðsluland vörunnar komi skýrt fram
þótt henni sé umpakkað annars staðar. Þetta eigi líka við um vörur frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins. 
 
Upplýsingagjöf til neytenda verði bætt með því að bæta verulega innihaldslýsingar matvöru þar sem m.a. komi fram hvort – og þá hvaða – hormónar, lyf, eitur- eða varnarefni voru notuð við framleiðsluna. 
 
Upplýsingagjöf til neytenda verði bætt með því að umhverfisfótspor matvöru komi fram með skilmerkilegum og skýrum hætti m.t.t. kolefnislosunar, áburðarnotkunar, erfðabreytts fóðurs, sýklalyfja­notkunar, hormónanotkunar, notkunar á illgresis- eða skordýraeitri o.s.frv. 
 
Upplýsingagjöf til neytenda verði bætt með sérstökum merkingum á dýraafurðum m.t.t. dýravelferðar. Taka skal sérstaklega fram með áberandi hætti ef ekki er tryggt að afurðir séu af dýrum sem alin eru við sambærilegar dýravelferðarreglur og  gilda hér á landi.
 

Sérstök neytendavernd fyrir börn, aldraða og sjúklinga

5. Sérstakt átak verði gert í að koma ítarlegum og greinargóðum
upplýsingum til foreldra um þann mat sem boðið er upp á í skólum og leikskólum m.t.t. þeirra þátta sem greinir í lið 1–4.
6. Sérstakt átak verði gert í að koma ítarlegum og greinargóðum upplýs-
ingum til sjúklinga, aldraðra og annarra sem dvelja um lengri eða skemmri tíma á sjúkrastofnum, dvalarheimilum og viðlíka stöðum um þann mat sem þeim er boðið upp á m.t.t. þeirra þátta sem greinir í lið 1–4.
 

Bætt eftirlit í þágu neytenda

7. Neytendavernd verði bætt með skilvirkara og auknu eftir-
liti og strangari viðurlögum gegn brotum.
a. Bætt og reglulegt eftirlit í a.m.k. hverjum mánuði verði með 
merkingum í verslunum, veitingastöðum og mötuneytum m.t.t. þeirra þátta sem greinir í lið 1–4.
b. Hafin verði regluleg sýnataka úr öllum innfluttum matvælum 
og sýnataka úr innlendri framleiðslu uppfærð m.t.t. þeirra þátta sem greinir í lið 1–4.
c. Gerð verði krafa um fullnægjandi vottorð með innlendri og
 innfluttri matvöru m.t.t. þeirra þátta sem greinir í lið 1–4.
8.  Neytendavernd verði bætt með skilvirkari og harðari viðurlögum við 
rangri og villandi upplýsingagjöf m.t.t. þeirra þátta sem greinir í lið 1–6.
 
Svavar Halldórsson
framkvæmdastjóri sauðfjárbænda.
Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Fréttir 11. júlí 2024

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Nor...

Ullarvika á Suðurlandi
Fréttir 10. júlí 2024

Ullarvika á Suðurlandi

Ullarvika á Suðurlandi verður haldin í þriðja sinn dagana 29. september til 5. o...