Nautgripabændur fjárfest fyrir milljarða í bættum aðbúnaði
Alls hefur verði úthlutað 1.556.464.916 krónum í fjárfestingastuðning í nautgriparækt frá árinu 2017.
Í yfirliti yfir úthlutun fjárfestingastuðnings og framkvæmdakostnað samkvæmt umsóknum, sundurliðað eftir svæðum búnaðarsambanda, má sjá að 26,85% stuðnings fór til búa í Skagafirði, 26% stuðningsins fór á Suðurland og 22,6% í Eyjafjörð. Heildarfjárfesting búa á árunum 2017–2023 nam rúmum 24,5 milljörðum króna samkvæmt umsóknum en fjárfestingastuðningur fékkst fyrir 6,33 prósentum hennar.
Markmið stuðningsins er að hraða því að framleiðendur standist kröfur samkvæmt reglugerð um velferð nautgripa. Stuðningurinn er veittur bæði vegna nýframkvæmda og endurbóta á eldri byggingum sem stuðla að hagkvæmari búskaparháttum, bættum aðbúnaði nautgripa og aukinni umhverfisvernd. Fjárfestingastuðningur fyrir hvern framleiðanda getur að hámarki numið 40% af stofnkostnaði ef heildarkostnaður fer yfir eina milljón króna. Hver framleiðandi getur þó ekki fengið hærra framlag ár hvert en 10% af árlegri heildarupphæð fjárfestingastuðningsins skv. fjárlögum.