Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Frá aðalfundinum á dögunum.
Frá aðalfundinum á dögunum.
Mynd / smh
Fréttir 10. mars 2015

Nauðsyn þess að standa vörð um réttindi landeigenda

Aðalfundur Landssamtaka landeigenda á Íslandi (LLÍ) var haldinn föstudaginn 13. febrúar sl. á Hótel Sögu. Góð mæting var á fundinn sem og málþing um landskipti og dreifða eignaraðild, sem haldið var í kjölfarið á fundinum. 
 
Örn Bergsson, formaður Landssamtaka landeigenda á Íslandi.
LLÍ eru samtök sem stofnuð voru fyrir átta árum og var þá þeirra helsta hlutverk að berjast gegn því sem þau töldu óbilgjarnar kröfur í þjóðlendumálunum. Mikið vatn hefur þó runnið til sjávar síðan og beita samtökin sér fyrir hagsmunum landeigenda á mun breiðara sviði en áður. Samtökin hafa hlotið mikla viðurkenningu á síðustu árum og til þeirra leitað hvað varðar umsagnir vegna lagasetninga og reglugerða sem og framkvæmdir er varða hagsmuni landeigenda. Þá hefur fulltrúum samtakanna verið boðin þátttaka í hinum ýmsu nefndum og vinnuhópum. Þannig hefur tekist að koma á framfæri ákveðnum málum t.a.m. hvað varðar löggjöf en jafnframt að stöðva eða fá fram breytingar á henni en landeigendur hafa átt í vök að verjast undanfarin ár að sögn formanns LLÍ, Arnar Bergssonar. 
 
Þjóðlendulögin þarf að endurnýja
 
Örn flutti skýrslu stjórnar á fundinum og fór þar yfir helstu málefni sem samtökin hafa unnið að undanfarið sem og áherslur á komandi ári. Eitt helsta markmið samtakanna nú er að koma inn endurupptökuákvæði í þjóðlendulögin svokölluðu, það er að í þjóðlendulögin verði sett ákvæði sem heimili endurupptöku finnist ný gögn sem sanna eignarrétt að landi sem dæmt hefur verið þjóðlenda. Þessi lög þarf að endurnýja á árinu vegna heimildar óbyggðanefndar til áframhaldandi starfa. 
 
Örn sagði frá því að stjórnarmenn LLÍ hefðu átt góðan fund með forsætisráðherra um málið í janúar en þjóðlendulögin heyra undir hann. Stjórnin er þeirrar skoðunar að þjóðlendumálin séu þannig mál að sérstakt ákvæði þurfi um endurupptöku, sér í lagi í ljósi þeirrar þungu sönnunarbyrði sem hvíldi á landeigendum. 
 
Athugasemdir við „almannanrétt“ í  náttúruverndarlögum 
 
Fleiri mál komu til tals á fundinum svo sem gildistaka nýrra náttúruverndarlaga en stjórn LLÍ hefur gert athugasemdir við þær greinar sem fjalla um utanvegarakstur og svokallaðan almannarétt. 
 
Mikil breyting hefur orðið á á ferðamennsku frá þeim tíma þegar hugmyndir um almannarétt komu fyrst fram og ferðamennska og atvinnustarfsemi í kringum hana aukist gríðarlega nú á allra síðustu árum. LLÍ hefur í því ljósi lagt til breytingar í þá veru að draga úr afskiptum ríkisvaldsins af meðferð eignarlanda þar sem setja þurfi skýr og afdráttarlaus ákvæði um heimildir landeigenda til þess að vernda land sitt fyrir ágangi. 
 
Bönnuð för um sitt eigið land
 
Stjórn LLÍ hefur gagnrýnt stjórnvöld harkalega og sagt það stangast á stjórnarskrárvarinn eignarrétt landeigenda að þeim sjálfum og/eða mönnum á þeirra vegum sé bönnuð för um sitt eigið land með þeim hætti sem kveðið er á um í lögunum og finna mætti raunar í núgildandi lögum. Gæta bæri að því að sá sem hefði ríkustu hagsmunina af verndun og góðri umgengni um land hlyti að vera eigandi þess. Stjórnin hefur því lagt til að eignaréttur landeigandans verði virtur með þeim hætti að hann hafi eitthvað um það að segja hverjir aki á landi hans utan vega, en þó háð því skilyrði að umferðin valdi ekki spjöllum á landinu. 
Þá væri jafnframt ástæða til þess að hafa áhyggjur af svæðum í eigu ríkisins og hvernig þeim yrði stjórnað í framtíðinni enda varla ofmælt, sé litið til þeirra jarða sem eru í eigu ríkisins, að ríkið sé einn versti landeigandi á Íslandi.
 
Formaður gagnrýnir samtök ferðaþjónustu fyrir hræsni
 
Stjórn LLÍ hefur fylgst náið með fyrirætlunum um gjaldtöku á ferðamannastöðum. Örn Bergsson formaður lýsti því yfir að stjórn LLÍ væri þeirrar skoðunar að innheimta þyrfti gjald á ferðamannastöðum en sú gjaldtaka ætti fyrst og fremst að vera af þeim sem gera út atvinnurekstur á þessar náttúruperlur, hvort sem þær eru í eigu ríkisins eða einkaeign. Almenningur ætti ekki að borga og hinn lögbundni almannaréttur um frjálsa för um landið væri þannig virtur en ekki notaður í viðskiptalegum tilgangi. 
Þá gagnrýndi hann samtök ferðaþjónustu fyrir hræsni þar sem sú leið sem iðnaðarráðherra hefði valið, þ.e. að notast við náttúrupassa, væri leið sem samtök ferðaþjónustunnar vildu fara en hefðu alfarið snúið baki við og könnuðust nú ekki við að hafa stutt. Þessi leið er mjög umdeild en helstu ókostir hennar er að kerfið sem þyrfti að byggja upp í kringum það yrði töluvert umfangsmikið sem og væri eftirlitið illframkvæmanlegt. 
 
Skiptar skoðanir uim landsskipulagsstefnu
 
Nokkrar umræður urðu á fundinum um drög að landsskipulagsstefnu sem nú er í vinnslu í umhverfisráðuneytinu. Skiptar skoðanir voru um hana en ljóst er að það mál kann að verða hitamál fyrir marga landeigendur.
 
Örn sagði á fundinum það mikilvægt að minna landeigendur að mikil ábyrgð fælist í því að eiga land og landeigendum bæri að skila landinu til komandi kynslóða í jafn góðu eða betra ástandi en þegar þeir tóku við því. Því mættu landeigendur aldrei gleyma. 
 
Upplýsingar um Landssamtök landeigenda er að finna á heimasíðu samtakanna, www.landeigendur.is, en stjórn LLÍ hvatti á fundinum alla landeigendur til þess að gerast félagar að samtökunum. Baráttan undanfarin ár hefði sýnt fram á nauðsyn þess að standa vörð um réttindi landeigenda og þeir yrðu að standa saman í þeirri baráttu.

2 myndir:

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032
Fréttir 15. apríl 2024

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032

Í nýrri landsáætlun verður stefnt að því að hverfandi líkur verði að upp komi ri...

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa
Fréttir 15. apríl 2024

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var í Ásgarði Landbúnaðarháskóla Ísla...

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa
Fréttir 12. apríl 2024

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa

Matvælastofnun lagði stjórnvaldssektir á þrjú kúabú á Vesturlandi á dögunum vegn...