Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Mjaltaþjónabóndinn
Lesendarýni 9. mars 2015

Mjaltaþjónabóndinn

Höfundur: Kristján Gunnarsson. ráðgjafi Bústólpa ehf.
Mjaltaþjónar hófu innreið sína í íslenskt mjólkurbændasamfélag um 1995.
 
Í byrjun voru margir hræddir við mjaltaþjónana því heyrst höfðu ýmsar sögur og kenningar um lakari mjólkurgæði og þá aðallega hækkun líftölu og háar mælingar á fríum fitusýrum, sem orsaka óbragð af mjólkinni. Undirritaður var meðal þeirra sem voru skíthræddir í byrjun og ekki alveg sama, enda höfðu mælingar frá Danmörku og Noregi og upplýsingar frá NMSM sýnt að ástæða var til að hafa áhyggjur af líftölu og fríum fitusýrum. 
 
Fyrstu mjaltaþjónarnir ekki til að hrópa húrra fyrir
 
Auk þess hafði skynmat mjólkur frá mjaltaþjónafjósum, sem gert var hjá Norðurmjólk heitinni, komið illa út fyrir fyrstu mjaltaþjónana í samanburði við mjólk frá hefðbundnum mjaltakerfum. Ekki líkaði öllum samanburður könnunarinnar og fékk undirritaður skammir frá einstaka sölumönnum. Hvort heldur sem um var að kenna tækni og aðferðafræði mjaltaþjónsins eða vankunnáttu eigenda fyrstu þjónanna og lélegri tilsögn þá versnuðu mjólkurgæði mjaltaþjónabænda umtalsvert frá fyrri mjaltatækni, og segja má að eftir á að hyggja var talsvert um að kenna vanhugsuðum auglýsingum og lofi framleiðenda fyrstu mjaltaþjónanna um að kaupendur gætu nánast setið á kaffihúsi í London vegna þess að þeir væru mjaltaþjónabændur og þyrftu ekki að gera nokkurn skapaðan hlut annað en glápa á tölvuskjáinn, allt gerðist sjálfkrafa og að sjálfsögðu engin vandamál.
 
En þetta ástand varði ekki í mörg ár því á tiltölulega skömmum tíma jafnaðist hæfileiki mjaltaþjónanna til mjólkurgæða og örfáum árum eftir skynmatsskýrsluna „vinsælu“ var ekki merkjanlegur munur á gæðum mjólkur og aðferðafræði mjaltaþjóna af gerðinni Lely og Delaval samanborið við hefðbundna mjaltatækni.
 
Þarna má segja kláruðu mjaltaþjónaframleiðendur, bæði Delaval og Lely, hönnun sinna gripa vil ég segja, og ýmsir gallar hurfu og eru ekki til vandræða lengur. Til eru fleiri mjaltaþjónategundir s.s  SAC og Westfalia en hér verður einungis fjallað um þá tvo sem til eru á íslenskum markaði þ.e. Delaval og Lely.
Tekið skal fram að greinarhöfundur starfar í hlutastarfi sem ráðgjafi hjá Bústólpa ehf. á Akureyri sem er söluaðili Delaval á Íslandi og selur flesta mjaltaþjóna af gerðinni Delaval. Það er því ekki við hæfi að benda á kosti og galla þessara tveggja mjaltaþjónamerkja þótt vissulega hafi greinarhöfundur skoðun á þeim málum.
 
Líftalan og bónusinn 
 
Varðandi líftöluna má segja að hún hafi verulega lækkað, enda kunna bændur nú formúluna fyrir því að svo megi vera. En því miður þarf meira en að vita og kunna, það þarf líka að framkvæma og fara eftir leiðbeiningum svo hlutirnir gangi upp. Það er til stutt setning sem mjaltaþjónabændur geta lært og nýtt sér hún er einfaldlega „Hreinar kýr = Úrvalsmjólk“. Ekki svakalega flókið en ég stend með þessari fullyrðingu og get varið hana hvar sem er. 
 
Kýr, básar og flórar
 
Svo kemur að því að finna ráð til að halda kúnum hreinum og það er talsvert verk í mörgum fjósum, sér í lagi þar sem eru flórar og hefðbundin sköfukerfi og oft er eftir hrúga við endastöð flórsköfu öðrum megin sem verður að handskafa ofan í haughúsið. Með því að tryggja mjaltaþjóninum hreinar kýr og klipptar, a.m.k. rakað júgur, klipptan kvið, læri og hala er björninn í raun unninn, og það er sorglegt að sjá  vel klipptar kýr að öllu leyti nema með fjárans halakúst, sem býður kúnni að slá sig upp á bak með tilheyrandi sóðaskap og klepramyndun, skil bara ekki þvermóðsku sumra að klippa kýrnar en skilja eftir halann með löngum óhreinum halakústi.
 
Hreinlæti í fjósi og sér í lagi umhverfis róbótann og í mjaltaklefanum sjálfum er eitt af frumskilyrðunum, þ.e. smúla ætti undan kúnum þar sem þær standa í mjöltum eins oft á dag og hægt er og þá er einnig gott að smúla yfir mjaltahylkin ef mykja er á þeim og gera það þegar þau hanga niður fyrir mjaltir næstu kúa. Það þarf og þetta er áríðandi, að sjá til þess að básar séu hreinir og þurrir, þarf að skafa úr þeim 2–3 sinnum á dag (allavega 2 sinnum eða eftir þörfum) og gott er að bera Staldren (sótthreinsiduft) og háhitað sag aftast í básana í hlutföllunum 50-50 eða 60-40. (Aldrei ætti að nota spæni undir kýrnar eða óhreinsað sag, flísar geta stungist upp í spenaenda með slæmum afleiðingum). Í stuttu máli, að sjá til þess að kýr komi hreinar inn í mjaltaþjóninn, klipptar eða gasaðar á júgrum, klipptar á lærum, kvið og hali rakaður.
Hreinar kýr, góð þrif mjaltaklefa mjaltaþjónsins, og svona til vara, engin júgurbólga af völdum e-colí eða bráðajúgurbólga af öðrum orsökum  = lág líftala. Það má upplýsa hér að þeir sem eru með haughús undir öllu eða mest öllu og steinbita ofan á ættu ekki að vera með aðra hreinsitækni fyrir mykju en flórþjark (flórsköfuróbóta), hef séð mikinn mun á loftgæðum, raka, hreinlæti flóra og að sjálfsögðu kúa flórþjarkafjósum í vil.
 
Tveir hópar mjaltaþjónabænda
 
Ein speki er mér töm og einföld, sérstaklega í byrjun mjaltaþjónavæðingar, en eftir á að hyggja gildir sú flokkun einfaldlega áfram en það er að skipta má mjaltaþjónabændum í tvo hópa þ.e. annar hópurinn keypti sér mjaltaþjón og ætlaði að hætta að vera í fjósi eða a.m.k. ætluðu að vera sem minnst í fjósi og hinn hópurinn sem keypti sér mjaltaþjón og ætluðu að vera áfram í fjósi, og nánar, þeir vissu frá upphafi að þeir yrðu að vera áfram í fjósi en ekki við sömu störf og áður þ.e. í stað mjalta o.þ.h. yrðu þeir að þrífa bása, gólf og klippa kýr. Hvorum hópnum gengur nú betur með mjólkurgæðin? 
 
Hvað með fríar fitusýrur?
 
Í dag koma mjaltaþjónarnir flestir með sérhönnuðum mjaltaþjóna-mjólkurtönkum sem eru hannaðir til að kæla mjólkina varlega, eru forritaðir til að meðhöndla mjólkina þannig að fríum fitusýrum vaxi síður fiskur um hrygg, þeir einfaldlega tala saman, mjaltaþjónninn og mjólkurtankurinn, og vita nákvæmlega hvernig staðan er hjá hvor öðrum. Þetta hefur gefist mjög vel ásamt því að takmarka kraft blásturs mjólkurinnar fram í tank, þannig að meðaltalsmæling frírra fitusýra í tanksýnum róbótafjósa er lík landsmeðaltali og telst því í lagi. Þá eru oft rekjanlegar orsakir hárra ffs gilda að nytlágar kýr koma of oft inn til mjalta þ.e. fá of mikla mjaltaheimild. Sem dæmi kýr komin 300–320 daga frá burði og mjólkar innan við 8 kg á dag ætti ekki að fá mjaltaheimild oftar en 1,5–1,7 mjaltir á sólarhring. Slík kýr er líkleg til að vera með brothættari mjólk varðandi ffs þ.e. fituhimnan viðkvæmari og hnjask, loftpísk, barningur frá hræruspaða mjólkurtanks og frostmyndun í tank vegna lítillar mjólkur auk of mikillar kælingar í byrjunarfasa mjólkurmagns í kælingunni skemmir mjólkina og veldur þessu slæma bragði sem fylgir mjólk með háum ffs gildum. 
 
 Mýmargar ástæður
 
Það getur verið ári strembið að finna orsakir hárra mælinga í ffs og í raun stundum „hundleiðinlegt“ þar sem ástæður geta verið af svo mörgum toga, sem dæmi, of margar mjaltir lágmjólka kúa, loftinntaka og innpísk t.d. í mjólkurdælu, gat eða göt á mjólkurslöngu eða spenagúmmíi, hrærsluklapp hræruspaða í tank vegna of lítils mjólkurmagns, frysting eða ofkæling af sömu ástæðum, fóðrunarástæður þar sem sjá má fylgni með hárri mælingu úrefna og svo virðist að sumar kýr séu að framleiða brothætta mjólk þó varla finnist tiltæk skýring og ég hef séð mörg tilfelli þar sem mæður og dætur þrátt fyrir ásættanlegt mjólkurmagn voru allar háar í mælingu ffs þ.e. hugsanlegur erfðaþáttur. Ekki veit ég hvað ráðunautar segja um slík erfðatengsl.
 
Líftalan í lagi, ffs í lagi
 
Það má því segja að í dag séu engin sérstök vandamál varðandi mjólkurgæði frá mjaltaþjónafjósum en forsendan fyrir því að svo sé er að ábúendur bæja með mjaltaþjónamjaltir vilji sannarlega hafa þessa hluti í lagi. Það er auðveldlega hægt, en kostar nokkra vinnu sem þó skilar sér örugglega til baka í verðmætari mjólk og bónus fyrir úrvalsmjólk. Þá er áríðandi að hægt sé að tefja kæliferli mjólkurtanksins þannig að hann byrji ekki stöðuga kælingu fyrr en ákveðnu magni er náð oft uppgefið 8–10 % af hámarks rými tankans þ.e. ca 250–300 líttrar í 3.000 lítra tank svo dæmi sé tekið. Einnig ættu mjólkurkælitankar alls ekki að vera með kæliefninu r-401 eða r-404 sem oftast eru notuð á frystitæki. Eingöngu ætti að nota r-134a sem er milt-hitastigs kæliefni hentugt fyrir mjólkurkælingu en ekki fyrir frystingu og jafnframt ætti að hafa sk. heitgasventil á kerfi kælivélarinnar, slíkur búnaður vinnur mjög vel gegn frostmyndun í mjólkurtanknum.
 
Ef þú, lesandi góður, ert mjaltaþjónabóndi skaltu taka mark á öllum þessum heilræðum, en ef þú sinnir því ekki áttu ekki von á að fá skilið bónus eða hærra verð fyrir mjólkina þína og þá geturðu engum um kennt nema sjálfum þér og þinni værukæru, skítt með það hvort þú móðgast en svona er raunveruleikinn óskafinn.
 
Hvað með júgurheilbrigði og frumtölu?
 
Þá má að lokum geta þess að frumutala mjaltaþjónafjósa er vanalega lág enda mjaltaþjónninn afburða góð mjaltavél sem gerir það sem ekki er hægt á hefðbundnum sjálfvirkum aftökurum þ.e. tekur af hverjum spena um leið og búið er úr viðkomandi júgurhluta meðan eldri aftakara tækni mælir heildarrennsli sem þýðir að hugsanlega er löngu búið úr einum spena eða tveimur og þá gerist það sem er hábölvað, tómmjaltir! Sé frumutala há í mjaltaþjónafjósi er það ekki mjaltatækninni að kenna, heldur því, að bóndinn hunsar viðvaranir róbótans um háa leiðni og setur alla mjólk í tankinn.
 
Svo er eitt atriði sem þarf að vera í lagi, raunar í öllum fjósum, en það er að ekki sé sogatferli í uppeldisstíunum  og fyrsta kálfs kvígur að bera með júgurbólgu. Slíkar uppákomur fyrsta kálfs kvíga eru vanalega til komnar vegna sogatferlis í uppeldinu, og mjög oft í smákálfastíum og falleg kvíga ónýt því slíkir spenar eru vanalega erfiðir í lyfjameðhöndlun svo jafnvel að ekki er þess virði að reyna meðhöndlun.Hægt er að forrita mjaltaþjóninn þannig að hann hendi sjálfkrafa frumuhárri mjólk en sárafáir bændur nýta sér þann verklagsþátt, af hverju ekki? Ja, spyrji nú hver sjálfan sig.
 
Megi ykkur ganga allt í haginn með mjaltaþjónana sem og aðra mjaltatækni. Í þessum pistli var farið á stökki yfir einungis helstu atriði sem hafa áhrif á flokkun mjólkur.
 

3 myndir:

Skylt efni: mjaltaþjónar

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032
Fréttir 15. apríl 2024

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032

Í nýrri landsáætlun verður stefnt að því að hverfandi líkur verði að upp komi ri...

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa
Fréttir 15. apríl 2024

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var í Ásgarði Landbúnaðarháskóla Ísla...

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa
Fréttir 12. apríl 2024

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa

Matvælastofnun lagði stjórnvaldssektir á þrjú kúabú á Vesturlandi á dögunum vegn...

Dregur úr kaupvilja
Fréttir 12. apríl 2024

Dregur úr kaupvilja

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun apríl sýna að ja...