Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Missum ekki móðinn þótt brekkan sé brött
Mynd / BBL
Skoðun 7. september 2017

Missum ekki móðinn þótt brekkan sé brött

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur kynnt tillögur sínar um aðgerðir vegna yfirstandandi vanda í sauðfjárrækt. Ítarlega hefur verið fjallað um málið og orsakir þess undanfarna daga og vikur. Bændur hafa jafnframt haldið fjölmenna opna fundi víða um land til að ræða málið í sínum hópi og við fulltrúa afurðastöðva.
 
Bændasamtök Íslands og Landssamtök sauðfjárbænda hafa átt í viðræðum við stjórnvöld síðan í mars þegar að ráðherra var fyrst gerð grein fyrir málinu. Viðræðurnar hafa gengið misjafnlega en samtalinu var þó alltaf haldið áfram.
 
Tillögurnar eru settar fram á ábyrgð ráðherrans. Ekki er um að ræða beint samkomulag stjórnvalda og samtaka bænda. Tillögurnar verða nú teknar til umfjöllunar á vettvangi samtaka bænda, m.a. á aukafundi Landssamtaka sauðfjárbænda.
 
Hvað varðar efni tillagnanna þá telja BÍ og LS að í þeim sé vissulega margt sem hægt er að taka undir og mun verða sauðfjárbændum til aðstoðar, nú þegar þeir standa frammi fyrir þriðjungslækkun afurðaverðs. Hins vegar vantar þær aðgerðir sem taka á fyrirsjáanlegum birgðavanda eftir sláturtíðina, sem nú er hafin. Þær leysa því ekki vandann þótt þær séu í rétta átt.
 
Bændur hafa lagt fram tillögur til stjórnvalda sem miða að því að taka heildstætt á þeim vanda sem við blasir. Lykilatriði í þeim lausnum er að virkja tímabundnar aðgerðir til sveiflujöfnunar, svo sem að gera afurðastöðvum kleift að taka sameiginlega ábyrgð á útflutningi kindakjöts. Þær hugmyndir hafa ekki fengið brautargengi og staðan því óbreytt hvað það varðar. Hættan er sú að þær aðgerðir sem landbúnaðarráðherra nú leggur til séu ekki nægar og verði aðeins til þess að draga ástandið á langinn.
 
Samkomulag er um að flýta endurskoðun sauðfjárhluta búvörusamninga og stefnt er að því að niðurstaða hennar liggi fyrir 1. apríl á næsta ári. Í þeirri vinnu þarf að ræða áfram þau mál sem ekki eru leyst og eins meta árangur af þeim aðgerðum sem ráðist verður í nú.
 
Aðstæður sem þessar fela óhjákvæmilega í sér mikla óvissu. Þangað til málin skýrast betur um útfærslu á lausnum verður mikill órói meðal bænda. Menn máta sig við tillögur ráðherra og velta fyrir sér hvernig þær komi út fyrir  hvern og einn og leita orsaka fyrir stöðunni. Því hefur meðal annars verið haldið fram að hún sé núgildandi sauðfjársamningi að kenna, sem nú hefur gilt í átta mánuði og að markaðsmál greinarinnar séu séu öll í skötulíki.
 
Ekki núgildandi sauðfjársamningi um að kenna
 
Hvað samninginn varðar þá hafa þær breytingar sem þar voru lagðar upp ekki tekið gildi nema að óverulegu leyti, enda átti eldri samningur upphaflega að gilda út árið 2017. Af þeim sökum voru nánast engar breytingar gerðar á þessu ári og mjög litlar í raun fyrr en 2020. Það er einfaldlega þannig að við höfum ekki búið við framleiðslustýringu í sauðfjárrækt í 22 ár. Þó að margir kalli sauðfjárgreiðslumark enn kvóta þá er engin framleiðslutakmörkun í því fólgin. Hver sem er getur hafið sauðfjárframleiðslu án takmarkana og svoleiðis hefur það verið í meira en 20 ár. Sauðfjárbændur hafa í raun náð gríðarlega góðum árangri í sínu starfi, því að núna fást næstum 20% meiri afurðir eftir hverja kind en um síðustu aldamót. Það er ekki bara vegna þess að lömbin séu þyngri, heldur eru þau fleiri og skila sér betur á haustin. Þetta hefur aukið framleiðslu á meðan að ærnar eru aðeins 0,4% fleiri. Það er dapurlegt að ekki sé hægt að fagna svo mikilli framleiðniaukningu hjá sauðfjárbændum. Í nýja samningnum er hugmyndin að auðvelda kynslóðaskipti og gera stuðninginn skilvirkari með því að hverfa frá því fyrirkomulagi á samningstímanum að menn þyrftu að kaupa sér ríkisstuðning með tilheyrandi fjármagnskostnaði. En þar eru líka ákvæði um endurskoðun á því fyrirkomulagi ef ekki næðist að hækka afurðaverð. Það þarf ekki að hafa mörg orð um að það ákvæði mun virkjast, en það eru ekki trúverðug rök fyrir því að gildandi samningur hafi skapað þessa stöðu.
 
Útflutningur er greininni mikilvægur
 
Ég vil jafnframt hvetja bændur og afurðastöðvar til að missa ekki trú á útflutningi sauðfjárafurða þó nú ári illa. Útflutningur er alltaf nauðsynlegur þó ekki nema vegna þess að ekki er markaður hérlendis fyrir allar afurðir lengur, s.s. innmat, hausa, slög og fleira. Sem betur fer hefur tekist að gera úr þeim verðmæti erlendis fremur en að láta þau fara í súginn. Við megum heldur ekki gefast upp við að byggja upp vel borgandi markaði erlendis, eða til ferðamanna hér heima, sem byggja á því að selja þá sögu sem fylgir okkar sauðfjárframleiðslu. Að því er unnið af hendi sauðfjárbænda í gegnum verkefnið „Aukið virði sauðfjárafurða“. Til framtíðar getur íslensk sauðfjárframleiðsla ekki byggst á öðru en innanlandsmarkaði og erlendum mörkuðum sem skila jafngóðu eða betra verði og erlendis. Að því ættu afurðastöðvar að vinna í samvinnu við bændur. Það þarf að þétta raðirnar í því verkefni. Útflutningur á sauðfjárafurðum frá Íslandi hefur staðið frá 12. öld og á þeim tíma hefur svo sannarlega ýmislegt gengið á.
 
Hlustum á neytendur og þrýstum á afurðafyrirtæki og verslanir
 
Sama gildir um markaðsmálin almennt. Þar má alltaf gera betur og vöruþróun hefur oft verið ábótavant, en stundum snýst málið mest um hvort að ný vara fær yfirleitt pláss í verslunum. Á undanförnum misserum hafa þó margar nýjungar komið á markað. Það er mikilvægt að efla sem mest samtal bænda og neytenda, hvort sem við erum að tala um lambakjöt eða aðrar íslenskar landbúnaðarafurðir. Við þurfum að hlusta meira eftir þörfum neytenda og ýta undir að þeim sé sinnt í gegnum afurðafyrirtækin okkar.
 
Það er að mörgu að hyggja. Þar á meðal fara nú í hönd göngur og réttir. Ég vil óska þeim sem eru að búa sig í það góðrar ferðar, vona að heimtur verði góðar og að allir komi heilir heim.
MS heiðraði sjö starfsmenn
Fréttir 14. janúar 2025

MS heiðraði sjö starfsmenn

Sjö starfsmönnum MS á Selfossi var veitt starfsaldursviðurkenning á dögunum fyri...

Fálkaorða fyrir plöntukynbætur
Fréttir 14. janúar 2025

Fálkaorða fyrir plöntukynbætur

Þorsteinn Tómasson plöntuerfðafræðingur hlaut riddarakross hinnar íslensku fálka...

Breytingin nær tvöföld losun landbúnaðarins
Fréttir 13. janúar 2025

Breytingin nær tvöföld losun landbúnaðarins

Skráð losun gróðurhúsa­lofttegunda frá votlendi lækkar um 1,3 milljónir tonna CO...

Bætur enn ógreiddar vegna kuldakastsins
Fréttir 13. janúar 2025

Bætur enn ógreiddar vegna kuldakastsins

Starfshópur ráðuneytisstjóra forsætis­, fjármála­ og matvæla­ráðuneyta fer yfir ...

Hrútarnir frá Ytri-Skógum vinsælastir
Fréttir 10. janúar 2025

Hrútarnir frá Ytri-Skógum vinsælastir

Góð þátttaka var í sauðfjársæðingum nú í desember, litlu minni en árið 2023, sem...

Vörslusviptu fé slátrað og kúabændur sviptir leyfi
Fréttir 10. janúar 2025

Vörslusviptu fé slátrað og kúabændur sviptir leyfi

Matvælastofnun hefur lagt stjórnvaldsákvarðanir á umráðamenn dýra undanfarna tvo...

Minnkun í sölu dráttarvéla milli ára
Fréttir 9. janúar 2025

Minnkun í sölu dráttarvéla milli ára

Á vef Samgöngustofu má sjá að 127 nýjar dísilknúnar dráttarvélar voru nýskráðar ...

Kostir og gallar við erlent kúakyn
Fréttir 9. janúar 2025

Kostir og gallar við erlent kúakyn

Á mánudaginn var haldinn fjarfundur um kosti og galla þess að flytja inn erlent ...