Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Sigurði Sigurðarsyni dýralækni afhentir lyklar að bifreið sem hann fær til umráða vegna verkefnisins við að merkja miltisbrandsgrafir í landinu. Það var Birkir Már Árnason, fulltrúi Bílalands og BL, sem afhenti Sigurði lyklana að þessum myndarlega Renault
Sigurði Sigurðarsyni dýralækni afhentir lyklar að bifreið sem hann fær til umráða vegna verkefnisins við að merkja miltisbrandsgrafir í landinu. Það var Birkir Már Árnason, fulltrúi Bílalands og BL, sem afhenti Sigurði lyklana að þessum myndarlega Renault
Mynd / HKr.
Fréttir 26. júní 2017

Miltisbrandsgrafir eru eins og tifandi tímasprengjur

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Sigurður Sigurðarson dýralæknir mun á næstu tveim mánuðum aka um landið ásamt konu sinni, Ólöfu Erlu Halldórsdóttur, til að athuga merkingar á miltisbrandsgröfum sem hann hefur vitneskju um. Einnig mun hann merkja þær sem ómerktar eru. 
 
Þykir þetta mjög mikilvægt framtak því miltisbrandsbakterían er banvæn og  getur gró hennar lifað í jarðvegi í það minnsta í 500 ár og líklega endalaust við réttar aðstæður. Því er mikilvægt að vitað sé um grafirnar svo ekki verði hróflað þar við jarðvegi. 
 
Elstu grafir miltisbrandssmitaðra dýra sem vitað er um hér á landi eru frá árinu 1886 og yngsta gröfin er frá 2004. Raunar eru sagnir um enn eldri staði með miltisbrunahræjum, eða allt frá því um 1600. Sigurður segir að upplýsingar um sumar grafir séu mjög áreiðanlegar en óvissa um aðrar og jafnvel aðeins hægt að byggja á sögusögnum.
 
Sums staðar eru engar skriflegar heimildir til um staðsetningu þar sem sýkt dýr hafa verið grafin. Heimildir í annálum og upplýsingar frá fólki gefi þó oft býsna góðar bendingar um slíkt þar sem fram koma lýsingar á sjúkdómseinkennum, enda sjúkdómurinn mjög sérstæður. Sýkillinn getur myndað dvalargró sem varðveitist vel í jarðvegi og í sífrera norðurslóða, en lifir ekki lengi á yfirborði. Vegna þess hve sýkillinn er skæður og skjótvirkur hafa verið gerðar tilraunir af ýmsum þjóðum um að nota miltisbrand í hernaði. 
 
Getur smitast í menn
 
Hann kemur fyrir í villidýrum og húsdýrum en getur smitast yfir í fólk sem kemst í snertingu við smituð dýr, hræ eða mikið magn af miltisbrandsgróum. Miltisbrandur finnst um allan heim, en er þó fyrst og fremst algengur hjá jurtaætum þótt hann geti borist í menn og fugla.
 
Allt að 150 grafir sem þarf að merkja
 
„Þetta eru um 140 til 150 grafir á um það bil 100 stöðum á Íslandi, hér og hvar um landið. Smitið lifir kannski endalaust og við höfum dæmi um smitun af miltisbrandi sem ætla má að hafi legið í jörðu í 130 ár. Það var á bænum Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd árið 2004. Það var síðasta þekkta tilfellið af miltisbrandi hérlendis. Þar voru fjórir hestar í beitilandi við Ytra-Knarrarnes. Þar hafði sjórinn brotið niður sjávarkamb þar sem talið er að sýkt hræ hafi verið dysjuð. Smitefnið dreifðist síðan yfir beitilandið og smitaði hrossin. Drápust þá þrjú hross á stuttum tíma og fjórða hrossið veiktist og var lógað. Hræin voru brennd til ösku og allt girt af. 
 
Á veraldarvefnum er hægt að finna ákveðnar bendingar um að sýklarnir hafi lifað í jörðu í meira en 550 ár,“ segir Sigurður. Hann vísar þar m.a.  til þess er fornleifafræðingar voru að grafa í gamlar spítalarústir í grennd við Edinborg í Skotlandi, þá komust menn í mannvistarleifar þar sem í voru gró bakteríunnar sem mynda miltisbrand og hægt var að endurvekja hana.
 
Smit úr sífreranum í Síberíu
 
„Nýlega kom það upp úr dúrnum að þegar jarðvegurinn í sífreranum í Síberíu hættir að vera gegnfrosinn og hreyfing kemst á hann getur smitið blossað upp. Þannig komst þetta í hreindýr í Síberíu og varð að drepa á þriðja þúsund hreindýr til að reyna að komast fyrir þetta. Í öðrum hlutum heims, þar sem miltisbrandur er algengur og árviss, kemur fyrir að úrhellisrigningar og skrið á jarðvegi leysi úr læðingi miltisbrunasmit. 
 
Smit af þessum toga eru algeng erlendis. Við erum að vonast til að búið sé að staðsetja nákvæmlega flesta mögulega smitstaði hér á landi svo hægt sé að merkja þá og afstýra smithættu. Mér er ekki kunnugt um að það hafi verið gert í öðrum löndum. Þannig geta menn forðast að hrófla við hættulegum stöðum  og engin hætta er á ferðum ef þetta fær að vera í friði.“
 
Sigurður segist hafa byrjað þetta verkefni 2004 eftir að hafa verið á ráðstefnu í Svíþjóð og hlustað þar á erindi vísindamanna frá Afríku. Þeir hafi frætt hann á því að þeir teldu öruggt að miltisbrandssmit gæti lifað í jarðvegi að minnsta kosti í 200 ár. 
 
Tifandi tímasprengjur
 
„Þá sá ég um leið að hver einasta miltisbrandsgröf á Íslandi væri eins og tifandi tímasprengja og gæti orðið upphaf að nýju smiti ef við þeim yrði hreyft. Því skipti máli að fara um og merkja og setja reglur sem banna að við þeim verði hróflað.“
 
Sigurður segist hafa leitað fanga víða við upplýsingaöflun. Bæði séu heimildir víða að finna í annálum, auk þess sem Páll Agnar Pálsson, fyrrverandi yfirdýralæknir, hafi ritað ágæta grein þar sem hann tilgreindi á fjórða tug greftrunarstaða víða um land.  Síðan hefur Sigurður verið að bæta inn í þessa mynd og einnig aflað vitneskju hjá gömlu fólki sem er kunnugt á þeim stöðum þar sem miltisbruna hefur orðið vart. Til þess hefur hann m.a. farið í heimsóknir á sjúkrahús og elliheimili og fengið fólk til að staðfesta staðsetningu greftrunarstaða dýrahræja. Nú eru þekktir miltisbrunastaðir orðnir um 150.
 
Mikilvægt að fólk láti vita
 
„Í hvert skipti sem ég hef hreyft þessu máli hafa komið fram nýjar upplýsingar. Það er mjög mikilvægt að fólk láti vita ef það býr yfir einhverri slíkri vitneskju eða hefur minnsta grun um grafir af þessum toga. 
 
Ég hef grun um að ekki séu öll kurl komin til grafar ennþá. Sýna þarf varúð, ef líkamsleifar dýra koma upp við jarðrask, svo sem við vegagerð, skurðgröft, jarðlínulagnir, byggingar og fleira. Einnig að halda dýrum frá slíku. Miltisbrandur er lífshættulegur fyrir menn ekki síður en dýr.
 
Líklega hefur rúmur tugur manna látist úr miltisbrandi hér á landi og fjölmargir hafa fengið ákomur eða svokölluð drepkýli á útlimi. Þau eru kolsvört. Erlendis deyr fjöldi fólks úr miltisbrandi árlega. Smit um munn og öndunarfæri eru yfirleitt lífshættuleg. Smit á húð eru oftast læknanleg, ef menn átta sig á hvað er á ferðinni í tæka tíð. Smit sem berast á háls eða höfuð er oft lífshættulegt. Fornleifafræðingar, sem fást við að grafa upp og rannsaka mannvistar- og dýraleifar, ættu að gæta sín betur og nota nasahlífar og hanska. 
 
Ég er núna að skoða hvernig merkingar hafa enst og átta mig á hvernig merkingum verði best háttað til framtíðar. Síðan þarf að gera læknum manna og dýra, skipulagsyfirvöldum, lögreglu og fleirum grein fyrir þessu og í framhaldinu að koma upplýsingum um þessa staði á netið, þar sem þær verða öllum aðgengilegar.“
 
Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, hefur verið Sigurði innan handar og fékk m.a. Bifreiðaumboðið BL, fyrirtækið N1 og fleiri til að styrkja hann í þessum mikilvæga leiðangri. 
Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins
Fréttir 22. september 2023

Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins

Heimildamyndin Konungur fjallanna var frumsýnd 12. september í Bíóhúsinu á Selfo...

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi
Fréttir 22. september 2023

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi

Nú í haust verða íslenskar sauðfjárafurðir af vel grónu og sjálfbæru beitilandi ...

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum
Fréttir 21. september 2023

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum

Laugardaginn 2. september var réttað í Ljárskógarétt í Dölum, rétt norðan Búðard...

Landbúnaður í fjárlögum  ársins 2024
Fréttir 21. september 2023

Landbúnaður í fjárlögum ársins 2024

Í síðustu viku kynnti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fjárlagafrumvarp sitt...

Garðyrkjubændur í áfalli
Fréttir 21. september 2023

Garðyrkjubændur í áfalli

Einu landbúnaðartengdu verk­efnin í fjárlögum ríkisins fyrir árið 2024 sem fá au...

Varnarlínur breytast
Fréttir 21. september 2023

Varnarlínur breytast

Með nýjum tólum er líklegt að áherslan á varnarlínur og niðurskurð minnki í bará...

Alls staðar fækkun sláturlamba
Fréttir 21. september 2023

Alls staðar fækkun sláturlamba

Sláturtíð er komin á fullt og kemur fé vænt af fjalli. Eins og er starfa öll slá...

Nýr landnemi úr svepparíkinu
Fréttir 20. september 2023

Nýr landnemi úr svepparíkinu

Sveppur af ættkvíslinni Rhizopogon fannst nýlega á Íslandi en hann hefur ekki ve...