Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Sóley, sanddæluskip Björgunar.
Sóley, sanddæluskip Björgunar.
Mynd / Björgun
Fréttir 8. apríl 2022

Mikilvægt innlent hráefni til kölkunar, fóðurgerðar og steinullarframleiðslu er uppurið

Höfundur: smh

Fyrirtækið Björgun hefur um árabil dælt upp skeljasandi úr Faxaflóa og selt til nota í margvíslegum tilgangi, eins og til kölkunar á ræktarlöndum og fóðurgerðar. Námaleyfi fyrirtækisins rann út í byrjun árs 2019 en starfsemin hefur verið rekin áfram á bráðabirgðaleyfum frá ári til árs. Birgðirnar eru nú á þrotum en ekki hefur fengist afgreiðsla Orkustofnunar á umsókn fyrirtækisins um áframhaldandi námavinnslu.

Í umfjöllun í síðasta Bændablaði, um aðfangamál íslenskra bænda í ljósi stríðsátaka í Úkraínu, kallaði Jóhannes Baldvin Jónsson, deildarstjóri hjá Líflandi, eftir því að umsóknin yrði afgreidd sem fyrst. Sagði hann að skeljasandurinn væri eina innlenda jarðefnið sem nú væri raunhæft að nýta til aukinnar framleiðni á nytjalandi íslenskra bænda.

Sandur til kölkunar og fóðurgerðar
Sveinbjörn Guðmundsson,
framleiðslustjóri Björgunar.

Sveinbjörn Guðmundsson, framleiðslustjóri Björgunar, segir að undanþáguleyfið hafi runnið út um mitt ár 2021. „Svo virðist vera sem einhver tregða sé hjá Orkustofnun að afgreiða umsóknina frá okkur. Þetta er dálítið slæmt núna þegar áburðarverð hefur hækkað svo mjög í verði og fleiri bændur horfa til þess að kalka túnin til að spara áburðinn – að þetta eina innlenda hráefni sem hefur verið á markaði til þessa, sé ekki lengur í boði. Þá hefur hluti af okkar skeljasandi einnig farið til fóðurgerðar fyrir alifuglabændur og eggjaframleiðendur. Sandurinn frá okkur hefur verið til sölu í verslunum sem sérhæfa sig í aðföngum fyrir bændur, en þeir hafa einnig getað sótt hann beint til okkar.

Steinullarverksmiðjan á Sauðár­króki hefur verið að taka talsvert magn hjá okkur og þeir keyptu af okkur síðasta stóra farminn. Þannig að hann dugar eitthvað fram eftir ári, en svo lenda þeir í vandræðum,“ segir Sveinbjörn.

Hann bætir við að sandurinn sem notaður sé til kölkunar, fóðurgerðar og sem hráefni fyrir Steinullarverksmiðjuna komi úr Fláskarðskrikanámunni í Faxa­flóanum, sem sé önnur tveggja skeljasandsnáma sem Björgun hefur sótt í. „Hann er sigtaður með mismunandi fínum netum í vinnslunni. Fínni gerðin er um fimm prósent af heildarsölunni og fer nánast eingöngu til golfvalla. Sá grófari er talsvert ódýrari, sem skýrist aðallega af mun meiri vinnsluafköstum.“

Skilja ekki tafirnar á málinu

„Umsóknin er búin að vera í vinnslu hjá Orkustofnun frá 16. janúar 2019. Við höfum ekki fengið höfnun – umsóknin fær bara ekki afgreiðslu. Við skiljum ekki hvað tefur og fáum engin skýr svör þótt við séum í reglulegum samskiptum við stofnunina,“ segir Eysteinn Dofrason, framkvæmdastjóri Björgunar.

Kristján Geirsson, verkefnisstjóri vatnsauðlinda hjá Orkustofnun, staðfestir að málið sé á sínu borði og sé til umfjöllunar. „Það eru allnokkrar umsóknir hérna hjá okkur frá Björgun á mismunandi stigum. Það komu upphaflega inn nokkrar umsóknir í janúar 2019 sem voru ekki fullnægjandi. Endurskoðaðar umsóknir bárust í júní það ár og síðan hafa fleiri umsóknir um rannsóknir og efnistöku í Hvalfirði, Kollafirði og í syðri hluta Faxaflóa borist
frá félaginu.

Björgun hefur því haft fjölmargar umsóknir inni á borði hjá okkur, en einungis tvær þeirra snúa að námuvinnslu á skeljasandi í Faxaflóa þar sem tvö svæði eru, kennd við Sandhala og Fláskarðskrika, með mismunandi hreinan skeljasand.“

Námasvæðin í Faxaflóanum. Mynd / Orkustofnun

Unnið samkvæmt forgangsröðun Björgunar

Að sögn Kristjáns hefur verið unnið að úrlausnum þessara mála í samráði við félagið og samkvæmt forgangsröðun frá þeim. „Þegar eftir því hefur verið leitað hafa verið veittar tímabundnar framlengingar á gildandi leyfum með það að markmiði að fyrirtækið hefði aðgang að efni meðan á úrvinnslu umsókna stæði.

Kristján Geirsson, verkefnisstjóri vatnsauðlinda hjá Orkustofnun.

Síðasta sumar taldi Björgun ekki þörf á að sækja aftur um tímabundnar framlengingar á námaleyfum fyrir skeljasandsvæðin í Faxaflóa og leyfin féllu því niður.“

Hann segir að skeljasands­námurnar hafi ekki verið framarlega í forgangsröðun fyrirtækisins. „Upphafleg umsókn um námuvinnslu þar var hluti af þeim sem bárust í ársbyrjun 2019, en þar sem þær voru ekki í forgangi var umsóknin fyrst skoðuð af alvöru í haust. Í október síðastliðnum var sent bréf til Björgunar þar sem óskað var eftir frekari upplýsingum og því var svarað nú í lok febrúar.

Í haust var hins vegar óskað eftir skammtímaleyfi við Sandhala, þar sem grófari sandurinn er, og Orkustofnun hefur verið að vinna í þeirri umsókn.“

Forgangsumsóknin í lokafrágangi

„Okkur skilst hins vegar að efnið sem hefur verið notað til landbúnaðar sé tekið úr námunni í Fláskarðskrika. En þar sem Björgun setti Sandhalaumsóknina í forgang höfum við verið að vinna í henni og hin bíður þá frekari úrvinnslu. Vinnan við Sandhalaumsóknina er í lokafrágangi en beðið er afstöðu fyrirtækisins til ákveðins atriðis – og hefur sú bið nú staðið í 10 daga. Þegar það mál leysist verður það spurning um einhverjar vikur í rýni, ákvörðun og frágang. Til að hægt sé að afgreiða umsóknir þá þarf Björgun að skila fullnægjandi gögnum til okkar,“ segir Kristján.

Hann bætir við að yfirferð umsóknargagna Fláskarðskrika­umsóknarinnar sé ekki lokið og því ekki hægt að fullyrða um hvort gögnin séu fullnægjandi. Því sé ekki ljóst hvenær hægt verði að afgreiða það svæði. Eftir að öll gögn liggi fyrir beri Orkustofnun að leita umsagna og yfirleitt sé veittur þriggja vikna frestur. Síðan er umsækjanda gefinn kostur á að svara athugasemdum áður en kemur að efnislegri úrvinnslu.

Umsóknir á borði Orkustofnunnar í þrjú ár

Eysteinn segir að Björgun hafi sótt um leyfi í Fláskarðskrika og Sandhala í janúar 2019 og uppfærðar umsóknir hafi verið sendar í júní sama ár. „Fyrstu efnislegu viðbrögð Orkustofnunar vegna þessara umsókna bárust í október 2021, þegar stofnunin var búin að vera með umsóknirnar á sínu borði í tæp þrjú ár. Þá var óskað eftir frekari skýringum og gögnum frá Björgun.

Björgun hefur unnið efni úr námum í sunnanverðum Faxaflóa frá því í kringum 1960. Fyrir liggur mat á umhverfisáhrifum vegna námusvæðanna, sem er enn í fullu gildi, og því er mikil vitneskja til staðar um námurnar og svæðin í kring,“ segir hann.

Réttlæting á töfum

Eysteinn segir að orð Kristjáns um umsóknarferli Sandhalanámunnar séu í raun hálfsannleikur. „Orkustofnun óskaði vissulega eftir frekari gögnum varðandi Faxaflóaleyfin í október síðastliðnum. Það er rétt að Björgun skilaði inn uppfærðum umsóknum að beiðni stofnunarinnar í febrúar.

Í millitíðinni áttu Björgun og Orkustofnun þó í miklum samskiptum. Þar sem eldri leyfi höfðu runnið út áður en stofnuninni tókst að afgreiða ný leyfi var ákveðið að sækja um lítið leyfi til að afla efnis úr Sandhalanámu vegna landfyllingar við Álfsnesvík þar sem fyrirtækið byggir nú upp nýtt afhafnasvæði.

Allur kraftur var settur í þetta í nóvember 2021. Það var Orkustofnun sem hafði frumkvæðið að þessu fyrirkomulagi og stofnunin lofaði flýtimeðferð. Björgun skilaði öllum gögnum varðandi litla leyfið í nóvember og umsagnaraðilar skiluðu inn sínum sjónarmiðum í sama mánuði. Samt sem áður hefur leyfið í Sandhala ekki fengist afgreitt. Þetta varð til þess að Björgun þurfti að nýta verðmætara efni í landfyllinguna, sem er ekki æskilegt.

Að auki má ekki gleyma því að fyrir liggja umtalsverð gögn og upplýsingar um þessar námur, þar með talið heil umhverfismatsskýrsla. Þannig virðist oft sem Orkustofnun leiki þann leik að óska eftir nýjum og uppfærðum gögnum í þeim tilgangi að réttlæta eigin tafir.“

Refaveiði í Skaftárhreppi
Fréttir 19. september 2024

Refaveiði í Skaftárhreppi

Sveitarstjórn Skaftárhrepps samþykkti nýlega skipulag um refaveiðar í sveitarfél...

Leyfir ekki sandnám
Fréttir 18. september 2024

Leyfir ekki sandnám

Fyrirtækið LavaConcept Iceland hefur sótt um framkvæmdaleyfi hjá Mýrdalshreppi v...

Nýtt rannsóknarverkefni í byggkynbótum
Fréttir 18. september 2024

Nýtt rannsóknarverkefni í byggkynbótum

Við Landbúnaðarháskóla Íslands er nú að hefjast nýtt rannsóknarverkefni í byggky...

Helsingjar valda usla
Fréttir 18. september 2024

Helsingjar valda usla

Umhverfisstofnun vill takmarka veiðar á helsingja en bóndi á austanverðu Suðurla...

Óarðbær innflutningur
Fréttir 17. september 2024

Óarðbær innflutningur

Einkahlutafélagið Háihólmi skilaði tæplega 1,2 milljóna króna hagnaði á sínu fyr...

Kjötframleiðsla eykst áfram
Fréttir 17. september 2024

Kjötframleiðsla eykst áfram

Samkvæmt nýútgefnum tölum Hagstofu Íslands jókst innlend kjötframleiðsla um 15 p...

Ætla í samkeppni við einokunarfyrirtæki
Fréttir 16. september 2024

Ætla í samkeppni við einokunarfyrirtæki

Nýtt fyrirtæki vill koma sér fyrir á gasmarkaði á Íslandi og hefur hug á að útve...

Reisir lítið sláturhús og hyggst slátra strax í haust
Fréttir 16. september 2024

Reisir lítið sláturhús og hyggst slátra strax í haust

Skúli Þórðarson, bóndi á Refsstað í Vopnafirði og fyrrverandi sláturhússtjóri Sl...

Leyfir ekki sandnám
18. september 2024

Leyfir ekki sandnám

Skýrsla um raunveruleikann
18. september 2024

Skýrsla um raunveruleikann

Subbu-Jobbi
18. september 2024

Subbu-Jobbi

Tjöldin dregin frá
18. september 2024

Tjöldin dregin frá

Mikill áhugi fyrir samfélagsbanka á Íslandi
19. september 2018

Mikill áhugi fyrir samfélagsbanka á Íslandi