Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Mikil tækifæri
Mynd / BBL
Skoðun 27. ágúst 2018

Mikil tækifæri

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Framan af síðustu öld var umfang landbúnaðar afgerandi í lífi landsmanna. Með auknum gjaldeyristekjum af sölu á saltfiski og öðrum afurðum sjávarútvegs fór þéttbýlið að draga til sín vinnuafl úr sveitunum og samhliða hófst tæknibylting í sveitum með tilkomu vélknúinna dráttarvéla. Á þeim tíma og að segja má allt fram undir 1970 var mataræði Íslendinga ekki sérlega flókið. Það var að mestu byggt á kindakjöti, fiski, kartöflum og lítils háttar af öðru grænmeti. Hænsnakjöt var óvíða á borðum, hvað þá eitthvað sem kalla mátti kjúklingakjöt. Svipaða sögu var að segja af svínakjöti. 
 
Í dag hefur orðið umpólun í matarvenjum Íslendinga. Nú er alifuglakjöt orðið ráðandi í kjötneyslunni og svínakjötið er að verða jafnfætis kinda- eða lambakjötsneyslunni. Margir aðrir kostir hafa svo komið inn á matborðið eins og pitsa, súsí, hamborgarar, alls konar austurlenskir réttir, grænmetisfæði og hvað það nú allt heitir. 
 
Íbúatala landsmanna hefur tekið miklum breytingum frá 1703 þegar Íslendingar voru taldir vera 50.358. Ýmsir erfiðleikar ollu því að fram til ársins 1800 fækkaði landsmönnum í 46.176 og heita má að þjóðin hafi nánast verið í útrýmingarhættu. Eftir það fór landsmönnum hægt og bítandi að  fjölga og voru þeir orðnir 77.967 árið 1900. Árið 1950 var talan komin í 141.042 og í 279.049 árið 2000. Í dag eru íbúar landsins samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands ríflega 353 þúsund.
 
Fjöldi landsmanna skiptir miklu máli þegar rætt er um þessa höfuðatvinnuvegi landsmanna í matvælaframleiðslu. Neysla hefur aukist verulega auk þess sem gríðarlegur fjöldi ferðamanna hefur bæst inn í flóruna á allra síðustu árum. Ef menn ætla að flytja inn alla þá neysluaukningu verður líka að huga að fæðuöryggi og auknum gjaldeyrisútlátum. Þá skiptir einnig máli að samsetning þjóðarinnar hefur mikið breyst og er töluverður hluti þjóðarinnar nú af erlendum uppruna með annan reynsluheim og neysluvenjur. Þetta þarf allt að hafa í huga þegar menn skipuleggja matvælaframleiðsluna og þróa nýjar afurðir.  
 
Lambalæri á sunnudögum, þverskorin ýsa með mörfloti á mánudögum, kjötbollur á þriðjudögum, fiskibollur á miðvikudögum, kjötfarsbögglar með hvítkáli á fimmtudögum, saltkjöt á föstudögum og gúllas á laugardögum, er ekki endilega sá matseðill sem gæti gengið í dag. Meira að segja skurður á kjöti skiptir verulegu máli. Tilkoma verslunarkeðjunnar Costco inn á íslenskan markað undirstrikaði það svo rækilega. Að þessum breytta veruleika verða bændur og afurðastöðvar að laga sig, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, rétt eins og sjómenn og fiskvinnslur. 
 
Það er neytandinn sem hefur alltaf fyrsta og síðasta orðið þegar kemur að vali á matvælum. Inn á hann er ekki hægt að þröngva neinni fæðu, allavega ekki meðan enginn skortur er á henni í landinu. Íslenskir bændur hafa sýnt það í gegnum tíðina að þeir kunna vel að bregðast við breyttum aðstæðum. Þá er nauðsynlegt að öll virðiskeðjan geri það líka. Þróun í neyslu á kjöti ætti að geta gefið bændum vísbendingu um hvert stefnir og hvar sé vænlegt að bregða niður fæti. 
 
Ef menn vilja breyta hlutfalli einstakra kjöttegunda á markaðnum, þá verður það varla gert nema með vel ígrundaðri þróunarvinnu og framsetningu á afurðum. Þetta snýst allt á endanum um samkeppni um áhuga neytandans. Hann hefur alltaf rétt fyrir sér, hvað sem mönnum kann annars að finnast um hans smekk. Ef mönnum tekst að samhæfa framleiðslu við þarfir neytenda þarf engu að kvíða um framtíð íslensks landbúnaðar.  
Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...