Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Ef af verkefninu Sjálfbært Ísland verður er ljóst að allir bæjarbúar Hveragerðis, sem eru nú 2.550 talsins, muni taka þátt í því á einn eða annan hátt.
Ef af verkefninu Sjálfbært Ísland verður er ljóst að allir bæjarbúar Hveragerðis, sem eru nú 2.550 talsins, muni taka þátt í því á einn eða annan hátt.
Mynd / Aldís Hafsteinsdóttir
Fréttir 1. september 2017

Miðstöð um sjálfbæra þróun og lífræna ræktun í burðarliðnum

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Hveragerði og nágrenni verða miðstöð sjálfbærni og umhverfis­vitundar samkvæmt viljayfirlýsingu um verkefnið Sjálfbært Íslands sem fulltrúar Heilsu­stofnunar NLFÍ, Hvera­gerðis­bæjar og Land­búnaðar­háskólans að Reykjum undirrituðu á dögunum. 
 
Samkvæmt yfirlýsingunni verður staðið fyrir gerð könnunar á möguleikanum á því að sett verði á stofn upplýsinga- og fræðslumiðstöð um sjálfbæra þróun og lífræna ræktun í Hveragerði og nágrenni.
 
Lögð verður áhersla á umhverfi, matvæli, lýðheilsu og orku í ferlinu í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt. Sjálfbær þróun er þar áberandi þáttur og einsetur Ísland sér að stíga afgerandi skref til breytinga sem nauðsynleg eru í því skyni að koma veröldinni á braut sjálfbærni og auka viðnámsþol hennar, samkvæmt yfirlýstum markmiðum Íslands.
 
„Með því skrefi sem stigið er varðandi könnun á möguleikum á upplýsinga- og fræðslumiðstöð um sjálfbæra þróun og lífræna ræktun er komið til móts við þennan ríka vilja ráðamanna til að standast markmiðin. Tilgangurinn er að vista á einum stað á landinu flest það er snertir áætlun hins opinbera um framgang sjálfbærrar þróunar,“ segir í viljayfirlýsingunni.
 
Þeirri þekkingu, sem fyrirhuguð miðstöð mun öðlast í ferlinu, verður í framhaldinu miðlað til annarra sveitarfélaga.
 
Hveragerði í fararbroddi
 
„Okkur líst afar vel á verkefnið og allar hugmyndirnar falla vel að þeim markmiðum sem við höfum sett okkur um framtíðarþróun bæjarins. Við höfum lagt gríðarlega vinnu í að bæta umhverfi og efla umhverfisvitund hér svo ég held að það séu fáir staðir sem henta betur fyrir svona verkefni en Hveragerði,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði. 
 
Ef að verkefninu Sjálfbært Ísland verður er ljóst að allir bæjarbúar, sem eru nú 2.550 talsins, muni taka þátt í því á einn eða annan hátt. 
 
„Íbúar Hveragerðis munu finna fyrir aukinni áherslu á umhverfistengd verkefni. Við höfum alltaf verið í fararbroddi sveitarfélaga í umhverfistengdum verkefnum og stigum meðal annars stór skref í gegnum Staðardagskrá 21 þegar hún var og hét. Við vorum meðal annars eitt af fyrstu sveitarfélögum til að fara út í þriggja tunnu flokkun þar sem við sérflokkum endurvinnanlegan úrgang. Við erum eina sveitarfélagið sem er með fullkomna þriggja þrepa hreinsistöð á öllu fráveituvatni. Auk þess hafa fyrirtæki í Hveragerði verið mjög framarlega á sviði lífrænnar ræktunar. Við munum halda áfram á þeirri braut og hvetja íbúa til þátttöku í þessum verkefnum og vera þannig áfram til fyrirmyndar,“ segir Aldís. 
 
Hún nefnir sem dæmi að sveitarfélagið stefni nú að því að verða plastpokalaust, að farið verði í ítarlegri flokkun á rusli auk þess sem hönnun nýrra hverfa gera ráð fyrir hleðslustöðvum fyrir rafbíla við hvert hús og að hraðhleðslustöð verði opnuð í bænum innan skamms.
 
Ungt fólk dregur vagninn 
 
„Draumurinn væri að geta komið upp aðstöðu hér á Reykjum þar sem fólk gæti nálgast heildstæða fræðslu um sjálfbæra þróun. Einn liður í slíkri fræðslu gæti verið kennsla á ýmsum hagnýtum atriðum sem leiða til sjálfbærara heimilishalds. Ef við horfum til dæmis á smærri verkefni þá getur þetta til dæmis falið í sér að nota það sem til fellur, jarðgera heimilisúrganginn, nota moldina svo í ræktun. Ef allir taka þessi smáu skref verður breytingin stór og mikil á endanum,“ segir Guðríður Helgadóttir, staðarhaldari Garðyrkjuskóla LbhÍ á Reykjum í Ölfusi. 
 
Hún er afar bjartsýn gagnvart verkefninu enda endurspegli það breyttan tíðaranda. „Fólk er að verða svo meðvitað um umhverfismál. Ég held að það sé fyrst og fremst því að þakka að ungt fólk í dag nálgast umhverfismál með öðrum hætti en eldri kynslóðir. Það virðist bera meiri virðingu fyrir náttúru og umhverfi og veltir fyrir sér þeim áhrifum sem við höfum á umhverfi, efnahag og samfélagið, sem eru allt þættir sem snúa að sjálfbærni.“ 
 
Á Landbúnaðarháskólanum á Reykjum í Ölfusi hefur verið kennd garðyrkjuframleiðsla í hartnær 80 ár. Nýjasta námsbraut skólans hverfist um lífræna ræktun matjurta en annar árgangur brautarinnar mun útskrifast vorið 2018. Guðríður skynjar mikinn áhuga á námsbrautinni og telur hann í takt við aukna umhverfisvitund. 
 
„Í garðyrkju felast ótrúleg tækifæri fyrir samfélagið í heild að vera sjálfbærara en það er í dag. Það er mikil eftirspurn eftir afurðum sem ræktaðar eru og framleiddar með heill umhverfisins að leiðarljósi. Neytandinn er tilbúinn til að greiða fyrir vöru hærra verði vitandi að hann er að fá vottaða afurð,“ segir Guðríður. 
Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032
Fréttir 15. apríl 2024

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032

Í nýrri landsáætlun verður stefnt að því að hverfandi líkur verði að upp komi ri...

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa
Fréttir 15. apríl 2024

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var í Ásgarði Landbúnaðarháskóla Ísla...

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa
Fréttir 12. apríl 2024

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa

Matvælastofnun lagði stjórnvaldssektir á þrjú kúabú á Vesturlandi á dögunum vegn...