Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Framkvæmdastjórinn Áskell Heiðar Ásgeirsson sem stýrði einnig Landsmótinu sem haldið var á Hólum í Hjaltadal í fyrra.
Framkvæmdastjórinn Áskell Heiðar Ásgeirsson sem stýrði einnig Landsmótinu sem haldið var á Hólum í Hjaltadal í fyrra.
Fréttir 4. apríl 2017

Miðasala á Landsmót 2018 hafin

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Miðasala fyrir Landsmót hestamanna 2018 mun hefjast þann 25. mars, en miðasalan verður formlega opnuð á stærstu hestasýningu Þýskalands, Equitana. Fulltrúar frá Landsmóti og markaðsverkefnisins Horses of Iceland munu sjá til þess að viðburðurinn verði þar vel kynntur. Áskell Heiðar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Landsmótsins, segir að stór samstarfshópur undirbúi nú glæsilegan vikulangan viðburð.
 
Landsmót hestamanna verður haldið á félagssvæði hesta­mannafélagsins Fáks í Reykjavík daganna 1.–8. júlí 2018. Rekstrar­fyrirkomulagi mótsins hefur verið breytt en nú verður mótið alfarið skipulagt og haldið af hestamannafélagi sem hýsir mótið en ekki af Landssambandi hestamanna eins og verið hefur.  
 
„Ég er nýlega kominn til starfa en núna erum við að setja af stað markaðsmálin og miðasöluna,“ segir Áskell Heiðar, sem einnig stýrði Landsmótinu sem haldið var á Hólum í Hjaltadal í fyrra. 
 
„Áður en ég kom að þessu eru öflugir aðilar búnir að ýta ýmsum verkefnum af stað og mitt verkefni næstu vikurnar er að vinna að fjárhagsáætlun, læra inn á svæðið og síðast en ekki síst að kynnast öllu því frábæra fólki sem ætlar að leggja mótinu til krafta sína en svona risaviðburður er hópverkefni og að þessu mun koma áhugafólk um hestamennsku, ekki bara úr Fáki heldur alls staðar að.“
 
Séð yfir svæði hestamannafélagsins Fáks í Víðidal í Reykjavík þegar Landsmót hestamanna var haldið þar árið 2012.
 
Kostir og áskoranir staðsetningar
 
Vegna nálægðar við höfuðstaðinn býður Landsmót í Víðidal upp á nokkuð ólíka möguleika en aðrir staðir. 
 
„Ég lít þannig á að allir staðir hafi kosti en tek ekki þátt í umræðum um hvort eitt svæði sé betra en annað.  Mitt verkefni er að búa til góðan viðburð þar sem fólki líður vel, er öruggt og fær þá þjónustu sem það vill. Svæðið sannaði sig 2012 og aðstaða þar hefur bara batnað síðan. Viðburður í þéttbýli verður alltaf frábrugðinn viðburði í dreifbýli þar sem viðbúið er að fleiri muni hafa aðsetur utan mótssvæðisins. En það er bara eitthvað sem við vinnum með og við erum staðráðin í að halda frábært Landsmót í Reykjavík,“ segir Áskell Heiðar. Auk þess geti staðsetningin laðað að fleiri erlenda ferðamenn. 
 
„Landsmót hefur lengi verið viðburður sem dregur að sér fjölda erlendra gesta sem kemur sérstaklega til landsins og á mótið vegna áhuga á íslenska hestinum. Hlutfall erlendra gesta hefur verið í kringum 20% á síðustu mótum. En staðsetningin í Reykjavík þar sem gríðarlegur fjöldi ferðamanna dvelur opnar auðvitað á möguleika varðandi t.d. styttri heimsóknir inn á svæðið og það er eitthvað sem við munum skoða vel í samráði við ferðaþjónustuna.“ 
 
Ný áhorfendabrekka
 
Þá segir Áskell Heiðar að uppi séu ýmsar hugmyndir um nýjungar í dagskrá, sem gætu höfðað til annarra en gallharðra hestamanna. 
 
„Það eru ýmsar hugmyndir þegar komnar fram og við munum leggja okkur fram við að fólki líði vel, líka þeim sem eru ekki límdir við brekkuna. Einn af kostum Reykjavíkur er auðvitað að það er stutt í fjölbreytta þjónustu og afþreyingu og við munum örugglega bæði bjóða upp á afþreyingu inn á svæðinu og líka hjálpa fólki sem vill skreppa út af svæðinu og kíkja t.d. í golf, hvalaskoðun eða á söfn.“
 
Nú þegar eru hafnar framkvæmdir á mótssvæðinu í Víðidal. „Nú stendur yfir vinna við nýja áhorfendabrekku við Hvammsvöll sem mun breyta ásýnd vallarins nokkuð og auka enn á stemninguna á vellinum. Við munum svo leggjast ítarlega yfir svæðið og gera aðstöðu eins vel úr garði og mögulegt er, bæði fyrir hesta og mannfólk,“ segir Áskell Heiðar.
 
Fjölskylduvænn viðburður
 
Opnað verður fyrir miðasöluna á Landsmótið 2018 á hestasýningunni Equitana í Essen í Þýskalandi um helgina en þátttaka í sýningunni er liður í kynningu á verkefninu Horses of Iceland.
 
„Þetta er risastór sýning þar sem fólk alls staðar að í heiminum kemur saman og það sem sameinar það er áhugi á hestum. Okkur fannst því upplagt að búa til lítinn viðburð þarna þar sem miðasalan mun opna formlega,“ segir Áskell Heiðar sem sér stórkostlega hátíð í uppsiglingu. 
 
„Ég sé fyrir mér glæsilegan vikulangan viðburð þar sem íslenski hesturinn er í aðalhlutverki, frábæra gæðingakeppni og kynbótasýningar sem verða örugglega í hæsta gæðaflokki. Svo ætlum við okkur að búa til aðstæður þar sem þú sem gestur getur notið bæði afþreyingar og góðrar þjónustu þegar þú ert ekki að fylgjast með hestunum. Eftir að keppni lýkur á kvöldin munum við svo skemmta okkur, en í grunninn er þetta fjölskylduhátíð fyrir fólk sem hefur áhuga á íslenska hestinum og það verður okkar leiðarljós.“ 
Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...