Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Matvælaframleiðsla skiptir allar þjóðir máli
Leiðari 23. október 2014

Matvælaframleiðsla skiptir allar þjóðir máli

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Haustið er uppskerutími í landbúnaðinum.  Sumarið var víðast hvar gott, en sums staðar óþarflega blautt sem kom niður á fóðurgæðum. Grænmetisuppskeran var góð og nú er sláturtíð að ljúka. Lömb eru að jafnaði talsvert vænni en í fyrra og sláturgerð er að mestu afstaðin. 

Nú undir lok sláturtíðarinnar er enn deilt um mikilvæg atriði í landbúnaðarstefnunni. Að flestu leyti er þar um vel þekkt atriði að ræða sem alltaf koma upp með reglulegu millibili. 

Málefni mjólkuriðnaðarins hafa verið áberandi. Samkeppniseftirlitið hefur úrskurðað að Mjólkursamsalan hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína og þeim úrskurði hefur verið áfrýjað. Þá liggur fyrir að hækkun heildsöluverðs mjólkurafurða hefur verið ríflega 20% minni en almenns verðlags síðasta áratuginn. 
Skipulag mjólkuriðnaðarins er auðvitað ekki hafið yfir gagnrýni – en tilgangur þess er og hefur alltaf verið að reka mjólkurframleiðsluna með sem hagkvæmustum hætti. Í því skyni hefur Mjólkursamsalan skipulagt starfsemina sem eina heild. Á hana eru lagðar ákveðnar skyldur, hún ræður ekki kaup- eða söluverði sinna helstu afurða, en hefur í staðinn haft heimildir fyrir nánara samráði en almennt er leyft.

Rök fremur en blinda trú á markaðslausnir

Komi fram sannfærandi rök fyrir því að hægt sé að tryggja hag framleiðenda og neytenda betur með einhverjum öðrum hætti þá verður að taka það til alvarlegrar skoðunar, en það verður að vera stutt einhverjum sterkari rökum en blindri trú á lausnir markaðarins. Spurningin er og verður: Skilar fyrirkomulagið árangri eða ekki? Á þeim forsendum hafa bændur stutt kerfið og það verður að liggja til grundvallar breytingum.

MS hefði hins vegar þurft að taka betur á málinu því að það er einfaldlega skynsamlegra að hvetja til fjölbreyttara framboðs mjólkurvara.  Það er bæði neytendum og framleiðendum til hagsbóta.  Bændur vænta þess að fyrirtækið muni draga þann lærdóm af þessu máli.

Tollar eru til að jafna samkeppnisstöðu

Umræða um tollvernd hefur haldið áfram. Tollverndin er önnur megistoðin starfsumhverfis íslensks landbúnaðar. Tollar eru lagðir á til að jafna samkeppnisstöðu íslenskrar búvöruframleiðslu, það er á þær innfluttu búvörur sem eru sambærilegar innlendri framleiðslu.  Fjölmargar landbúnaðarvörur sem ekki eru framleiddar hérlendis eru fluttar inn án tolla. Þar má til dæmis nefna hveiti, kornvörur, pasta, hrísgrjón, sykur, matarolíur, ávextir og sumar tegundir grænmetis.

Innlend nautakjötsframleiðsla hefur ekki annað eftirspurn að undanförnu og heimilaður hefur verið ótakmarkaður innflutningur á lágmarkstollum. Spurt hefur verið af hverju tollvernd sé beitt yfirleitt við þær aðstæður. En þá verður að taka tillit til eðlis landbúnaðarframleiðslu. Tollvernd er nákvæmlega það sem í nafninu felst – vernd fyrir innlenda framleiðslu. Ef allir tollar eru felldir niður í ljósi skorts, þá er um leið verið að festa skortinn í sessi. Samkeppnisstaðan er einfaldlega ekki jöfn. Það verður alltaf hægt að framleiða ódýrari vöru erlendis. Ef við viljum hins vegar meira af þeirri innlendu – sem við vitum hvernig er framleidd og hvaðan hún kemur, þá þurfa leikreglurnar að vera þannig að menn séu tilbúnir að leggja tíma og peninga í það tveggja ára ferli sem nautakjötsframleiðsla er.

Sömu rök um allan heim fyrir verndun á eigin matvælaframleiðslu

Um allan heim tíðkast að ríki verndi og styðji innlenda matvælaframleiðslu. Rökin að baki eru einkum þau að talið er mikilvægt að tryggja framleiðslu matvælanna í viðkomandi löndum.  Menn vilja ekki standa frammi fyrir því að hafa fórnað matvælaframleiðslunni fyrir skammtíma gróða, né treysta á innfluttar matvörur eingöngu. Til þess að ná þessum markmiðum nota ríki meðal annars tollvernd.
Eftirlitsstofnun EFTA hefur birt álit þess efnis að hérlendar takmarkanir á innflutningi hrás kjöts séu brot á EES-samningnum. Slíkt eru auðvitað vonbrigði, en treysta verður á að stjórnvöld taki til fullra varna þegar og ef málið kemur til kasta EFTA-dómstólsins. 

Í fyrra héldu Bændasamtökin fjölsóttan fund um málið þar sem tveir þekktir vísindamenn héldu erindi, þeir Vilhjálmur Svansson, dýralæknir á Keldum, og Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans.

Vilhjálmur benti m.a. á að það séu 600–700 smitefni þekkt sem smita hesta, svín, nautgripi, sauðfé og geitur. Landfræðileg einangrun Íslands hefur verndað okkar sérstöku búfjárstofna í gegnum tíðina sem eru afar móttækilegir fyrir smiti. Það væru dæmi um að sjúkdómar hefðu borist til landsins og valdið miklum skaða. Nýjasta dæmið væri hrossapestin. Sjúkdómastaða íslenskra búfjárstofna væri í mörgu tilliti einstök og auðlegð sem bæri að verja með öllum tiltækum ráðum. Hann benti á að einn þáttur í því að verja þá stöðu er að sem minnst sé flutt inn af hráum ómeðhöndluðum dýraafurðum sem mögulega gætu borið með sér smit.

Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýklafræði­deild Landspítalans, sagði sýkingaráhættu bæði tengda innlendum og innfluttum afurðum en innflutt matvæli valda nú þegar hópsýkingum á Íslandi. Nefndi hann dæmi um sýkingar sem hefðu borist með erlendu salati. Hann sagði líkurnar aukast við aukinn innflutning á fersku kjöti og tiltók sérstaklega ýmsar sýklalyfjaónæmar bakteríur sem væri ein mesta ógnin nú um stundir. Þá benti Karl á mikla sýklalyfjanotkun í erlendri búfjárrækt sem hefði afar neikvæð áhrif.

Ráðherra hefur talað skýrt í málinu og tekur þar með undir málflutning síðustu ríkisstjórnar. ESA hefur metið viðskiptalegu rökin þyngra en rök stjórnvalda og bænda hafa alltaf verið að málið sé fyrst og fremst heilbrigðismál. Gæði og öryggi matvæla á Íslandi eru í mjög góðu standi og það þarf að tryggja áfram. Tíðni matarsýkinga er jafnframt ein sú lægsta sem fyrirfinnst.

Hér er því um verulega hagsmuni að ræða. Þar má ekki bara líta til einfaldra viðskiptahagsmuna.  Matvælaframleiðsla skiptir allar þjóðir máli – líka okkur Íslendinga.

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...