Þórunn Rafnar Þorsteinsdóttir flytur erindi sitt á vísindadeginum á Keldum.
Þórunn Rafnar Þorsteinsdóttir flytur erindi sitt á vísindadeginum á Keldum.
Mynd / smh
Fréttir 4. maí

Margvíslegar leiðir inn í landið fyrir ónæmar bakteríur

Höfundur: smh
Vísindadagur var haldinn föstudaginn 20. apríl á bókasafni Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum, í tilefni af 70 ára afmæli hennar á þessu ári. Meðal áhugaverðra erinda sem þar voru flutt var erindi Þórunnar Rafnar Þorsteinsdóttur um sýklalyfjaónæmi í dýrum, en þar kom fram að það væri ein stærsta ógn við lýðheilsu í heiminum í dag.
 
Þórunn starfar sem verkefnastjóri í sýklalyfjanæmi við sýkla- og bóluefnadeild Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum. Blaðamaður spurði Þórunni um nokkur atriði efnis erindisins. Hún segir að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO), Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið hafi hvatt aðildarþjóðir sínar til að efla rannsóknir sem nýta mætti til að stemma stigu við þessari ógn. Aukið ónæmi baktería fyrir sýklalyfjum valdi vandamálum við meðferð sýkinga og hafi þar af leiðandi slæmar afleiðingar fyrir heilsu manna og dýra – og valdi auknum kostnaði við heilbrigðisþjónustu.
 
Bókasafnssalurinn á Keldum var þétt setinn á vísindadeginum. 
 
Leiðir opnast fyrir sýklalyfjaónæmar bakteríur
 
Að sögn Þórunnar hefur sýkla­lyfjanotkun bæði í mönnum og dýrum áhrif á uppkomu og dreifingu ónæmra bakteríustofna. Sýklalyfjaónæmar bakteríur og ónæmisgen geti svo borist milli manna og dýra, með beinni snertingu, í gegnum umhverfið og í gegnum matvæli. Með auknum ferðalögum og viðskiptum með matvæli og dýraafurðir heimshorna á milli opnist einnig leiðir fyrir sýklalyfjaónæmar bakteríur til að dreifa sér. „Það er mikill munur milli landa hvað varðar sýklalyfjanæmi baktería í dýrum og mönnum. Almennt er algengi sýklalyfjaónæmra baktería í dýrum meira eftir því sem sunnar dregur í Evrópu. Algengi sýklalyfjaónæmra baktería er líka meira í mörgum Asíulöndum, svo sem á Indlandi og í Kína. Almennt er það þannig að eftir því sem dýraeldi er stærra í sniðum – og verksmiðjubúskapur algengari – þar er meiri sýklalyfjanotkun. Staðan á Íslandi er um margt áþekk því sem við sjáum hjá hinum Norðurlandaþjóðunum. 
 
Ferðamenn, matvæli og aðrar dýraafurðir geta borið með sér sýklalyfjaónæmar bakteríur hingað til lands og geta þá komið frá löndum þar sem algengi sýklalyfjaónæmis er meira en hér á landi. Munum þó að Íslendingar eru líka ferðamenn og ferðast vítt og breitt um heiminn og geta þá borið ónæmar bakteríur með sér heim. Aukinn ferðamannastraumur, aukin ferðalög Íslendinga og aukinn innflutningur eykur þá líkur á að ónæmar bakteríur berist hingað,“ segir Þórunn. 
 
Ónæmar bakteríur í alifuglum, svínum og nautgripum
 
„Hingað til höfum við leitað að ónæmum bakteríum í svínum og alifuglum og kjötafurðum þeirra og svo í nautgripakjöti. Við höfum fundið ónæmar bakteríur í bæði dýrunum og kjötafurðum þeirra,“ segir Þórunn spurð um tilfelli ónæmra baktería á Íslandi. „Það hefur þó oftast verið lítið ónæmi, það eru ekki fjöl­ónæmar bakteríur. Almennt er algengi sýklalyfjaónæmra baktería í dýrum á Íslandi lágt. Ekki er algilt að þó að ónæmar bakteríur finnist í dýrunum að þær berist í kjötafurðirnar. Og þó að þær finnist í kjötafurðunum þá er alls ekkert víst að þær berist í menn, enda ef kjötið er meðhöndlað og eldað með fullnægjandi hætti þá drepast bakteríurnar.“
 
Þórunn segir að víða hafi óvarlega verið farið með sýklalyfjanotkun í dýrum og mönnum og það skýri að vissu leyti hina erfiðu stöðu á heimsvísu. „Dýrum er víða gefin sýklalyf sem vaxtarhvetjandi þáttur, þá eru lyfin gefin heilli heilbrigðri hjörð í lágum skömmtum, en lágur styrkur sýklalyfs er líklegri til að upp komi ónæmar bakteríur. 
 
Tíðni stökkbreytinga og tíðni flutnings á erfðaefni (t.d. plasmíðum) eykst. Þessi notkun, sem vaxtarhvetjandi þáttur, er ekki lengur leyfð í Evrópu og hefur aldrei verið leyfð á Íslandi. 
 
Í sumum löndum eru sýklalyf fyrir fólk ekki lyfseðilsskyld – og jafnvel þó þau séu lyfseðilsskyld þá er eftirlit með þeim ekki gott og hægt að kaupa þau beint yfir búðarborðið. Það er líka hægt að kaupa sýklalyf á netinu. 
 
Alþjóðaheilbrigðismálastofn­unin (WHO) hefur skilgreint sýklalyfjaónæmi sem eina af mestu heilbrigðisógnum heimsins. Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (European Centre for Disease Prevention and Control) áætlar að í Evrópu einni komi upp um það bil 400 þúsund sýkingar á ári hverju af völdum ónæmra sýkla sem leiða til um 25 þúsund dauðsfalla.“  
 
Erum áratugum eftir á með eftirlitið en á réttri leið
 
„Við erum áratugum á eftir öðrum Norðurlandaþjóðum í eftirliti með sýklalyfjaónæmum bakteríum í dýrum. Varðandi fyrirkomulag eftirlits er unnið eftir ákvörðun ESB númer 652/2013. Matvælastofnun (MAST) hefur farið eftir þessari ákvörðun að fullu síðan 2017 en að hluta til var byrjað á því árið 2014. Í gegnum vef MAST má finna eftirlitsskýrslur um niðurstöður skimana á sýklalyfjaónæmum bakteríum. 
 
Við erum því á réttri leið núna. Fram til 2014 var þetta mjög lítið rannsakað, ég gerði doktorsverkefni á þessu sviði á árunum 2005–2008 og eru það eiginlega einu gögnin sem við höfum um sýklalyfjaónæmar bakteríur í dýrum fyrir 2014. 
 
Einnig eru í gangi núna undirbúningsverkefni í samstarfi við Karl G. Kristinsson á Landspítalanum, MAST, Matís og erlendra aðila sem munu auka á þekkingu okkar á stöðunni á sýklalyfjaónæmum bakteríum í dýrum á Íslandi á næstu árum,“ segir Þórunn að lokum. 
Hótel Saga lokar
Fréttir 28. október

Hótel Saga lokar

COVID-19 faraldurinn hefur haft verulega neikvæð áhrif á rekstur ferðaþjónustufy...

Auglýst eftir tveimur togurum
Fréttir 28. október

Auglýst eftir tveimur togurum

Ríkiskaup, fyrir hönd Haf­rann­sókna­stofnunar, hefur auglýst eftir tilboðum veg...

LbhÍ fær 700 milljónir til rannsóknarverkefnis frá ESB
Fréttir 28. október

LbhÍ fær 700 milljónir til rannsóknarverkefnis frá ESB

Nýlega veitti Evrópusambandið 700 milljónum króna til fjögurra ára rannsóknarver...

Leyft verði veiði 184 tonna í Arnar­firði og 586 tonna í Ísafjarðardjúpi
Fréttir 28. október

Leyft verði veiði 184 tonna í Arnar­firði og 586 tonna í Ísafjarðardjúpi

Með hliðsjón af niðurstöðum könnunar á ástandi innfjarðarrækjustofna sem fram fó...

Riðuveiki í Skagafirði rædd í ríkisstjórn
Fréttir 27. október

Riðuveiki í Skagafirði rædd í ríkisstjórn

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gerði á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun ...

Hugsanleg sameining rædd í Svalbarðsstrandarhreppi og Eyjafjarðarsveit
Fréttir 27. október

Hugsanleg sameining rædd í Svalbarðsstrandarhreppi og Eyjafjarðarsveit

Fulltrúar sveitarstjórna tveggja sveitarfélaga í Eyjafirði, Eyjafjarðarsveitar o...

Hitastig djúpsjávar hækkar hraðar en spáð var
Fréttir 27. október

Hitastig djúpsjávar hækkar hraðar en spáð var

Mælingar í djúpsævi sýna að hitastig í dýpstu lögum sjávarins hækkar hraðar en s...

Óánægja með fé til tengivega
Fréttir 26. október

Óánægja með fé til tengivega

Umhverfis- og samgöngunefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur lýst yfir óánægj...