Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Margir Íslendingar á Agromek í ár
Fréttir 5. janúar 2015

Margir Íslendingar á Agromek í ár

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Líkt og margar aðrar landbúnaðarsýningar er Agromek nú ætíð haldin annað hvert ár og var hún einmitt haldin nú í lok nóvember. Venju samkvæmt var sýningin í Herning í Danmörku en sýning þessi er mörgum Íslendingum kunn, enda hafa hundruð Íslendinga sótt þessa sýningu heim á undanförnum áratugum.

Í ár var þar ekki breyting á og skipti fjöldi íslenskra bænda og þjónustuaðila tugum. Agromek er stærsta alhliða landbúnaðarsýning sem haldin er í Norður-Evrópu og í ár voru 555 sýnendur með kynningarbása á Agromek og alls komu tæplega 50 þúsund gestir á Agromek í ár.

Aukin afkastageta, nákvæmni og tölvutækni

Það er dagljóst hvert stefnir í landbúnaðartækninni í heiminum og á sýningunni í ár mátti sjá þess merki. Tækin fara stækkandi og sjálfvirkni eykst, en um leið eykst nákvæmni þeirra einnig bæði vegna bættrar hönnunar en einnig vegna notkunar á tölvubúnaði og ýmiss konar tölvuskynjurum. Þá bjóða fleiri og fleiri fyrirtæki upp á tæknilegar útfærslur sem byggjast á notkun snjallsíma og er eiginlega með ólíkindum hve miklu má orðið stjórna af tækjum og tólum með símanum einum saman. Þannig mátti sjá á sýningunni hefðbundinn eftirlitsbúnað fyrir búfjárbyggingar, sem tengdur er símanum og getur bóndinn þá t.d. fylgst með ánum sínum með þeim hætti. Þetta má í dag nánast kallast hálf gamaldags búnað, ef tekið er mið af öllum þeim flókna búnaði sem annars er í boði eins og snjallsímalausnin fyrir verktaka, þar sem símarnir votta bæði vinnutíma í tækjum, yfirferð tækjanna, uppskerumagn o.fl.

292 nýjungar

Í ár hafði matsnefnd sýningarinnar samþykkt alls 292 nýjungar sem voru merktar sérstaklega á sýningunni. Hægt er að fá þrjár mismunandi viðurkenningar fyrir nýjungar: eina stjörnu fyrir breytta tækni á áður framleiddu tæki, tvær stjörnur fyrir verulega breytta hönnun og svo þrjár stjörnur fyrir það sem kalla má nýja uppfinningu. Það eru svo nokkrir bændur og ráðunautar sem hafa það hlutverk að útdeila stjörnunum á fyrirtækin og getur það oft verið afar vandasamt verk, enda eftirsótt af fyrirtækjunum að skarta skiltum sem benda á nýjungar. Alls voru 27 nýjungar sem hlutu náð dómnefndar í ár og fengu þrjár stjörnur og voru þar á ferðinni afar fjölbreytt tæki og tól. Þessar 27 nýjungar kepptu svo sín á milli um Agromek-verðlaunin, en þau verðlaun eru veitt fyrir þá nýjung sem þykir skara fram úr og vera best meðal jafningja.

Fjarfluga sem skoðar akrana

Í ár hlaut fyrirtækið Geoteam A/S Agromek verðlaunin fyrir fjarflugu (dróna) sem kallast UX5-drone. Þessi fjarfluga flýgur með 80 km hraða yfir akra í 750 metra hæð og metur með sérstökum innrauðum búnaði vöxt plantna. Tilgangurinn er sá að þá getur bóndinn ákveðið hvort vöxturinn er undir væntingum og hvort t.d. sé ástæða til þess að bregðast við því með einhverjum hætti s.s. með áburðargjöf, vökvun eða sprautun. Alls getur fjarflugan metið 1.000 hektara á hverri klukkustund, svo um all afkastamikið tæki er að ræða en einnig má velja aðrar stillingar s.s. loftmyndatöku en þá flýgur fjarflugan í 100 metra hæð og mun hægar. Afköst hennar færast þá niður í 45–55 hektara á klukkustund, sem væntanlega dugar nú flestum bændum. Fjarfluga þessi getur einnig nýst bændum sem þurfa að ræða við opinbert eftirlit eða t.d. tryggingafélög s.s. vegna skaða af völdum óveðurs, sem er svo sjaldgæft í Danmörku að hægt er að tryggja sig fyrir slíku tjóni þar í landi.

Næstum allar dráttarvélarnar

Það er oft þannig á landbúnaðarsýningum að það „vantar“ einhver fyrirtæki. Bændur hafa væntingar um að sjá „sín“ fyrirtæki og í ár voru næstum öll dráttarvélafyrirtækin á sýningunni en af helstu merkjum má nefna John Deere, New Holland, Massey Ferguson, Valtra, Fendt, Claas, Deutz-Fahr, Same og Lamborgini. Fremstur meðal jafningja var þó hinn myndarlegi T8.435 frá New Holland. Eins og nafnið ber með sér skilar þessi dráttarvél 435 hestöflum og eins og svo oft áður með stór og aflmikil tæki vakti T8 mikla athygli gesta sýningarinnar.

1.584 kílóa naut

Auðvitað er ekki hægt að gera heilli landbúnaðarsýningu góð skil í einni grein enda voru sýningar-hallirnar 13 og bæði búnaður fyrir nautgriparækt, svína- og alifuglarækt auk þess sem sýnd voru helstu nautgripakyn sem til eru í Danmörku. Í sýningarhöllinni, þar sem nautgripirnir voru til sýnis, var að vanda keppt í útlitsdómum nautgripa í bæði flokki mjólkurkúakynja og holdanautakynja. Eftirtektarverður var sigurvegari holdanautanna en þar öttu kappi mörg glæsinautin en bestur þeirra var metinn tarfurinn með hið skemmtilega nafn Dijon De Jennum en hann er af Charolai-kyni. Naut þetta er sex ára gamalt og vó á matsdegi heil 1.584 kíló.

Bændur öttu einnig kappi

Það var ekki síður skemmtilegt að fylgjast með keppni bænda í mjöltum, en á annan tug tóku þátt í forkeppninni en svo voru þrír eftir í sjálfum úrslitunum. Keppnin fór þannig fram að handmjólkað er með annarri hendinni og eru þrjár kýr notaðar hverju sinni. Hver keppandi fær að mjólka einn spena á hverri þeirra í tvær mínútur í senn og svo er eins mínútna hlé á milli, sem bændurnir nýta til þess að hvíla þreytta vöðvana og færa sig á milli kúa. Með þessu móti var mun á milli kúa eytt og aðstaða keppenda jöfnuð. Stórskemmtileg keppni sem vakti verðskuldaða athygli.

Aftur árið 2016

Eins og áður segir er Agromek haldin annað hvert ár og hefur þegar verið ákveðið að halda næstu sýningu í lok nóvember 2016. Á heimasíðu sýningarinnar, www.agromek.dk, má fræðast enn frekar um þessa sýningu og hvað hún hafði upp á að bjóða í ár.

Skylt efni: Sýningar

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna
Fréttir 13. júní 2022

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna

Nýlega skrifuðu forsvarsmenn Örnu í Bolungarvík og forsvars- menn Reykjavík...

Samdráttur í sölu á fræi
Fréttir 8. júní 2022

Samdráttur í sölu á fræi

Samkvæmt lauslegri könnun Bændablaðsins er búið að flytja inn rúm tvö tonn a...

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu
Fréttir 8. júní 2022

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu

Rúmlega tuttugu íslensk fyrirtæki sem tengjast landbúnaði og matvælaframleiðslu ...