Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Margfaldur Íslandsmeistari í fitness við burðaraðstoð í Borgarfirði
Viðtal 1. júní 2015

Margfaldur Íslandsmeistari í fitness við burðaraðstoð í Borgarfirði

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Þótt það sé að miklu leyti aflagt að borgarbörn séu send í sveit á sumrin, þá blundar samt í mörgum, jafnt ungum sem ögn eldri, að fá að kynnast lífinu í sveitinni. Sumir láta ekki duga að hugsa um það heldur gera eitthvað til að láta það verða að veruleika.

Kristín Sveiney Baldursdóttir er ein þessara þéttbýlisbúa sem er með mikinn áhuga fyrir sveitinni og nýtur hverrar mínútu sem hún kemst í tengsl við dýrin. Nú í maí kallaði þörfin fyrir að komast í beina snertingu við sveitalífið og sendi hún því fyrirspurn á Facebook hvort ekki vantaði einhvers staðar starfskraft við sauðburð. Það var eins og við manninn mælt að margir óskuðu eftir hennar liðsinni.

Búfræðingur og margfaldur Íslandsmeistari í fitness

Stína, eins og hún er gjarnan kölluð af þeim sem þekkja hana, er tveggja barna móðir, búfræðingur að mennt og útskrifaðist frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri 2010. Þá tók hún eitt ár til viðbótar í skógfræði og landgræðslu árið 2013. Segist hún gjarnan vilja klára námið til að ná BS-gráðu í landgræðslufræðum en það eru í heild þrjú ár. Þó hún sé mikil sveitamanneskja í sér er hún þó trúlega þekktust um þessar mundir, allavega hjá þéttbýlisbúum, fyrir áhuga og árangur sinn í fitness og vaxtarrækt. Hún er þó ekki búin að stunda það sport ýkja lengi.

„Ég keppti fyrst í fitness 2012 og er búinn að taka þátt í þrem mótum hér heima og hef unnið þau öll. Ég er því búin að vinna allt sem ég get hugsanlega unnið á því sviði hér heima.“
– Hefur þú þá ekkert verið að spá í keppni í útlöndum?

„Jú, en það fylgir því miklu meiri kostnaður og meiri vinna. Dómararnir hér heima vilja samt meina að ég sé alveg á heimsmælikvarða í þessu sporti. Það þýðir bara miklu meira álag á skrokkinn og þetta er ekkert voðalega hollt sport. Svo er ég bara þannig að ég vil gera allt hundrað prósent í smá tíma, en svo vil ég snúa mér að einhverju allt öðru.“

Stína segir að sér finnist oft erfitt að búa á höfuðborgarsvæðinu, en hún býr nú í Hafnarfirði ásamt sínum manni, Hlyni Guðlaugssyni prentsmið.  

„Mér finnst oft erfitt að vera í borginni og spyr mig stundum: Úff, hvernig á ég að höndla allt þetta stress og þessa umferð?“

– Er fólk samt ekkert hissa á þessu brölti þínu út í sveit?

„Nei, þeir sem þekkja mig vita alveg hversu tvískipt ég er í þessu. Annaðhvort fitness eða sveitalífið. Ég er að reyna að finna jafnvægið og hvernig ég get stundað fitness og notið sveitalífsins jafnhliða.“

Sveitin togar

Stína segir að sveitin hafi alltaf togað í hana. Þar sé allt annar hrynjandi í mannlífinu og börnin geti lifað mun heilbrigðara lífi en þekkist í þéttbýlinu. Sjálf kynntist hún vel sveitalífinu sem krakki og unglingur hjá Kristjáni Kristjánssyni  og Sigríði F. Hafliðadóttur, bændum á Hvítanesi við Ísafjarðardjúp. Hún segir að hún og maður hennar, Hlynur, hafi svo sem reynt að gera draum sinn að veruleika um að nálgast sveitina með því að gera tilboð í kaup á húsi á Hvanneyri. Hafði hún þá hugsað sér að halda áfram námi við LbhÍ ef það hefði orðið að veruleika.

Segir Stína að það sé greinilega einhver vakning meðal fólks á höfuðborgarsvæðinu að komast í sveitina. Þannig viti hún af þrem hjónum sem séu að íhuga flutninga á Hvanneyri. Það sé þó ekki alltaf einfalt að finna heppilegt húsnæði á landsbyggðinni, hvað þá að taka við búi eða kaupa jörð. Slíkt sé flestum ofviða fjárhagslega.

„Það er svolítið verið að bítast um þetta litla sem er í boði á skaplegu verði. Annars er fullt af jörðum til sölu, en það getur bara enginn keypt þær. Það er því meira en að segja það að ætla sér að gerast bóndi í dag. Þá sýnist mér að landbúnaðurinn sé mikið að breytast. Það kemst enginn af nema vera með þúsund kindur eða meira. Svo stór bú finnst mér ekki sérstaklega spennandi. Þá verður maður líka í mun minni tengslum við dýrin, þetta verður meira eins og verksmiðjuvinna. “

Hún segir að það eina sem hafi klikkað í þessu dæmi þeirra hjóna varðandi kaupin á Hvanneyri var að íbúð þeirra í Hafnarfirði seldist ekki. Það má því segja að með því að bjóða fram aðstoð sína við sauðburð á Facebook hafi það bjargað þörfinni fyrir sveitatengslin þetta vorið.  

Langaði að komast í sauðburð

„Ég er í sumarfríi og langaði að komast í sauðburð því það er eitt það skemmtilegasta sem ég veit. Ég setti inn „status“ á Facebook þar sem ég spurði hvort ekki vantaði aðstoð í sauðburði einhvers staðar. Fékk auðvitað fullt af flottum svörum og var búin að ákveða að fara til bekkjarsystur minnar úr búfræðinni, austur á firði, þegar ég fékk fregnir af Magnúsi á Samtúni í gegnum vinafólk á Hvanneyri. Þau sögðu mér að Magnús sárvantaði aðstoð þar sem hann væri aleinn að standa í þessu þetta árið. Ég fór og kíkti á aðstæður og sá strax að hér gæti ég gert mikið gagn og látið gott af mér leiða svo ég mætti strax um kvöldið á vakt. Magnús fékk þá loks að sofa eftir margar vökunætur.“


Mér leið rosalega vel

„Þangað fór ég 2. maí og síðan aftur heim 14. maí. Mér leið rosalega vel hjá þeim. Draumurinn minn var alltaf að búa í sveit með sauðfé og hross svo ég fékk aldeilis útrás fyrir það á bænum. Svo er þetta þægilega stutt frá Reykjavík.

Að Samtúni búa mæðginin Magnús Jakobsson og móðir hans, Svava Auðunsdóttir, sem er á níræðisaldri. Þar er fjárbú með um 200 fjár auk 13 hrossa. Magnús er mikill hestamaður og nýtir hverja stund til útreiða.

Fjárhúsin eru byggð kringum 1940. Þetta er ekki auðveld vinna og dáist ég að því hvernig Magnús getur gert þetta einn allt árið kominn hátt í sjötugt. Þetta hefur þó ákveðinn sjarma og er manni dálítið kippt aftur í tímann að vinna í svona aðstæðum.

Þetta var mjög skemmtilegt þótt aðstæðurnar væru mjög erfiðar. Það þurfti t.d. að bera allt vatn í kindurnar í fötum.

Þetta hefur Magnús unnið nánast allt einn. Hann slær allt sjálfur á sumrin og rakar saman, en fær þó verktaka í að rúlla fyrir sig heyinu.“

– Þú lætur sem sagt vel af vistinni í Samtúni?
Já, ég naut vistarinnar virkilega og mun vera í sambandi við þau um ókomin ár. Þau voru afskaplega þakklát fyrir hjálpina.

Stína segir að það sé svo sem ekkert ákveðið hvað þau skötuhjúin geri varðandi áhuga hennar á sveitinni. Hlynur sé ekki eins mikið fyrir sveitina en opinn fyrir breytingum, en hana langi alltaf þegar byrjar að vora að komast út í náttúruna og í snertingu við dýrin. Sjálf hefur hún átt hesta, unnið við tamningar og hefur mikið dálæti á hestamennsku.

„Allt síðast sumar var ég bara í hestaferðum,“ segir Kristín Sveiney Baldursdóttir sem útilokar ekki eitthvað svipað í sumar. 

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...