Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Lúpína í blóma.  Mynd/ Borgþór Magnússon.
Lúpína í blóma. Mynd/ Borgþór Magnússon.
Fréttir 21. desember 2018

Lúpína viðhelst meðan spírunarskilyrði eru til staðar

Höfundur: Vilmundur Hansen

Í nýlegri skýrslu Náttúrufræði­stofnunar Íslands er greint frá niðurstöðum rannsókna á framvindu gróðurs á svæðum þar sem alaskalúpína hafði vaxið og breiðst út um áratuga skeið.

Fram kemur í skýrslunni að með hlýnandi veðurfari og samdrætti í sauðfjárbeit megi búast við að útbreiðsla lúpínu og gróðurs sem fylgir í kjölfar hennar, svo sem skógarkerfils, margfaldist á næstu áratugum og að miklar breytingar verði á gróðurfari og búsvæðum dýra vegna þessa.

Rannsóknirnar fóru fram árin 2011–2014 á 15 svæðum á suður- og norðurhluta landsins. Þær voru endurtekning á rannsóknum sem fóru fram á sömu svæðum um 20 árum fyrr. Höfundar skýrslunnar eru Borgþór Magnússon, Sigurður H. Magnússon og Bjarni Diðrik Sigurðsson.

Hver eru áhrif lúpínu?

Markmið með rannsóknunum var að leita svara við spurningum um í hvers konar landi lúpína breiðist út, hvort hún breiðist yfir gróið land, hvaða gróðurbreytingar fylgi henni, hvort hún víki með tímanum og hvaða áhrif hún hefur á jarðveg.

Helstu niðurstöður

Lúpína breiðist yfir fjölbreytilegt land sem er allt frá því að vera nær ógróið, hálfgróið til gróið. Á úrkomusömum svæðum sunnan heiða myndar lúpína, á rýru landi, með tímanum blómríkt graslendi með miklum mosa í sverði. Þar á lúpína erfitt með að endurnýja sig af fræi og hörfar víða með tímanum og skilur eftir sig blómríkt graslendi. Þar sem úrkoma er lítil norðan heiða verður lítill mosavöxtur og næst þetta framvindustig hörfunar ekki á þeim 50 árum sem rannsóknir okkar ná til. Lúpína viðhelst meðan spírunarskilyrði fyrir hana eru til staðar. Norðanlands breiðist lúpína inn á gróið mólendi með fremur ríkum jarðvegi. Þar myndast með tímanum elftingaríkt land með lúpínu og blómjurtum. Lúpína virðist lítið hörfa af því landi enn sem komið er. Hörfun lúpínu getur orðið við það að skógur vex upp í breiðum eftir að plantað er í þær, eða við sjálfsáningu í gisnum breiðum. Þá getur lúpína látið undan við sauðfjárbeit eða úðun með illgresiseyði. Síðan eru dæmi um að skógarkerfill leggi undir sig lúpínubreiður og verði einráður, en hversu lengi hann viðhelst í landi er óljóst.

Niðurstöður milli landshluta

Um sunnanvert landið er úrkomusamara en norðanlands og vaxtarskilyrði betri fyrir lúpínu. Sunnanlands var framvinda í lúpínubreiðum fremur lík frá einu svæði til annars. Þar myndaðist með tímanum graslendi í lúpínunni með tvíkímblaða jurtum og þéttu mosalagi í sverði. Á nokkrum svæðum hafði lúpína gisnað mikið eða hörfað á gömlum vaxtarstöðum en ekki var það alls staðar.

Á Norðurlandi var framvinda misjöfn eftir aðstæðum. Á melum í útsveitum sóttu einkum grastegundir í gamlar breiður en á þurrari svæðum inn til landsins þar sem lúpína var gisnari þróaðist gróður í mólendisátt á gömlum melum og í skriðum. Lúpína breiddist hins vegar auðveldlega yfir gamalt mólendi norðanlands og óx þar vel á moldarríkum jarðvegi. Þar gjöreyddist lynggróður en myndaðist með tímanum elftingaríkt blómlendi í gömlum breiðum. Ekki komu fram jafn skýr merki um hörfun lúpínunnar norðanlands og sunnan, nema í Hrísey þar sem skógarkerfill hafði lagt undir sig gamla lúpínu. Lítið annað en kerfill fannst í því landi.

Sú tilgáta er sett fram í skýrslunni að hörfun lúpínu sunnanlands stafi af myndun þétts og þykks mosalags og miklum grasvexti undir lúpínunni sem veldur því að það tekur fyrir endurnýjun hennar af fræi. Með tíð og tíma ganga plönturnar úr sér og drepast ein af annarri og hverfur lúpínan úr landi. Á Norðurlandi er mosa- og grasvöxtur í lúpínubreiðum miklu minni en sunnanlands. Þar tekur því síður fyrir endurnýjun lúpínu af fræi er árin líða.

Alaskalúpína hefur breiðst mjög út á friðuðum svæðum um allt land á undanförnum áratugum. Víða hefur verið gripið til aðgerða til að hefta útbreiðslu hennar, með misjöfnum árangri. Lúpína hefur aðeins numið brot af því landi sem hún er fær um. Líklegt er að sandar og aurar sunnan jökla og mólendissvæði á Norðurlandi séu stærstu flæmin sem lúpína mun breiðast um, dragi þar úr eða taki fyrir sauðfjárbeit.
Lúpínan hefur verið skilgreind sem ágeng, framandi tegund hér á landi og er dreifing hennar bönnuð á svæðum yfir 400 m hæðar.

Hvað hefur áhrif á líðan bænda?
Fréttir 6. desember 2024

Hvað hefur áhrif á líðan bænda?

Valgerður Friðriksdóttir stendur fyrir rafrænni könnun þar sem hún skoðar hefðir...

Lök kornuppskera á landinu
Fréttir 6. desember 2024

Lök kornuppskera á landinu

Samkvæmt bráðabirgðatölum bendir allt til að uppskera af þurru korni sé umtalsve...

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð
Fréttir 5. desember 2024

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð

Ný skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem fjögur erlend kúakyn voru borin s...

Skrásetja sögu brautryðjenda
Fréttir 5. desember 2024

Skrásetja sögu brautryðjenda

Sögur brautryðjenda í garðyrkju varpa ljósi á þá miklu þróun sem hefur átt sér s...

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland
Fréttir 5. desember 2024

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland

Eigendur Friðheima, Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir, munu taka við ...

Áfrýjar dómi
Fréttir 5. desember 2024

Áfrýjar dómi

Undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum féllu úr gildi með dómi Héraðsdó...

Fuglaflensa á íslensku búi
Fréttir 5. desember 2024

Fuglaflensa á íslensku búi

Á þriðjudaginn greindist fuglaflensa af gerðinni H5N5 á kalkúnabúi Reykjabúsins ...

Mismunur bændum í óhag
Fréttir 5. desember 2024

Mismunur bændum í óhag

Í dag kostar 306 krónur að framleiða lítra af mjólk samkvæmt nýsamþykktum verðla...