Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Lífrænn landbúnaður – hefur þú kynnt þér málið?
Fræðsluhornið 6. maí 2016

Lífrænn landbúnaður – hefur þú kynnt þér málið?

Höfundur: Lena Reiher
Lífræn framleiðsla á landbúnaðar­vörum hefur ekki verið mikil á Íslandi og í dag eru þrjú kúabú, sjö sauðfjárbú, tólf grænmetisstöðvar og þrjú eggjabú með lífræna vottun á sínum afurðum frá vottunarstofunni Tún. 
 
Markaðssetning lífrænna afurða er einungis leyfileg ef faggild vottunarstofa hefur reglubundið eftirlit með starfseminni og vottar hana í kjölfar árlegra úttekta. Mynd 1 sýnir þróunina á fjölda framleiðenda með lífræna vottun frá upphafi, en vottunarstofan Tún var stofnuð árið 1994 (Tún, 2015). Flestir framleiðendur á landbúnaðarvörum voru árið 2011 en vinnslustöðvunum hefur fjölgað jafnt og þétt og hafa þær verið um 29 í fyrra. Vinnslustöðvar eru bæði fyrirtæki sem sjá um endurpökkun innfluttra vara og fyrirtæki í matvælavinnslu (mjólkurvinnsla, bakarí, kaffibrennsla, snyrtivöruframleiðsla o.fl.).
 
Landið sem liggur til grundvallar lífrænni landbúnaðarframleiðslu er rúmlega 24.000 ha (mynd 2, Tún 2015). Hér er um að ræða lífrænt vottað land og land í lífrænni aðlögun. Vert er að taka fram að inn í þessari tölu er land til jurtasöfnunar sem í mörgum tilfellum er um að ræða mjög stór svæði. Árið 2007 hefur hekturum fjölgað umtalsvert eða úr 5.000 ha í um 18.000 ha en þá bættist við stóru svæði á Vestfjörðum til jurtasöfnunar.
 
Þrátt fyrir aukningu á undan­förnum árum er lífrænt vottað nytjaland einungis 1,6 % af íslensku landbúnaðarlandi í heild! Í samanburði við nágrannalöndin er Ísland langt á eftir í þessari þróun. Gögn frá árinu 2012 gefa til kynna að 0,4% af landinu í heild var með lífræna vottun en til samanburðar 15,6% í Svíþjóð, 8,7% í Finnlandi, 7,4% í Danmörku og 5,1% í Noregi (Løes et al, 2015).  
 
Árið 1991 innleiddi Evrópu­sambandið reglugerð fyrir vottun á lífrænum matvælum og hefur lífrænn landbúnaður vaxið hratt í flestum Evrópulöndum síðan. Evrópusambandið styður lífrænan landbúnað til að vernda umhverfið, tryggja dýravelferð, varðveita og auka fjölbreytileika tegunda, styðja við landsbyggðina og ekki síst vegna aukinnar eftirspurnar neytenda eftir lífrænum landbúnaðarvörum (Løes et al 2015). Ýmislegt má nefna sem hefur haft áhrif á framvindu lífræns landbúnaðar á Íslandi og skýrir að einhverju leyti þennan mun á milli Ísland og nágrannalanda. Fyrsta og eina opinbera aðgerðaáætlun um Eflingu græna hagkerfisins á Íslandi var kynnt árið 2011 (Alþingi 2011). Sú staðreynd sýnir augljóslega að seint er farið af stað og lítil áhersla er lögð á lífrænu greinina þrátt fyrir  að eftirspurn eftir lífrænum matvælum sé mun meiri en framboð í öllum helstu matvöruflokkum en henni er mætt með auknum innflutningi (Løes et al., 2015).  Vöntun á lífrænni framtíðarsýn hjá opinberum stofnunum og háskólum hefur hamlað þróun hérlendis og virðist lífrænn landbúnaður enn ekki orðin viðurkennd leið til að auka umhverfismiðaðan árangur eða sjálfbærni í landbúnaði almennt (Løes et al., 2015).  

Íslenskir lífrænir bændur hafa síðan þurft að kljást við ákveðin „innanhússvandamál“ eins og áburðarmál á þessum slóðum (lágt hitastig og lítið framboð af viðurkenndum N-áburðargjöfum) og einungis lítils háttar aðlögun EU-reglugerðarinnar að norðlægum aðstæðum og smávöxnum dýrakynjum. Ríkisstuðningur við aðlögun að lífrænum landbúnaði hefur verið aðgengilegur síðan 2011 en á síðustu árum hefur einungis verið greitt u.þ.b. 30% af því til bænda (fyrirfram ákveðin heildarupphæð sem skiptist á milli umsækjenda) sem hefur ekki haft hvetjandi áhrif á fjölgun í greininni.
 
Einhverjar breytingar eru nú í vændum: Eitt af markmiðum rammasamnings um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins milli ríkisvaldsins og Bændasamtakanna, sem undirritaður var 19. febrúar sl., er að auka vægi lífrænnar framleiðslu. 35 milljónir kr. á ári eru ætlaðar til aðlögunar að lífrænum framleiðsluháttum sem er ágætis aukning frá því sem hefur verið (3,5 milljónir kr á ári). Hins vegar eru þessir fjármunir eingöngu ætlaðir til aðlögunar með það að markmiði að aðstoða framleiðendur við að uppfylla þær kröfur sem lífræn búvöruframleiðsla hefur í för með sér og auka framboð lífrænna vara á markaði (rammasamningur 2016). Þetta eru ánægjulegar fréttir en sú hætta gæti fylgt þessari afmörkun að framlögin verða ekki fullnýtt sem aðlögunarstyrkir, sérstaklega á fyrstu árunum en mikilvægt er að tryggja öruggt markaðsumhverfi og akademískan metnað í landinu með það að leiðarljósi að fjölga lífrænum bændum og hekturum undir lífrænan landbúnað. Aukning á aðlögunarstyrk er góð byrjun en því þarf að fylgja hugarfarsbreyting og stefnumótun hjá hinu opinbera – hvar ætlar Ísland að vera statt í nánustu framtíð með tilliti til sjálfbærrar landnýtingar? Hvernig ætlar Ísland að forgangsraða nátturugildum, loftslagsbreytingum og heilsufarsvandamálum landsmanna? Ætlar Ísland að taka höndum saman við þau lönd sem setja fram markmið um aukna lífræna landnýtingu? Þörfin fyrir rannsóknir hérlendis er mikil á mörgum sviðum sem tengjast lífrænni ræktun. Góður árangur hefur náðst hvað varðar uppskeru og afurðir í nágrannalöndum og öðrum sem tóku af skarið og settu sér skýra stefnu um aukningu lífræns landbúnaðar (Ponisio et.al, 2014). 
 
Breyting í lífrænni framleiðslu er áskorun fyrir hvern bónda og mikilvægt er að velta ákveðnum atriðum fyrir sér áður en lengra er haldið. Hverjir eru sölumöguleikar (markaðsstaða, markaðsverð), hvaða áhrif munu breytingarnar (úr hefðbundnu í lífrænt) hafa á hagkvæmni búsins og hverjir eru styrktarmöguleikar? Lykilatriðið í lífrænum búrekstri er að framleiða landbúnaðarafurðir í sátt við náttúruna. Aðferðir í lífrænum landbúnaði leggja sterka áherslu á nánast lokaða hringrás næringarefna á búinu en undirstaða fóðurs og næringarefna á að vera eigin búrekstur. Frjósemi í jarðvegi verði að varðveita og auka og velferð búfjár er veigamikið atriði varðandi fyrirbyggingu sjúkdóma. Eftirfarandi aðgerðir vega mest í því sambandi:
 
 • Útilokun kemískra varnarefna, ræktun harðgerðra yrkja í viðeigandi sáðskiptum, notkun náttúrulegrar varnar og vélrænna varnaraðgerða gegn illgresi 
   
 • Útilokun tilbúins áburðar, nýting köfnunarefnis, aðallega úr búfjáráburði, belgjurtarækt og notkun náttúrulegra, hægvirkandi áburðarefna.
   
 • Varðveita frjósemi jarðvegs með umfangsmikilli moltu­framleiðslu.
   
 • Fjölbreytt sáðskipti
   
 • Takmarkaður búfjárfjöldi, háður landstærð
   
 • Fóðrun búfjár með heimaöfluðu fóðri, sem minnst aðkeyptu fóðri
   
 • Forðast að mestu leyti notkun pencillins, áhersla lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir s.s. velferð gripa, kynbótaval og fóðrun
 
Stuðningur við ákvörðunartöku vegna hugsanlegrar breytingar í lífræna landbúnaðarframleiðslu er mikilvægur. Nauðsynlegt er að afla sér víða upplýsinga og það er dýrmætt að sækjast eftir samtali við bændur í lífrænum búskap um þeirra reynslu ásamt því að kynna sér faggreinar og rannsóknir í þeim efnum.
 
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins veitir ráðgjöf til þeirra sem eru að velta fyrir sér lífrænu leiðinni og aðstoð í aðlögunarferlinu. Þeir sem eru að íhuga þessa framleiðsluaðferð eru hvattir til að hafa samband við undirritaða í síma 516 5034 eða í tölvupósti lr@rml.is. 

Heimildir:
Mynd 1 og 2: Vottunarstofa Tún, 2015
-Løes A-K, Dýrmundsson OR, Kreismane D, Mikkola M, Pehme S, Rasmussen IA, Skulskis V, Wiwstad M (2015): The organic sector in the nordic-baltic region – what is achieved, and what is challenging further growth? Proceedings of the NJF 25th congress, Riga, Latvia, 16.-18. june 2015, Nordic view to sustainable rural developement.
Alþingi 2011. Efling græna hagkerfisins á Íslandi. Nefnd Alþingis um eflingu græna hagkerfisins. Skrifstofa Alþingis, aðgengilegt á vefsíðu: www.althingi.is/pdf/Graent_hagkerfi.pdf
Ponsio LC, M‘Gonigle LK, Mace KC, Palomino J, Valpine Pd, Kremen C (2014): Diversification practices reduce organic to conventional yield gap. Proceedings of the Royal Society B, published 10 december 2014.DOI:10.1098/rspb.2014.1396. Aðgengilegt á vefsíðu: http://rspb.royalsocietypublishing.org/content/282/1799/20141396

3 myndir:

Riða greindist í skimunarsýni
Fréttir 25. janúar 2022

Riða greindist í skimunarsýni

Matvælastofnun barst fyrir skömmu tilkynning frá Tilraunastöð HÍ að Keldum um að...

John Deere 7R 350 autoPowr er dráttarvél ársins 2022
Fréttir 24. janúar 2022

John Deere 7R 350 autoPowr er dráttarvél ársins 2022

John Deere 7R 350 AutoPowr er dráttarvél ársins 2022 í opnum flokki að mati evró...

KFC fékk mest úthlutað
Fréttir 24. janúar 2022

KFC fékk mest úthlutað

Atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytið hefur birt niðurstöðu úthlutunar á tollkvó...

Kostnaður við að fjölga neyðarstöðvum í Vaðlaheiðargöngum yfir 10 milljónir króna
Fréttir 24. janúar 2022

Kostnaður við að fjölga neyðarstöðvum í Vaðlaheiðargöngum yfir 10 milljónir króna

Kostnaður við að setja upp nýjar neyðarstöðvar í Vaðlaheiða­r­göng­um nemur 10 t...

Markmið um að 12 mánaða börn fái leikskólapláss í Sveitarfélaginu Skagafirði
Fréttir 21. janúar 2022

Markmið um að 12 mánaða börn fái leikskólapláss í Sveitarfélaginu Skagafirði

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur um nokkurt skeið unnið að því að koma til móts...

Gat á sjókví í Reyðarfirði
Fréttir 21. janúar 2022

Gat á sjókví í Reyðarfirði

Matvælastofnun barst tilkynning frá Löxum Fiskeldi fimmtudaginn 20. janúar um ga...

Skoða alla möguleika til að mæta mikilli eftirspurn eftir lóðum
Fréttir 20. janúar 2022

Skoða alla möguleika til að mæta mikilli eftirspurn eftir lóðum

„Við erum hvergi nærri hætt með okkar uppbyggingu, en stefnan er að íbúar í svei...

„Fyrir okkur öll“ er nýtt slagorð Rangárþings ytra
Fréttir 19. janúar 2022

„Fyrir okkur öll“ er nýtt slagorð Rangárþings ytra

Rangárþing ytra efndi nýlega til slagorðakeppnis um slagorð fyrir sveitarfélagið...