Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Önnur tveggja véla sem til landsins komu er á Neðra-Hálsi í Kjós. Undir stýri situr Magnús Pétursson.
Önnur tveggja véla sem til landsins komu er á Neðra-Hálsi í Kjós. Undir stýri situr Magnús Pétursson.
Á faglegum nótum 9. maí 2017

Leitin að Hatz

Höfundur: Magnús Pétursson
Í senn er það bæði gaman og alvara að halda til haga sögu framfara í landbúnaði í landinu. Nokkur hópur manna hefur að dægradvöl að skrá sögu og gera upp gamlar dráttarvélar og önnur landbúnaðartæki.
Bylting varð í búskaparháttum landsmanna um og upp úr miðri síðustu öld þegar mikill fjöldi véla var fluttur til landsins. 
 
Á nokkrum stöðum í landinu hafa verið opnuð söfn með gömlum búvélum og njóta vaxandi vinsælda. Gestum, innlendum og útlendum, þykir því áhugaverðara sem vélarnar eru sjaldséðari og saga þeirra aðgengileg gjarnan í máli og myndum. Samkeppni var mikil milli innflytjenda þessarra tækja og sumar urðu vinsælli en aðrar. 
 
Tvær dráttavélar frá Hatz
 
Á sjötta áratug síðustu aldar hóf Landssmiðjan að flytja inn tæki frá þýska fyrirtækinu Hatz. Aðallega voru það mótorar til notkunar sem bátavélar, ljósavélar eða súgþurrkunarmótorar. Þó flutti Landsmiðjan einnig inn tvö eintök af Hatz dráttarvélum árin 1955 og 1956, báðar af gerðinni Hatz TL-10, með sláttuvél. Þetta voru frekar litlar vélar, með 10 hestafla einsstrokks dísilmótor. 
 
Önnur vélin er í allgóðu ásigkomulagi og gangfær, en það er hin, sem hér verður fjallað um. Að því er best er vitað, eru þetta einu dráttarvélarnar af Hatzgerð, sem fluttar hafa verið til landsins.
 
Vindheimar í Skagafirði 1953 eða 1954.
 
Vindheima-Hatzinn 
 
Hatzvél kom í Vindheima í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði vorið 1956 og var notuð þar um þriggja ára skeið. Á bænum voru tveir ungir drengir, Magnús og Pétur Óli Péturssynir (f. 1947 og 1949) og kom það að mestu í hlut þeirra að vinna á vélinni. Dvöl hennar þar lauk svo þegar öflugri dráttarvél af Ferguson-gerð var keypt til búsins. Hatzinn var sendur aftur suður og slóð hans rofnaði. Mögulega fór hann aftur til Landssmiðjunnar en einnig hefur nafn Ólafs frá Oddhól, í Bíla- og búvélasölunni, verið nefnt í því sambandi.
 
HATZ-félagið
 
Fyrir nokkru vaknaði áhugi þeirra bræðra á því að grafast fyrir um örlög Vindheima-Hatzins. Árið 2016 stofnuðu þeir með tveimur öðrum áhugamönnum „HATZ-félagið“, en helsti tilgangur þess er, eins og segir í stofnskrá, „að hafa uppi á og endurbyggja Hatz dráttarvél, sem var notuð á Vindheimum í Skagafirði á 6. áratug 20. aldar“.
 
Félagið lagðist strax í rannsóknarvinnu og var rætt við allmarga áhugamenn um gamlar landbúnaðarvélar, sem allir tóku erindinu vel. Það var svo Þóroddur Már Árnason frá Kistufelli í Lundarreykjadal, sem upplýsti, að svona vél hefði verið notuð á Stóru Fellsöxl í Skilmannahreppi, hjá Magnúsi Símonarsyni bónda þar. Þetta kynni að vera Vindheimavélin.
 
Magnús bóndi er löngu látinn og ekki búið á Stóru-Fellsöxl lengur. En fyrir eftirgrennslan Helga Bergþórssonar, bónda á Eystra-Súlunesi þar í nágrenninu, rifjaðist sitthvað upp um sögu vélarinnar og smám saman tókst að ákvarða hvar vélin hefði síðast staðið. Mótorinn hafði verið tekinn úr henni á sjöunda áratugnum og seldur vestur á Mýrar til notkunar sem ljósavél að talið er. 
 
Í byrjun febrúar 2017 gerði HATZ-félagið ásamt Helga leiðangur að Stóru-Fellsöxl til að skoða aðstæður. Í fyrstu sáust engin ummerki um téða vél, en Helgi kom svo auga á járnstöng, sem grillti í upp úr grassverðinum í jaðri stóru malarnámunnar austan í Akrafjallinu. Við nánari athugun kom í ljós að þetta var handbremsustöng. Á bæjum var algengt að óþarfa hlutir eins og járnarusl væri urðað. Það gæti átt við hér.
 
Hatzinn grafinn upp
 
Sótt var um leyfi til núverandi landeiganda Stóru-Fellsaxlar, Helga Þorsteinssonar, um að fá að grafa upp það sem kynni að leynast þarna undir og var það góðfúslega veitt. Og sunnudaginn 26. mars síðastliðinn var mætt á staðinn með gröfu og fríðu föruneyti, 20 manns alls, og hafist handa. Skemmst er frá því að segja, að fljótlega komu upp á yfirborðið kunnuglegir hlutir, sem greinilega voru af Hatzvél og í furðu góðu ástandi. Þetta voru meðal annars mótorhlíf, framöxull með hjólum, kúplingshús, afturöxlar og ekilssæti. Vegna síversnandi veðurs var þá ákveðið að fresta frekari leit þar til síðar. Uppkomnir hlutir voru fluttir brott og komið í skjól.
 
Auk þeirra manna, sem fyrr eru nefndir, naut HATZ-félagið aðstoðar Tómasar Árnasonar á Kistufelli, Einars Marteinssonar gröfueiganda, og Þórarins Jónssonar, bónda á Hálsi í Kjós, eiganda fyrri Hatz-vélarinnar. Aul þess sem Gísli „Landi“ Einarsson RÚV-maður mætti með kvikmyndatökumanni til að mynda uppgröftinn.
 
Frá uppgreftri við Stóru-Fellsöxl, Skilmannahreppi, 26. mars 2017.
 
Ýmislegt vantar
 
Það liggur fyrir að leita þarf af sér allan grun á Stóru-Fellsöxl. Stærstu hlutirnir, sem enn vantar, eru afturhjólin, gírkassinn, mismunadrifið og sláttuvélargreiðan. Eins og áður er nefnt, er talið að mótorinn hafi farið vestur á Mýrar og verið notaður sem ljósavél. Ekki er vitað hvað um hann varð, en það er eitt verkefni félagsins að rannsaka það.
 
Eitt atriði hefur vakið efasemdir í hjarta HATZ-félaga: H-ið í HATZ-merkinu framan á uppgrafinni mótorhlíf er heilt. Á Vindheimavélinni hafði þessi stafur brotnað áður en hún fór suður, þannig að hann breyttist í lágstafs-h. Er það kannski ekki Vindheimavélin, sem var grafin upp? Ef ekki, hvar er hún þá? Það mun reyna  á rannsóknarhæfileika HATZ-manna að komast til botns í því.

4 myndir:

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...