Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Leitin að sumrinu er stórskemmtileg sýning sem sýnd var árið 2019 og fjallar um hann Jón sem þekkir ekki annað en eilíft sumar. Dag einn fara skrýtnar persónur að ryðjast inn í líf hans, hver á fætur annarri, og skipta um árstíðir!
Leikendur stóðu sig allir með prýði og léku af hjartans lyst enda áhorfendur mjög ánægðir.
Leitin að sumrinu er stórskemmtileg sýning sem sýnd var árið 2019 og fjallar um hann Jón sem þekkir ekki annað en eilíft sumar. Dag einn fara skrýtnar persónur að ryðjast inn í líf hans, hver á fætur annarri, og skipta um árstíðir! Leikendur stóðu sig allir með prýði og léku af hjartans lyst enda áhorfendur mjög ánægðir.
Mynd / Halli Valli
Fréttir 23. nóvember 2021

Leikfélag Sólheima er alltaf í stuði!

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Á því herrans ári 1931 var leikfélag Sólheima sett á fót og á því 90 ára afmæli í ár. Fyrsta verkið sem tekið var til sýninga var leikritið „Ásta“ eftir Margréti Jónsdóttur. Leiksýningin hlaut góðar viðtökur og mikið lof og veitti leikendum byr undir báða vængi. Þó nokkuð mörgum árum síðar, árið 1984, gerðist Leikfélag Sólheima aðili að BÍL, en sama ár var farið í leikferð um Norðurlöndin með leikritið „Lífmyndir“. Tveimur árum síðar, fyrsta vetrardag árið 1986, varð svo mikil breyting á aðstöðu leikfélagsins. Þá fór fram formleg vígsla íþróttaleikhúss Sólheima og frumsýndur ballettinn Rómeó og Júlía af því tilefni. Íþróttaleikhúsið var reist fyrir fé er safnaðist vegna Íslandsgöngu Reynis Péturs Ingvarssonar árið 1985 og er veglegur minnisvarði bæði um elju Reynis Péturs, svo og hlýhug íslensku þjóðarinnar í garð starfsemi Sólheima.

Í gegnum árin hefur leikfélagið eflst í hvívetna enda hafa þar allir sitt hlutverk og hver einstaklingur mikilvægur – líkt og lögð er áhersla á í samfélagi Sólheima. Samfélagið, sem samanstendur af íslendingum jafnt sem fólki erlendis frá, er þekkt fyrir öflugan leiklistaráhuga og samhug þar sem nær allir taka þátt í sýningum á einhvern hátt. Leikgleði og virkni er ávallt í fyrirrúmi og hlutverk hvers og eins í samræmi við styrkleika viðkomandi.

Má segja að listrænt starf, byggt á kenningum Rudolf Steiner (1861-1925), sé sá grunnur er samfélag Sólheima byggist á. Stofnandi þess, Sesselja Hreindís Sigmundsdóttir (1902-1974), var við sex ára nám, bæði í Danmörku, Sviss og Þýskalandi í uppeldisfræði, barnahjúkrun og rekstri barnaheimila svo eitthvað sé nefnt. Að auki var Sesselja fyrsti Íslendingurinn sem lærði umönnun þroskaheftra. Á námsárunum í Þýskalandi kynntist hún kenningum dr. Steiner, eða mannspeki, þar sem listrænt gildi og framsetning er höfð í fyrirrúmi. Má glögglega sjá þá stefnu í starfi Sesselju sem var brautryðjandi í uppeldismálum og umönnun þroskaheftra á Íslandi.

Leikfélag Sólheima er því fyrsta og elsta leikfélag fatlaðra á Íslandi og þó víðar væri leitað. Fyrstu áratugina, eða nánast í hálfa öld, einkenndist starfsemi þess af upp­færslum á goð­sögum og helgileikjum. Þessar sýningar voru árstíðabundnar og fastur liður í starfsáætlun heimilisins. Yfir jólahátíðina voru sýndir þrír helgi­leikir. Á sumardaginn fyrsta voru svo skrautsýningar eða goðsögur en leikritin voru flutt í leikgerð dr. Steiner, sem hann byggði á germanskri leikhefð.

Á síðustu áratugum hefur þó verkefnaval leikfélagsins tekið breytingum og líkt og hjá hefðbundnum áhugaleikfélögum setur Leikfélag Sólheima upp árlegar leiksýningar og frumsýnir alla jafna á sumardaginn fyrsta. Sýningardagurinn hefur skipað stóran sess í hugum margra og ófáir unnendur Sólheima því gert það að hefð að mæta ár hvert, enda fyrsta sýningin alltaf mjög vinsæl.

Nú í ár var sýningin Árar, álfar og tröll sett á fjalirnar. Verkið, sem byggt er á sögu Sesselju – í ævintýralegum búningi – sló svo rækilega í gegn að uppselt var á allar sýningar. Rúsínan í pylsuendanum var síðan hátíðarsýning í Þjóðleikhúsinu, þann 24. maí, afmælisdag Sólheima og má með sanni segja að sú sýning hafi snert marga, glatt og kætt. Eitt er víst að töfrandi gleði og samheldni leikenda er bráðsmitandi og hrífur áhorfendur með sér. Svo er bara að hafa vaðið fyrir neðan sig þegar auglýst verður leiksýning næsta árs, enda miðarnir fljótir að fara!

Skylt efni: Sólheimar | Áhugaleikhús