Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Úr lausagöngufjósinu á Hóli i Svarfaðardal.
Úr lausagöngufjósinu á Hóli i Svarfaðardal.
Mynd / HKr.
Á faglegum nótum 30. janúar 2018

Lausagöngufjós algengasta fjósgerðin á Íslandi

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Árin 1994–1995 var gert átak í því að skrá niður fjósgerðir hér á landi og úr varð töluvert stórt gagnasafn sem var gert upp árið 1998. Eftir það varð hlé á samantekt um fjósgerðir en árið 2003 lagðist Landssamband kúabænda í þá vinnu að endurgera gagnagrunninn og var hann víkkaður út og náði einnig yfir mjaltatækni fjósanna. 
 
Frá þeim tíma hefur LK staðið fyrir útgáfu, annað hvert ár, á skýrslu sem byggir á uppgjöri úr þessum gagnagrunni og nú er komin út áttunda skýrsla þessa efnis. Líkt og fyrri skýrslur þá byggir úrvinnsla skýrslunnar á gögnum úr framangreindum gagnagrunni ásamt skýrsluhaldsupplýsingum auk þess sem upplýsingar um fjósgerðir og mjaltatækni byggja á persónulegri þekkingu ótal margra sem leitað var til.
 
573 fjós í framleiðslu
 
Í skýrslunni kemur fram að í árslok 2017 voru 573 fjós í mjólkurframleiðslu á Íslandi en haustið 2007 voru þau 720 og hefur fjósum því fækkað um 147 á síðasta áratug eða um 20,4%. Ef litið er til þróunarinnar síðustu tvö ár þá hefur fjósum hér á landi fækkað um 45 eða 7,3%. Þessi þróun hér á landi er afar áþekk þeirri þróun sem á sér stað um alla Evrópu þar sem fjósum hefur verið að fækka um 4-8% á ári en þrátt fyrir það hefur mjólkurframleiðslan ekki dregist saman þar sem þau bú sem eftir standa bæta við sig í framleiðslu eða fjölda kúa.
 
 
Básafjós ekki lengur ráðandi
 
Undanfarna áratugi hafa orðið gríðarlega miklar breytingar í húsvist íslenskra mjólkurkúa frá því að flestar kýr hafi verið hýstar í básafjósum yfir í að vera hýstar í lausagöngufjósum og hefur meirihluti kúnna nú í nokkur ár verið í lausagöngufjósum. Básafjósin voru þó ráðandi í fjölda, enda oftast töluvert minni en lausagöngufjósin. Þeim hefur þó fækkað hratt undanfarin ár og eru nú 275 talsins eða 48% af heildarfjölda fjósa á Íslandi. Er því svo komið nú að þau eru ekki lengur ráðandi hér á landi og hafa lausagöngufjósin nú tekið við sem algengasta fjósgerðin á Íslandi. Þessi breyting hefur gengið afar hratt fyrir sig eins og sjá má á mynd 1 og má nefna sem dæmi að fyrir áratug var hlutfall þessara fjósa 70,3% og sé farið rúmlega tvo áratugi aftur í tímann var hlutfall þessarar fjósgerðar 96,4% hér á landi. Básafjós með rörmjaltakerfi eru þó enn algengasta fjósgerðin eða 220, sé litið undirflokkunar á grunni mjaltatækni og næst algengasta gerðin er lausagöngufjós með mjaltaþjóni eða 180 talsins. Líklegt má telja að við gerð næstu skýrslu, verði hún gerð eftir tvö ár líkt og verið hefur, þá muni síðar fjósgerðin hafa náð yfirhöndinni.
 
 
Enn vélfötukerfi í notkun
 
Í skýrslunni er fjósgerðum skipt upp í tvo yfirflokka og samtals fimm undirflokka þar sem yfirflokkarnir eru annars vegar básafjós og hins vegar lausagöngufjós. Undirflokkar þessara tveggja fjósgerða taka svo mið af þeirri mjaltatækni sem er í notkun í fjósunum. Niðurstöðurnar má sjá í töflu 1, en þar kemur fram að frá árinu 2007 hefur básafjósum fækkað verulega eða úr 504 í 275 eða um 45%. Á sama tíma tíma hefur lausagöngufjósum fjölgað úr 214 í 298 sem er rúmlega 39% aukning á liðnum áratug.
 
Veigamesta breytingin á þessum 10 árum er auðvitað mikill framgangur fjósa með mjaltaþjóna. Á þeim tíma hefur fjósum á Íslandi fækkað um tæplega 150 fjós en á sama tíma hefur mjaltaþjónafjósum fjölgað um rúmlega 100.
 
Meðalnyt mjaltaþjónafjósa langhæst
 
Þegar skoðað er samhengi afurða, samkvæmt skýrsluhaldi RML, og fjósgerða kemur ekki á óvart að fjós með mjaltaþjónum eru lang afurðahæst á landinu og er það í samræmi við fyrri uppgjör undanfarin ár. Tekið skal fram að við þessa útreikninga er alltaf notað uppgjör allra búa í árslok uppgjörsársins, óháð því hvor þau hafi skipt um mjaltatækni á árinu eða ekki. Þá koma sum bú ekki til uppgjörs vegna vanskila á skýrslum eða annarra óvssuþátta. Þessi reikniaðferð ber auðvitað með sér ákveðna skekkju skal tekið með fyrirvara enda má t.d. má ætla að meðalafurðir ættu að vera hærri á búum sem skiptu úr hefðbundinni mjaltatækni á árinu og yfir í mjaltaþjónatækni vegna tíðari mjalta. Þrátt fyrir þessa annmarka er, eins og áður segir, heildarmeðaltal mjaltaþjónabúa landsins hæst en vegið meðaltal þeirra var 6.537 kg mjólkur að jafnaði á hverja árskú á nýliðnu ári. Næst afurðahæstu búin voru svo hefðbundin básafjós með mjaltabása með 6.066 kg og þar á eftir komu svo lausagöngufjós með mjaltabása með 6.045 kg.
 
Hægt er að gera tilraun til þess að meta áhrif tíðari mjalta með notkun mjaltaþjóna á meðalafurðirnar með því að skoða muninn á vegnum meðalafurðum fjósa með mjaltaþjóna annarsvegar og annarra lausagöngufjósa hinsvegar. Þegar þetta er skoðað kemur í ljós að munurinn er ekki nema 7,5% sem er all nokkuð undir væntingum til aukinnar tíðni mjalta innan sólarhringsins. Hluta af skýringunni má þó rekja til áðurnefndrar skýringar á útreikningum, en þar sem það á einungis við um þau bú sem skiptu um mjaltatækni á nýliðnu ári skýrir það ekki nema lítinn hluta. Benda niðurstöðurnar því til þess að bæta megi verulega afurðasemi sumra kúabú sem nota mjaltaþjóna.
 
 
Mjaltaþjónafjós einnig stærst
 
Ekki þarf að koma á óvart að lausagöngufjós með mjaltaþjónum eru stærst að meðaltali en árskúafjöldi þeirra er að meðaltali 67,2 og þessi bú eru að meðaltali með 1,23 mjaltaþjóna. Þrátt fyrir að þessi bú beri af í fjölda kúa, þá er bústærðin enn vafalítið nokkuð undir þeim mögulega árskúafjölda sem þessi fjós geta borið þar sem hönnun þeirra byggir oftast á því að hver mjaltaþjónn geti þjónað um 60 kúm en hér eru að jafnaði 54,5 árskýr á hvern mjaltaþjón. Ein skýringin á þessu liggur vafalítið í því að bú sem settu upp mjaltaþjón á árinu eru enn að byggja upp bústofn sinn. Næst stærsta fjósgerðin er svo lausagöngufjós án mjaltaþjóns og þar á eftir þá básafjós með mjaltabásum og hafa þessi bú einnig stækkað á undanförnum árum. Hin hefðbundnu básafjós eru vel innan við helmingi minni en mjaltaþjónafjósin eins og sjá má á töflu 2.
 
69 % kúa í lausagöngu
 
Eins og áður segir hafa orðið miklar breytingar á aðbúnaði íslenskra mjólkurkúa á undanförnum áratug og árið 2009 náðist sá merki áfangi að helmingur kúnna hér á landi var þá í lausagöngufjósum. Þetta hlutfall er nú komið í 69 % og eykst jafnt og þétt á hverju ári.
 
Hlutfall aftakara aukist
 
Árið 2009 voru í fyrsta skipti teknar saman upplýsingar um vinnuléttandi tækni við mjaltir, þ.e. upplýsingar um brautakerfi í básafjósum, aftakarakerfi í básafjósum og tíðni aftakarakerfa í mjaltabásum. Var þetta gert til þess að varpa betur ljósi á þær vinnuaðstæður sem kúabændur landsins búa við, enda er einn mesti vinnusparnaður við mjaltir talinn felast í aftakaratækninni. Á þeim átta árum sem liðin eru hefur orðið mikil hlutfallsleg aukning á notkun tækninnar við mjaltir, bæði vegna nýfjárfestinga í tækninni en einnig vegna úreldingar fjósa sem ekki höfðu þessa tækni. Þannig mátti finna aftakara í 41,7% fjósa árið 2009 en nú í 52,4% allra fjósa þar sem hefðbundin mjaltatækni er notuð.
 
Hægt er að lesa hina ítarlegu skýrslu í heild sinni á vef Lands­sambands kúabænda, www.naut.is.
Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...