Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Búðarhálsvirkjun.
Búðarhálsvirkjun.
Mynd / Landsvirkjun
Fréttir 19. maí 2017

Landsvirkjun skilar 8 milljarða króna arði

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Staða Landsvirkjunar er góð og í áhættumati vegna fjárfestinga er það í BBB flokki, eða í næsta flokki á eftir stórfyrirtækjum eins og Dong Energy, Vattenfall og Fortum. Er það nú metið þrem flokkum hærra en það var árið 2013. 
 
Þetta kom m.a. fram á ársfundi Landsvirkjunar 2017 sem fór fram á Hilton Reykjavík Nordica miðvikudaginn 26. apríl síðastliðinn. Yfirskrift fundarins var: „Þarf framtíðin orku?“ 
 
Þar kom fram í ræðum Harðar Arnarsonar forstjóra og Rögnu Árnadóttur aðstoðarforstjóra, að afkoman af grunnrekstri 2016 þyki ásættanleg þrátt fyrir nokkurn samdrátt í raforkusölu milli ára sem stafar af rekstrarvanda viðskiptavina. Nam salan 2016 um 13,6 terawattstundum. Þá minnkaði hagnaður einnig milli ára og var hann 118 milljónir dollara, en þess má geta að hann var 90 milljónir dollara árið 2010. 
 
Fé frá rekstri nam um 200 milljörðum króna. Þá fóru um 90 milljarðar í fjárfestingar og um 100 milljarðar í lækkun skulda. Þá skilar Landsvirkjun eigendum sínum, eða íslenska ríkinu,  8 milljörðum króna í arðgreiðslur. 
 
Samkvæmt áætlun fyrir árin 2020 til 2025 er gert ráð fyrir verulegri aukningu fjár frá rekstri og að arðgreiðslur verði orðnar um 110 milljarðar króna. 
 
Arðgreiðslur fari í sérstakan sjóð
 
Fjármála- og efnahagsráðherrann Benedikt Jóhannesson sagði í sínu ávarpi á fundinum að það væri vissulega freisting að láta auknar arðgreiðslur renna í ríkissjóð til að nota í hefðbundnum rekstri.
„Ég er aftur á móti þeirrar skoðunar að heppilegra sé að búið verði svo um hnúta að þessar sérstöku greiðslur fari í sjóð til sérstakra nota. 
 
Þessi not gætu verið margvísleg: Sveiflujöfnun í hagkerfinu, trygging gegn alvarlegri náttúruvá, kynslóðajöfnun eða stuðningur við nýsköpun og þróun. Allt eru þetta dæmi um not sem hægt er að hugsa sér, sum geta gengið saman en með önnur markmið geta þau stangast á.“
 
Ráðherra sagði að miðað við sviðsmyndir sem upp hafi verið dregnar gæti sjóðurinn stækkað býsna hratt þannig að í hann bættust á hverju árið arðgreiðslur sem gætu numið milli 0,5 og 0,8% af vergri landsframleiðslu (VLF), eða milli 10 og 20 milljarðar króna á ári. 
 
„Með þessu móti gæti sjóðurinn á tíu árum hafa vaxið í nærri 7% af VLF og á 20 árum upp í um 20% af VLF, ef miðað er við hóflega ávöxtun og 15 milljarða framlag á ári,“ sagði ráðherrann.
 
Ákvörðun um sæstreng til Bretlands ekki á dagskrá
 
Benedikt Jóhannesson minntist einnig á hugmyndir um lagningu sæstrengs frá Íslandi til Bretlands sem m.a. hefur verið eitt af stefnumálum Landsvirkjunar. Um það sagði ráðherrann:
 
„Rætt hefur verið um rafstreng til Englands sem flytti orku frá Íslandi til Bretlands. Ljóst er að sú framkvæmd yrði afar dýr og ef af henni yrði er ekki vænlegt eða æskilegt að íslensk stjórnvöld komi að henni með beinum hætti. Ljóst er að áður en til slíks kæmi þarf að ljúka umræðu um það hér á landi hvort við teljum æskilegt að flytja orku út með þeim hætti. Auðvitað flytjum við út orku nú þegar í álstöngum og fleiri afurðum, þannig að hér yrði ekki um grundvallarbreytingu að ræða þó að formið væri með öðrum hætti. Á Íslandi hafa stjórnmálamenn oft einblínt á að skapa störf en ekki horft nægilega á arðsemi þeirrar starfsemi sem hingað hefur flutt, til dæmis fyrir Landsvirkjun. Umræða um þetta mál er alls ekki orðin nægilega þroskuð til þess að hægt sé að ganga frá samningum um slíkan streng.“
 
Íslendingar á tímamótum
 
Í ávarpi Jónasar Þórs Guðmunds­sonar, stjórnarformanns Lands­virkjunar,  kom fram að  Íslendingar stæðu að mörgu leyti á tímamótum. 
 
„Eftir mikla uppbyggingu raforkukerfis, sem hefur staðið undir fjölbreyttu athafnalífi og átt þátt í því að tryggja okkur lífskjör og hagsæld sem jafnast á við það besta sem gerist í heiminum, heyrast þær raddir að við ættum að láta staðar numið.
 
Væri okkur stætt á því? Þurfum við yfirhöfuð meiri orku? Þetta er athyglisverð spurning og það er ástæðulaust að gera lítið úr henni, en til að svara verðum við að átta okkur á því hver fórnarkostnaðurinn yrði, ef slík ákvörðun væri tekin,“ spurði Jónas. 
 
„Margar náttúruperlur okkar Íslendinga eru svo stórbrotnar og mikilfenglegar að þær verður að vernda fyrir komandi kynslóðir. Ábyrgð okkar í því efni er mikil. Eigi að síður er engum vafa undirorpið, í mínum huga, að unnt er að nýta auðlindir okkar í meiri mæli en nú er gert, án þess að ganga á verðmætar náttúruperlur. Það gildir bæði um ný svæði og svæði sem þegar hafa verið tekin undir orkuvinnslu. Að því er síðarnefndu svæðin varðar hefur hjá Landsvirkjun verið lögð mikil áhersla á að nýta þau betur. Þar eru enn umtalsverð tækifæri.
 
Orkuvinnsla getur farið fram í sátt við þá sem njóta náttúrunnar. Í því sambandi má nefna að nýleg rannsókn Háskóla Íslands leiddi í ljós að 92% ferðamanna við Blönduvirkjun töldu ósnortin víðerni hluta af aðdráttarafli svæðisins þótt þar mætti sjá ýmis virkjunarmannvirki. Þá töldu 89% ferðamanna svæðið í kringum Blönduvirkjun náttúrulegt, en um 7% manngert. Þótt af þessum niðurstöðum Háskóla Íslands megi ekki draga of víðtækar ályktanir er ljóst að orkuvinnsla, náttúruvernd og ferðamennska geta farið saman ef vandað er til verka,“ sagði stjórnarformaðurinn. 
Svínaflensa í Rússlandi
Fréttir 27. september 2022

Svínaflensa í Rússlandi

Afríska svínaflensan greindist á stóru rússnesku svínabúi í lok sumars. ...

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið
Fréttir 30. ágúst 2022

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið

Uppfærslur á verðskrám sláturleyfishafa, vegna sauðfjárslátrunar 2022, halda áfr...

Fjár- og stóðréttir 2022
Fréttir 25. ágúst 2022

Fjár- og stóðréttir 2022

Fjár- og stóðréttir verða nú með hefðbundnum brag, en tvö síðustu haust hafa ver...

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...