Landsmót sett
Setningarathöfn Landsmóts hestamanna fór fram í gærkvöldi á Gaddstaðaflötum að viðstöddum um 5.000 gestum. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra setti mótið. Veður hefur verið ansi rysjótt á mótinu en við setninguna í gær var það með skaplegasta móti. Um 300 fulltrúar hestamannafélaganna í landinu tóku þátt í hópreið við setninguna.
Þrátt fyrir leiðindaveður hefur góður árangur náðst á mótinu. Bjarni Bjarnason og Hera frá Þóroddsstöðum settu þannig heimsmet í 250 metra skeiði á tímanum 21,76 sekúndum. Í 150 metra skeiðinu slógu Teitur Árnason og Tumi frá Borgarhóli Íslandsmetið en vegalengdina fóru þeir á 13,77 sekúndum. Þá fékk Spuni frá Vesturkoti fádæma einkunn í A-flokki gæðinga og er langefstur inn í úrslitin með einkunina 9,08. Þá fékk Hamingja frá Hellubæ heimsmetsdóm í flokki fjögurra vetra hryssa á mótinu, 8,54 í aðaleinkunn.