Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Landbúnaður og rafbílar - náskyldir bræður
Lesendarýni 8. júní 2018

Landbúnaður og rafbílar - náskyldir bræður

Höfundur: Sigurður Ingi Friðleifsson
Ritstjóri Bændablaðsins hefur skrifað margar og afar upplýsandi greinar undanfarin ár. Þar eru málin skoðuð út frá ýmsum vinklum, oft með ítarlegri hætti en í öðrum fjölmiðlum, sem er vel.  
 
Í greinum sínum um rafbíla, dylst þó engum, að umfjöllunin hefur oftar en ekki verið neikvæð í garð rafbíla, þó vissulega séu kostir þeirra líka dregnir fram. Efasemdir ritstjórans um rafbílavæðingu eru sérstaklega áhugaverðar í ljósi þess að blaðið ber jú hagsmuni íslensks landbúnaðar fyrir brjósti.  
 
Sama varan?
 
Að mínu mati er nefnilega í grunninn sáralítill munur á rafbílum og landbúnaðarvörum. Til hvers erum við annars að framleiða íslensk matvæli hér á norðurhjara?  Jú, vegna þess að:
- Íslenskur landbúnaður stuðlar að matvælaöryggi (rafbílar stuðla að orkuöryggi).
- Íslenskur landbúnaður er innlend framleiðsla (raforka er innlend framleiðsla).
- Íslenskur landbúnaður sparar gjaldeyri (rafbílar spara gjaldeyri).
- Íslenskur landbúnaður þýðir minni eiturefnanotkun (rafbílar þýða minni eiturefnaútblástur).
- Íslenskur landbúnaður hefur minna kolefnisspor (rafbílar hafa minna kolefnisspor).
- Að lokum má bæta við mínu persónulega mati en ég tel að íslenskur landbúnaður sé betri (betri gæði og betra bragð) og að rafbílar séu betri (betri hröðun, betri orkunýtni og hljóðlátari).
 
Eðlilegur opinber stuðningur
 
Að mínu mati eru því nákvæmlega sömu rök fyrir innleiðingu rafbíla og áframhaldandi framleiðslu íslenskra landbúnaðarvara. Ritstjóri Bændablaðs er því, að mínu mati, kominn á afar hálan ís þegar hann gagnrýnir opinberar ívilnanir sem rafbílar njóta. Landbúnaður er jú býsna háður opinberum ívilnunum sem er reyndar fullkomlega eðlilegt að mínu mati, alveg eins og ívilnanir á rafbíla. Í síðustu grein ritstjórans segir:
 
 „kaup á slíkum farartækjum hér á landi stafa þó ekki síður af þeirri staðreynd að beitt er niðurfellingu á gjöldum. Það felur í sér verulega mismunun í gegnum niðurfellingu á innflutningsgjöldum og rekstrarkostnaði eins og þungaskatti, miðað við hefðbundin ökutæki með sprengihreyflum ... “ 
 
Má ekki líkja innflutningsgjöldum á sprengihreyfilsbíla við tolla á innfluttu kjöti? Er ekki tilgangurinn sá sami, þ.e. að nota mismunun til að styðja við innlenda framleiðslu, stuðla að orku/matvælaöryggi og ná fram umhverfisávinningi?  
 
Flestar spár benda til þess að framleiðslukostnaður rafbíla snarlækki í verði næstu 10–15 árin með vaxandi fjöldaframleiðslu. Það gerist þó aðeins ef ríki heims styðja við rafbílakaup í millitíðinni. Ef enginn kaupir dýrari bíla, þá fá framleiðendur einfaldlega ekki svigrúmið til að lækka framleiðslukostnaðinn. Rafbílar munu að öllum líkindum ekki þurfa opinberan stuðning til lengri tíma en ekki væri verra að gera langtímaáætlun um stuðning til 10 ára líkt og búvörusamningana, en þar er áætlað að heildarframlag úr ríkissjóði nemi um 132 milljörðum króna á samningstímanum. Þessi opinberi stuðningur gengur út á að bjóða neytendum innlenda og umhverfisvænni vöru á viðráðanlegu verði. Er þá eitthvað óeðlilegt við að nýta opinbert fé til að styðja við rafbíla til að bjóða neytendum innlenda og umhverfisvænni vöru á viðráðanlegu verði?
 
Blessuð veggjöldin
 
Ritstjórinn hefur líka miklar áhyggjur af veggjöldum og segir:
 
„Hlutfallsleg fjölgun rafbíla skapar óleystan vanda í ríkisrekstrinum þegar fram í sækir. Það er vegna þess að tekjur ríkisins af aðflutningsgjöldum og þungaskatti af ökutækjum minnka til að standa straum af kostnaði vegna slits á vegum.“  
 
Rafbílar eru enn sem komið er undanskildir veggjöldum til að hvetja til útbreiðslu þeirra. Þegar fram í sækir þola þeir hins vegar alveg sambærileg veggjöld og bensínbílar.
 
Tökum dæmi: Eldsneytiskostnaður vegna 100 km aksturs á VW- Golf bensínbíl kostar um 1.230 kr., þar af eru veggjöld um 430 kr. Orkukostnaður vegna 100 km aksturs  á VW- Golf rafbíl kostar um 300 kr. Ef sömu veggjöld væru sett á rafbílinn myndi kostnaðurinn hækka í 730 kr.  þ.e.a.s. væri samt enn þá 500 krónum ódýrari þrátt fyrir að borga jafnmikið til vegaviðhalds.
 
Útblástur og rafbílar
 
Ritstjórinn telur líka nauðsynlegt að sá efasemdafræjum um loftslagsvænleika rafbíla. Hann segir:
 
 „Á Íslandi er raforka að mestu framleidd á umhverfisvænan hátt, en svo er ekki víða um lönd þar sem rafmagn er gjarnan framleitt með kolum, gasi, olíu eða kjarnorku. Því hafa sumir fræðimenn sett varnagla við fullyrðingum um að heildaráhrif af notkun rafbíla skili minni loftmengun á jörðinni.“ 
 
Í nýlegri rannsókn sem gerð var af Virje-háskólanum í Brussel, kemur fram að þegar borinn var lífsferill rafbíls og dísilbíls frá vöggu til grafar þá kom rafbíllinn miklu betur út. Meira að segja í kolefnisfrekasta raforkukerfi Evrópu þ.e.a.s. Póllandi, þá losaði rafbíllinn samt 25% minna á líftíma sínum en dísilbílinn. Sem sagt algerlega skýrt að þrátt fyrir kolefnisfrekari rafhlöðuframleiðslu þá kemur rafbíllinn alltaf betur út, þótt ávinningurinn sé aðeins misjafn eftir raforkukerfum. Reyndar finnst mér sjálfum jafnvitlaust að efast um rafbíla á Íslandi af því að kol eru notuð í Bandaríkjunum eins og að efast um íslenskt nautakjöt af því að hormónar eru notaðir í Bandaríkjunum.
 
Landbúnaður þarf rafbílavæðingu  
 
Það væru álitshnekkir að mínu mati að standast ekki skuldbindingar Íslands gagnvart Parísarsamkomulaginu. Að klúðra slíku umhverfisverkefni hjálpar varla umhverfisvænleikaímynd íslensks landbúnaðar. Landbúnaður (600 þúsund tonn CO2) og vegasamgöngur (milljón tonn CO2) eru einmitt feitustu bitarnir í skuldbindingum Íslands.  Minnkun útblásturs frá landbúnaði er vægast sagt erfitt verkefni. Hægt er að fara í gasgerð og fleira en til að ná 30–40% minnkun þá þyrfti hreinlega einhverja framleiðsluminnkun. Líklega vilja bændur nú frekar svigrúm til framleiðsluaukningar. Því má segja að til þess að landbúnaður geti haldið áfram að vaxa og dafna þurfi hann að treysta á enn meiri útblástursminnkun frá öðrum geirum eins og vegasamgöngum. Það er því tölfræðilega óráðlegt að tala niður rafbíla. Íbúum landsins mun nefnilega fjölga og bílum líka og ef flotinn verður að mestu samsettur úr bensín- og dísilbílum árið 2030, þá verðum við langt frá því að standast skuldbindingar Parísarsamkomulagsins. Litlu breytir þó svo að þessir bílar verði mun orkunýtnari en þeir eru í dag. Án rafbílavæðingar gengur dæmið hreinlega ekki upp. Hvað er þá til ráða? Kaupa fokdýra erlenda kolefniskvóta eða kannski leggja niður landbúnað? Ekki ef ég fengi að ráða.
 
Sigurður Ingi Friðleifsson
framkvæmdastjóri Orkuseturs
á Akureyri
 
Enn versnar rekstrarafkoma skuldsettra kúabúa
Fréttir 31. janúar 2023

Enn versnar rekstrarafkoma skuldsettra kúabúa

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) hefur lokið við greiningu á rekstri 154 kú...

Skordýr sem fóður og fæða
Fréttir 31. janúar 2023

Skordýr sem fóður og fæða

Við Landbúnaðarháskóla Íslands er unnið verkefni sem snýr að því að koma upp sko...

Arabískt fyrirtæki fjárfestir í Atmonia
Fréttir 30. janúar 2023

Arabískt fyrirtæki fjárfestir í Atmonia

Efnafyrirtækið Sabic Agri-Nutrients hefur keypt einkarétt á notkun tækni Atmonia...

35 kindur drápust í bruna
Fréttir 30. janúar 2023

35 kindur drápust í bruna

„Aðkoman var óhugnanleg og þetta er mikið áfall,“ segir Guðjón Björnsson, bóndi ...

Innflutningur erfðaefnis skilar góðum árangri
Fréttir 27. janúar 2023

Innflutningur erfðaefnis skilar góðum árangri

Samkvæmt niðurstöðum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) úr skýrsluhaldi na...

Verðskrá Skeljungs og Fóðurblöndunnar
Fréttir 27. janúar 2023

Verðskrá Skeljungs og Fóðurblöndunnar

Skeljungur og Fóðurblandan hafa birt verðskrá fyrir þær tegundir af áburði sem f...

Ekkert veiðibann á döfinni
Fréttir 26. janúar 2023

Ekkert veiðibann á döfinni

Veiðibann á grágæs hefur ekki tekið gildi á Íslandi og ekki stendur til að banna...

Stakkhamar 2 skýst upp á toppinn yfir afurðahæstu kúabúin miðað við meðalnyt
Fréttir 26. janúar 2023

Stakkhamar 2 skýst upp á toppinn yfir afurðahæstu kúabúin miðað við meðalnyt

Stakkhamar 2 í Eyja- og Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi hefur skotist á toppinn ...