Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Einar Freyr Elínarson.
Einar Freyr Elínarson.
Lesendarýni 16. september 2019

Landbúnaðarráðherra ber eld að eigin húsi

Höfundur: Einar Freyr Elínarson, bóndi í Sólheimahjáleigu
Eigi landbúnaðurinn í landinu að lifa af þá þarf að heyja stríð. Að óbreyttu mun landbúnaðinum bíða nákvæmlega sömu örlög og annarra framleiðslugreina. Nýverið bárust fregnir um að loka ætti síðustu prjónastofunni á Íslandi sem hefur áratugum saman verið starfrækt í Vík í Mýrdal. 
 
Ástæðan er einföld. Það er miklu ódýrara að framleiða vörur í Kína heldur en á Íslandi. Í stað þess að aðlaga framleiðslu okkar að breyttum neysluvenjum þá nýtum við okkur í síauknum mæli ömurleg kjör verkafólks og bænda erlendis og látum þau framleiða fyrir okkur. Þetta er 21. aldar nýlendustefna.
Unnið hefur verið eftir þessari útflutningsstefnu á íslenskum störfum um langa hríð en undir stjórn Kristjáns Þórs Júlíussonar á nú virkilega að spýta í lófana. 
 
Það lá við stórslysi um daginn þegar Kristján Þór ætlaði að fella niður tolla af nýsjálenskum lambahryggjum og flytja átti inn ótakmarkað magn. Atburðarásin sem þá fór í gang er ótrúleg og varð til þess að koma í veg fyrir þessa vitleysu. Það var víst Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, sem náði sambandi við Lilju Alfreðsdóttur þennan dag þegar hann fékk veður af því hvað stæði til. Um þetta mátti lesa í viðtali við ráðherrann fyrrverandi hér í Bændablaðinu og Lilju Alfreðsdóttur í Morgunblaðinu daginn eftir. Þetta gerist í lok júlímánaðar og sagt gert vegna skortstöðu sem sá fjölmiðlaglaði Ólafur Stephensen hafði kjaftað ofan í kokið á ráðherranum og Andrés Magnússon inn um hægra eyrað. Og þeir félagar höfðu séð til þess út á fyrirheit ráðherrans að hryggirnir biðu á hafnarbakkanum hingað komnir um átján þúsund kílómetra leið.
 
Menntamálaráðherrann setti einfaldlega löppina fyrir land­búnaðar­ráðherrann með því að krefjast ríkisstjórnarfundar um málið samdægurs. Forsætisráðherra varð við kröfu hennar og handjárnaði landbúnaðarráðherrann svo hann mátti hætta við ákvörðunina og afboða blaðamannafund síðdegis þann 26. júlí sl. Þar ætlaði ráðherrann að slá sér upp á kostnað bænda og neytenda sem vilja fyrst og fremst íslenskt lambakjöt. Nú vita allir að hann var neyddur til að panta í annað sinn erindi frá inn- og útflutningsnefnd sinni sem nú sagði að nóg væri til af lambahryggjum frá því í fyrrahaust og að auki feit lömb í högum. Fella átti niður tolla af 2ja og 3ja ára gömlum hryggjum sem þarlendir menn hafa sjálfsagt talið sig vera að selja í hunda- og kattarmat.
 
Sagt er að ráðherranum hafi verið falið að losa sjávarútveginn við fjósalyktina úr ráðuneytinu þegar hann tók við lyklunum þar. Það var augljóslega fljótgert. Mál landbúnaðarins virðast vera geymd í harðlæstri skúffu í kjallaranum í því sem á að hluta til að heita landbúnaðarráðuneyti. Yfir þessu þagar forysta bænda. Við vitum vel að sláturtíð er hafin en fyrr má nú rota en dauðrota þegar okkur öllum má vera það ljóst að sláturtíð er í gangi gegn landbúnaðinum í landinu. 
 
Ef við stöndum ekki upp og heyjum okkar stríð þá verðum við hægt og bítandi hagrædd í drep. Neytendur munu fylkja sér um okkar málstað í því stríði enda rekum við landbúnað í fremstu röð. Forysta bænda verður að leiða þá baráttu og þora að taka djúpt í árinni þegar þörf er á. Landbúnaðarráðherrann hefur leynt og ljóst unnið á móti bændum og fórnað þeirra hagsmunum við hvert tækifæri og það á ekki að koma honum upp með að skreyta sig með frösum um öflugan landbúnað þegar jafn augljóst er að engin alvara er að baki þeim orðum. Köllum hlutina réttum nöfnum og hættum að kóa með. Lélegur ráðherra er lélegur ráðherra og ekki nokkur einasta ástæða til þess að þjónkast honum.
 
Einar Freyr Elínarson,
bóndi í Sólheimahjáleigu
Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...