Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Lán hagstæð og jarðir verðlagðar í samræmi við framleiðslugetu
Líf&Starf 18. júlí 2014

Lán hagstæð og jarðir verðlagðar í samræmi við framleiðslugetu

Höfundur: Vilmundur Hansen

Reglur í Noregi gera ráð fyrir að land sem hægt er að nýta undir matvælaframleiðslu sé nýtt sem slíkt og jarðir eru verðlagðar eftir framleiðslugetu, segir Ingólfur Jakobsson, sem hóf búskap á Andøy í Nordland fyrir sjö árum ásamt sambýliskonu sinni Margréti Kjartansdóttur.

Parið bjó áður fyrir utan Stykkishólm og kynnti sér verð á jörðum a Íslandi en áttuðu sig fljótlega á að kaup á jörð væri ekki á þeirra færi. Í framhaldi af því fluttu þau til Danmerkur í von um að finna eitthvað þar sem væri nógu stórt til að geta haldið nokkra hesta og með nægu landi til að geta heyjað í þá en líkt og á Íslandi var verð á landi allt of hátt. Fyrir sjö árum var stefnan því tekin á Noreg þar sem þau búa í dag.

Ólíkar viðtökur í Noregi

„Viðtökurnar sem við fengu í Noregi voru mjög ólíkar þeim sem við höfðum átt að venjast og komu okkur skemmtilega á óvart. Í Noregi var eins og allir vildu hjálpa okkur til að koma undir okkur fótunum og hægt að fá jarðir á viðunandi verði og lán með vöxtum sem hægt er að ráða við. Stefnan þar er því að hjálpa ungu fólki sem vill hefja búskap að gera það.

Fyrst eftir að við komum til Noregs bjuggum við skammt frá Kristjánssundi en svo lögðumst við yfir að skoða jarðir í Noregi sem við fundum á vefnum gårdsbruk.no, og voru til sölu. Við punktuðum niður jarðir í Norður-Noregi sem okkur leist á og skoðuðum nokkrar þeirra áður en við ákváðum að kaupa býli á Andøy í Nordland.
Jörðin er um 170 hektarar að stærð og af því voru um 17 hektarar af túni sem voru sum í talsverðri niðurníðslu en íbúðarhúsið er gott og úthúsin gömul en nothæf,“ segir Ingólfur.

Jarðir verðlagðar í samræmi við framleiðslugetu

„Verði á landi er stýrt í Noregi með hliðsjón af því hvort hægt sé að nýta það undir landbúnað og framleiða mat. Fólk getur keypt sér óræktarland og byggt sér sumarhús en ekki landi sem hægt er að nýta undir matvælaframleiðslu.

Samkvæmt reglum í Noregi eru jarðir sem flokkast undir landbúnað verðlagðar í samræmi við fram­leiðslu­getu þeirra en ekki lögmálum markaðarins um framboð og eftirspurn. Segjum sem svo að jörð beri 100 kindur, þá er ekki hægt að verðleggja hana nema á eitthvað ákveðið. Hins vegar gilda aðrar reglur um íbúðarhús á jörðu og þau geta verið dýr séu þau stór og glæsileg.

Þeir sem eiga jörð sem er skilgreind sem landbúnaðarland verða að búa á henni og stunda búskap og þannig er komið í veg fyrir að menn geti sölsað undir sig jarðir án þess að nytja þær.“

Hagstæð lán

„Í okkar tilfelli fengum við lán frá okkar viðskiptabanka til að kaupa jörð og húsið en fengum síðan lán gegnum sveitarfélagið til að kaupa vélar og skepnur. Lán sem eru veitt í gegnum sveitafélögin eru á hagstæðum kjörum og verið afborgunar- og vaxtalaus í allt að fjögur ár. Þar er hugsunin að styðja við þá sem eru að hefja landbúnað. Svipað gildir um þá sem vilja kaupa sinn fyrsta fiskibát.

Í fyrstu ætluðum við okkur eingöngu að vera með íslenska hesta og eigum fimm fullorðna í dag og tvö folöld. Við fengum okkur seinna 25 kindur til að prófa og erum því líka að framleiða lambakjöt.

Frá því að við keyptum jörðina höfum við bætt túnin talsvert og byggt við útihúsin og nú erum við með um 70 fjár á húsi, helling af hænum sem ganga úti á sumrin, auk þess sem ölum grísir á sumrin upp í sláturstærð. Grísirnir eru mjög duglegir í að endurnýja gömul tún þar sem þeir snúa öllu við og velta steinum upp á yfirborðið.“
Ingólfur og Margrét eru bæði virk í norskri landbúnaðarpólitík. Margrét er formaður fyrir Norsk bonde og småbrukerlag á Andøy og Ingólfur er í stjórn Norsk bonde og småbrukerlag fyrir Nordland.

Matarsiðferði

Ingólfur hefur ákveðnar skoðanir þegar kemur að landbúnaði og landnýtingu á Íslandi. „Mér þykir einkennilegt að Íslendingar, sem hafa takmarkað fjárhagslegt bolmagn, skuli flytja inn landbúnaðarvörur sem hæglega er hægt að rækta á Íslandi.

Ég tel líka kominn tíma til að ræða ýmsar siðferðislegar spurningar sem snúa að innflutningi á matvælum. Til dæmis hvaðan maturinn kemur og hvernig hann verður til? Eftirspurn eftir ódýrum mat er mikil en fáir velta fyrir sér af hverju matur getur verið ódýr og ódýr matur verður ekki til af sjálfu sér. Til að framleiða ódýrt kjöt þarf ódýrt fóður sem búið er til úr ódýru hráefni sem yfirleitt er framleitt í löndum þar sem eftirlit með framleiðslunni er lítið. Notkun á eiturefnum er oft mikil og aðbúnaður og laun starfsfólks léleg. Það sem meira er þá er þetta einfaldlega lélegur matur og gerir okkur ekki gott til lengri tíma.

Rannsóknir, sem sjaldnast er haldið á lofti, sýna að kjöt sem er framleitt með fóðri úr soja eða maís er mun verra og óhollara en kjöt af skepnum sem fóðraðar eru með grasi og grófu korni.

Fólk víða um heim er sem betur fer farið að vakna til vitundar um að svo gengur þetta ekki til lengdar og framleiðsla af minni, lífrænum búum og vörur á bændamörkuðum er orðin eftirsótt matvara,“ segir Ingólfur.

Matur ekki dýr á Íslandi

„Almenningur verður að fara að átta sig á því að matur á Íslandi er ekkert sérstaklega dýr. Foreldrar okkar og afar og ömmur borguðu mun hærra verð fyrir matinn en við gerum í dag. Fólk er tilbúið að borga háar upphæðir fyrir bíla, húsnæði, föt, utanlandsferðir og alls konar afþreyingu en maturinn má helst ekki kosta neitt. Skuldinni er skellt á bændur og matvælaframleiðslu og hún sögð allt of kostnaðarsöm ef um góða vöru er að ræða.

Í Noregi, sem er eitt ríkasta landi í heimi, er litið á framleiðslu matvæla og mataröruggi sem mikilvægan þátt í að halda landinu í byggð. Norðmenn líta svo á að þar sem vex gras og hægt er að framleiða fóður á sjálfbæran hátt eigi að vera landbúnaður.

Á Íslandi þykir aftur á móti sjálfsagt að leggja beitarland undir sumarhúsabyggð eða gera heilu jarðirnar að leiksvæði fyrir þá sem eiga mikið af peningum. Í mínum huga er nýting á landi forsenda matvælaöryggis og kominn tími til að við umgöngumst það sem slíkt,“ segir Ingólfur.

Langar að framleiða lífrænan áburð

Ingólfur segir að næsta skerf í búrekstri þeirra hjóna sé að reisa nýtt fjárhús fyrir um 250 kindur og að það verði talsvert öðruvísi en peningshús sem þekkjast hér á landi.

„Í Andøy er framleitt talsvert af svarðmold og hluti moldarinnar er fenginn af okkar jörð. Við höfum nánast ótakmarkaðan aðgang að þessari mold. Á jörðinni vex líka mikið af fjalldrapa og birki, sem á köflum er að færa allt í kaf. Reyndar er það svo að ef ekkert er gert til að halda birkinu niðri yfirtekur það öll tún á fáeinum árum.
Hugmyndin hjá mér er að nota birkihrís og svarðmold í gólfið á húsinu og framleiða með því ásamt taðinu lífrænan áburð til að bera á túnin á vorin og færa reksturinn þannig enn nær því að vera sjálfbæran.

Ég hef átt í viðræðum við vegagerðina og nágrannasveitarfélög um þessa hugmynd og get hugsanlega í framtíðinni skapað mér vinnu við að fjarlægja kjarr og tré af vegum. Hráefnið verður síðan tætt og notað sem undirlag fyrir skepnurnar,“ segir Ingólfur að lokum. 

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...