Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Bósi 08-901 var felldur í desember síðastliðnum.
Bósi 08-901 var felldur í desember síðastliðnum.
Á faglegum nótum 6. september 2016

Kynbótamat sæðingastöðvahrúta 2016

Höfundur: Eyjólfur Ingvi Bjarnason, ráðunautur í sauðfjárrækt hjá RML
Kynbótamat fyrir frjósemi hjá sauðfé var uppfært nú í byrjun ágúst. Gögn frá vorinu 2016 sem búið var að skrá í gagnagrunninn náðu inn í útreikninginn. Voru það um 70% af gögnum frá síðasta vori. Inni í Fjárvísi má nú finna uppfært mat og eins mun ætternismat í haustbókum taka tillit til þessa nýja mats.
 
Meðfylgjandi er tafla yfir kynbótamat þeirra hrúta sem voru í notkun á sæðingastöðvunum síðasta vetur. Á heimasíðu RML má finna ítarlegri upplýsingar um þá sæðingastöðvahrúta sem eiga 100 dætur eða fleiri fæddar á árunum 2012–2015 og meðalfrjósemi hvers árgangs.
 
 
Kynbótamatið staðfestir að framfarir eiga sér stað í öllum þeim eiginleikum sem það er reiknað fyrir, mismiklar eftir eiginleikum. Myndin sem fylgir með þessari grein sýnir meðalkynbótamat sæðingastöðvahrúta eftir fæðingarári þeirra fyrir samsetta heildareinkunn þeirra. Á myndinni eru upplýsingar um hrúta fædda árin 1994–2013. Yngstu hrútunum var sleppt vegna óöryggis kynbótamats og eins var sleppt forystuhrútum, ferhyrndum, hrútum sem bera þokugen og hrútum sem notaðir hafa verið vegna sérstakra ullareiginleika.
 
Á síðustu árum hefur meðalkynbótamat sæðingastöðvahrútanna hækkað um 0,62 stig að jafnaði á ári. Mestar eru framfarir fyrir skrokkgæði, 0,8 stig, fyrir mjólkurlagni, 0,6 stig og fyrir frjósemi, 0,4 stig.
 
Framfarir fyrir frjósemi og mjólkurlagni verða alltaf minni þar sem um eiginleika með lágt arfgengi er að ræða og taka þeir því lengri tíma í framræktun, í samanburði við skrokkgæði. 
 
Sæðingastöðvahrútar – helstu breytingar
 
Sá hópur hrúta sem kynbótamatið breytist mest hjá við nýjan útreikning eru sæðingastöðvahrútar þegar við bætast umfangsmiklar upplýsingar um afkomendur um allt land. Hér á eftir verður gerð grein fyrir þeim hrútum sem voru á stöð síðasta vetur og kynbótamat hefur breyst nokkuð hjá (+/- 4 stig), frá útgáfu hrútaskrár í nóvember síðastliðnum.
 
Af hyrndum hrútum skal fyrstan nefna Bósa 08-901, hann lækkar umtalsvert í mati fyrir frjósemi en stendur þó áfram hátt, með 117 í einkunn. Hængur 10-903 fellur í mati fyrir mjólkurlagni og stendur nú í 106. Kölski 10-920 hefur heldur hækkað í mati fyrir frjósemi (123) og stendur nú hæst þeirra stöðvahrúta sem ekki bera frjósemiserfðavísi. Drífandi 11-895 fékk allmikla notkun síðasta vetur en lækkar eilítið í mati fyrir frjósemi, stendur í 109 sem eftir sem áður er há einkunn. Garri 11-908 hefur styrkt stöðu sína hvað varðar frjósemi umtalsvert (106) en fallið í mati fyrir mjólkurlagni (94). Jóker 12-924 hefur styrkt stöðu sína fyrir frjósemi dætra. Tjaldur 11-922 lækkar fyrir frjósemi niður í 118 og mat fyrir mjólkurlagni lækkar í 94. Bekri 12-911 hækkar nokkuð í mati fyrir mjólkurlagni og stendur í 115  og jafnframt hækkar hann örlítið fyrir frjósemi. Saumur 12-915 á nú orðið stóran dætrahóp og hópurinn í heild er undir meðaltali fyrir bæði frjósemi (94) og mjólkurlagni (97). Kjarni 13-927 hefur lækkað fyrir bæði frjósemi (99) og mjólkurlagni (100). Dreki 13-953 hefur hækkað í mati fyrir frjósemi (109).
 
Af kollóttum hrútum hefur Baugur 10-889 fallið talsvert fyrir frjósemi (90) en í vor kom inn stór hópur dætra á öðrum vetri um allt land. Roði 10-897 fellur einnig umtalsvert fyrir frjósemi (94) og þá hefur Hnallur 12-934 lækkað nokkuð í frjósemi (91) en stendur í stað í einkunn fyrir mjólkurlagni. Serkur 13-941 hækkar heldur fyrir frjósemi frá síðasta ári líkt og Spotti 13-942 gerir. Spotti hækkar fyrir frjósemi (110) en afkvæmi hans í ár verða þau einu úr sæðingum þar sem hann drapst nú í sumar. Voði 13-943 lækkar talsvert fyrir frjósemi (92) líkt og faðir hans Roði. Að öðru leyti eru breytingar á kynbótamati annarra hrúta litlar, þ.e. einkunnir þeirra sveiflast kannski til um 1–3 stig og má sjá nánar í töflunni hvernig hver og einn hrútur stendur.
 
 
Endurnýjun hrúta
 
Eftir sæðistöku í desember voru eftirtaldir hrútar felldir vegna aldurs/heilsufars: Bósi 08-901, Heydalur 09-929, Hreinn 09-930, Ami 10-917, Faldur 11-933 og Vörður 12-925. Til viðbótar hafa þessir hrútar fallið frá: Tjaldur 11-922, Hvati 13-926, Spotti 13-942 og Svimi 14-956.
 
Nokkrir nýir hrútar voru sóttir í júní síðastliðnum og eins verður einhverjum hrútum bætt við að loknum afkvæmarannsóknum í haust. Þar á meðal er nýr forystuhrútur, nýr ferhyrndur hrútur, nýr mórauður hrútur, svo eitthvað sé talið, en nánari kynning á þessum bekrum bíður hrútaskrár þessa árs.

3 myndir:

Hvað hefur áhrif á líðan bænda?
Fréttir 6. desember 2024

Hvað hefur áhrif á líðan bænda?

Valgerður Friðriksdóttir stendur fyrir rafrænni könnun þar sem hún skoðar hefðir...

Lök kornuppskera á landinu
Fréttir 6. desember 2024

Lök kornuppskera á landinu

Samkvæmt bráðabirgðatölum bendir allt til að uppskera af þurru korni sé umtalsve...

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð
Fréttir 5. desember 2024

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð

Ný skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem fjögur erlend kúakyn voru borin s...

Skrásetja sögu brautryðjenda
Fréttir 5. desember 2024

Skrásetja sögu brautryðjenda

Sögur brautryðjenda í garðyrkju varpa ljósi á þá miklu þróun sem hefur átt sér s...

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland
Fréttir 5. desember 2024

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland

Eigendur Friðheima, Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir, munu taka við ...

Áfrýjar dómi
Fréttir 5. desember 2024

Áfrýjar dómi

Undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum féllu úr gildi með dómi Héraðsdó...

Fuglaflensa á íslensku búi
Fréttir 5. desember 2024

Fuglaflensa á íslensku búi

Á þriðjudaginn greindist fuglaflensa af gerðinni H5N5 á kalkúnabúi Reykjabúsins ...

Mismunur bændum í óhag
Fréttir 5. desember 2024

Mismunur bændum í óhag

Í dag kostar 306 krónur að framleiða lítra af mjólk samkvæmt nýsamþykktum verðla...