Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Frumkvöðlarnir Erin Gore og Karli Warner reka saman fyrirtækið Garden Society sem þær stofnuðu fyrir fjórum árum og framleiða og selja vörur sem innihalda kannabis en á ári hverju frá stofnun hefur veltan aukist um allt að 400 prósent.
Frumkvöðlarnir Erin Gore og Karli Warner reka saman fyrirtækið Garden Society sem þær stofnuðu fyrir fjórum árum og framleiða og selja vörur sem innihalda kannabis en á ári hverju frá stofnun hefur veltan aukist um allt að 400 prósent.
Fréttir 25. ágúst 2020

Kýla kannabis upp á hærra plan

Höfundur: Erla Gunnarsdóttir
Nú er sala á kannabis leyfileg í tólf ríkjum Bandaríkjanna og spretta nú upp frumkvöðlar um allt land til að gera því góð skil í formi neytendavænna vara á borð við girnilega konfektmola, olíur og krem ásamt kannabistei og fleiru. Frumkvöðlarnir Erin Gore og Karli Warner reka saman fyrirtækið Garden Society sem þær stofnuðu fyrir fjórum árum og framleiða og selja vörur sem innihalda kannabis en á ári hverju frá stofnun hefur veltan aukist um allt að 400 prósent.
 
Markmið Erin og Karli með stofnun fyrirtækisins var að verða jákvæðasta og trúverðugasta kannabis­vörumerki fyrir konur í Bandaríkjunum til að losa um streitu hjá notendum þess og færa gleðina upp á hærra plan. Reynsla notenda á að verða óaðfinnanleg og mannleg eins og kostur þess verður. Þær trúa á mátt plöntunnar og leitast við að kaupa sjálfbær hráefni fyrir framleiðslu sína. Með vörum sínum leitast þær við að gera kannabis að einföldu en lífsnauðsynlegum hluta af hversdagsleika kvenna. 
 
 
Leit að hamingju og jafnvægi
 
Fyrir tíu árum byrjaði Erin að nota kannabis sem verkjastillandi lyf eftir að hafa farið í tvær mjaðmaaðgerðir. Hún er menntaður efnaverkfræðingur og starfaði á þeim tíma fyrir þýskt fyrirtæki. Eftir því sem hún komst hærra upp metorðastigann í vinnunni jókst stressið hjá henni og hún átti erfitt með svefn. Þá byrjaði hún í leyni að framleiða kannabisvörur heima í eldhúsi og þegar hún skipulagði fyrstu „bakstursveisluna“ sína komu 50 konur til hennar. 
„Um leið og frami minn var mjög spennandi var hann einnig mjög taugastrekkjandi. Ég leitaði í kannabis til að hjálpa mér að stjórna þessum krónísku verkjum eftir körfuboltameiðsli sem ég varð fyrir í háskóla en einnig til að hjálpa mér að stjórna svefnleysinu og stressinu við hverja stöðuhækkun í vinnu. Ég var hugfangin af því hvernig ein lítil einföld planta gæti verið svo flókin en gefið mér svo mikinn létti. Ég var einnig að kljást við ófrjósemi eins og svo margar aðrar konur á svipuðum stað og ég var í lífinu. Mér leið eins og ég væri að ferðast frá einum degi til annars til að finna út úr því hvernig ég ætti að halda öllum þessum boltum á lofti samtímis á meðan ég var líka að reyna að finna tíma til að einblína á heilsu mína til að geta eignast fjölskyldu,“ útskýrir Erin.
Árið 2016 stofnaði hún, ásamt Karli Warner, Garden Society í Norður-Kaliforníu en það sama ár var kannabis leyfilegt í ríkinu til afþreyingarnota. 
„Einn daginn fengum ég og vinkonur mínar þá hugmynd að halda svona „hátt uppi kökupartí“ þar sem við bjuggum til kökur með kannabis í sem hægt var að borða. Þar sem ég hef vit á efnafræði fékk ég hlutverkið sem „skömmtunar-drottningin“. Við fengum einnig nokkra kokka til liðs við okkur sem gerðu frábæran mat fyrir okkur. Á þennan hátt skapaðist vettvangur til að tala um kannabis á skemmtilegan hátt, gera tilraunir og að tengja við lífið okkar. Partíin spurðust fljótt út og fleiri konur vildu vera með svo á endanum dugði ekki lengur að nýta einungis garðinn minn fyrir þau. Það var þessi neisti sem ég sá hjá þátttakendum og ég uppgötvaði að ég var alls ekki ein í leit minni að hamingju og að berjast fyrir jafnvægi. Allar þessar konur sem komu sáu eitthvað í kannabis sem þær vildu læra um, prófa, gera tilraunir með og að lokum njóta. Stuttu eftir þetta varð Garden Society að veruleika. Ég var spennt að byrja með fyrirtæki, eða í raun hreyfingu, þar sem tilgangurinn er að hjálpa konum að gefa sér leyfi til að velja kannabis sem leið til að finna jafnvægi og gleði í gegnum menntun og vörur sem eru hannaðar sérstaklega fyrir þær.“
 
Leið til að róa sig niður
 
Vörur Garden Society er nú að finna á yfir 120 útsölustöðum í Kaliforníu en viðskiptavinir sem búa í norðurhluta ríkisins geta pantað í gegnum vefsíðu fyrirtækisins og fengið sent heim.  
„Sem kannabisfrumkvöðull en einnig móðir sem notar og er talsmaður kannabisnotkunar þá hef ég fundið á eigin skinni hvernig þetta stigmagnast. Fyrir meðeiganda minn, Karli Warner, og mig hefur það alltaf verið mikilvægt að hafa áreiðanlegt verkefni og stofnuðum við Garden Society fyrir konur þar sem við höfum bókstaflega gengið í þeirra sporum. Það hefur alltaf verið okkar von að konur geti fundið heildrænni leiðir til að endurnýja sig frá hinu daglega stressi en einnig að hjálpa þeim við að líða þægilega með kannabis. Það að þær gefi sjálfum sér leyfi til að slaka á með kannabis er dásamlegt. Þó að við höfum lagt áherslu á að markaðssetja okkur fyrir konur þá eru margir viðskiptavina okkar karlmenn,“ segir Erin og bætir við:
„Við bjóðum upp á súkkulaði­molana okkar og jónur sem innihalda kannabis, ýmist með CBD eða THC í. Undanfarið höfum við séð aukna eftirspurn eftir vörum með háu CBD-magni og skýrist það sennilega af óvissu- og stresstímum svo fólk finnur leiðir til að róa sig niður og lífið almennt.“
 
 
Einstaklingsbundin áhrif
 
Í Bandaríkjunum eru kannabisvörur sem hægt er að borða mældar í milligrömmum en í jónum í grömmum. Í súkkulaðimolunum frá Garden Society eru á bilinu 5–10 milligrömm af THC-efninu í hverjum mola. Í hverri jónu, sem þær kalla Rosettes, eru 0,000375 kílógrömm í hverri þeirra. 
„Kannabisplantan er ein sú elsta sem ræktuð hefur verið í heiminum. Hún inniheldur kannabisefni sem verka á víxl með endókannabínói líkamans og taugakerfisins sem getur haft mismunandi áhrif sem getur hjálpað til við stresssvörun, slökun og svefn. Fyrir þá sem eru að nota kannabis í fyrsta sinn er mikilvægt að muna að áhrif hvers og eins eru einstaklingsbundin. Ég mæli alltaf með að byrja með litla skammta á meðan fólk gerir tilraunir og finnur út hvað sé best fyrir það. Síðan er líka mikilvægt að kaupa vöruna af viðurkenndum aðila og að hafa gaman,“ segir Erin brosandi og bætir við:
„Hjá Garden Society skuldbindum við okkur til að fara fram úr vænting­um viðskiptavinanna í öllu sem við gerum. Því er okkur mikið í mun að nota eingöngu sjálfbært gæðahráefni og við leggjum mikið upp úr fagurfræðilegri áferð og fallegum umbúðum. Kannabis sem við notum kemur frá sjálfbærum sveitabæjum í Mendocion- og Sonomasýslunum. Hver einasta vara fer í gegnum rannsóknarstofu í gegnum allt ferlið, allt frá hráu hráefni til lokavöru áður en við sendum hana frá okkur.“
 
Úr Tupperware í kannabis
 
Nú hafa þær stöllur sett 15 vöru­tegundir á markað þar sem áferðarfalleg hönnun umbúða og varanna er í fyrirrúmi. Hver vara er handgerð og prófuð á rannsóknarstofu áður en hún fer í sölu. 
„Það sem hefur verið helsta hindrunin við vöruþróunina er að setja upp áreiðanlega virðiskeðju. Í Kaliforníu, þar sem við störfum innan leyfilegra kannabismarka, verðum við að vinna með viðurkenndum aðilum í öllu ferlinu. Kannabisiðnaðurinn hér er enn ungur, aðeins nokkurra ára gamall, og þá er enn verið að fínpússa þetta allt á sama tíma og við erum að byggja upp okkar fyrirtæki svo það hefur verið áskorun.“
Stór hluti sölunnar fer fram í gegnum garðpartí eða heima­kynningar og er nú talað um byltingu í þeim efnum vestanhafs þar sem Tupperware-plastvörukynningar lúta nú víða í lægra haldi fyrir kannabisheimakynningum. Í garðpartíunum er 21 árs aldurs­takmark þar sem gestir fræðast um plöntuna, spyrja spurninga og fá að prófa hinar ýmsu vörutegundir. Vert er þó að hafa í huga að í slíkum garðkynningum eru vörur ekki til sölu heldur er um fræðsluviðburði að ræða. 
„Við erum gríðarlega stoltar af garðpartíunum okkar og það er alveg ótrúlegt að sjá hvað þau hafa fært mörgum konum mikla gleði. Við byrjuðum með þau í byrjun árs 2017 og þau eru einstök fræði- og upplifunarferð fyrir konur til að læra um kannabis og þær vörur sem við bjóðum upp á. Þetta er persónuleg leið fyrir konur til að taka þátt í samræðum um hvernig kannabis getur styrkt þær til að endurheimta og hlaða sjálfar sig. Það er líka mikilvægt að hafa í huga að garðpartíin eru ekki hugsuð til neyslu á kannabis heldur sem fræðslustundir. Þetta hefur verið gríðarlega vinsælt og vel tekið. Eftir að kórónakrísan skall á hefur ekki verið mögulegt að halda garðpartíin en í staðinn höfum við boðið upp á rafrænar uppákomur með til dæmis jóga og kennslustund í notkun á kannabis. Við sjáum mikilvægi þess að vera í góðu sambandi við okkar viðskiptavini og hvað fræðsla til þeirra og samstaða gerir mikið fyrir okkar vörur."