Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda.
Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda.
Mynd / MHH
Fréttir 6. apríl 2018

Kúabændur ræða framtíð framleiðslustýringar og endurskoðun búvörusamninga

Höfundur: TB

Aðalfundur Landssambands kúabænda stendur nú yfir á Hótel Selfossi. Arnar Árnason, formaður LK og bóndi á Hranastöðum í Eyjafirði, sagði í setningarræðu að það hefði verið bjart yfir íslenskum kúabúskap á síðustu árum. Framleiðslumet var slegið á síðasta ári og útlit er fyrir að enn meiri mjólk verði framleidd á þessu ári. „Meðalnyt eykst stöðugt, mikið er byggt og aðstaða gripa og manna batnar ár frá ári,“ sagði Arnar og nefndi tvö mál sem yrðu fyrirferðarmikil á fundinum.

„Annað er atkvæðagreiðsla um endurskoðun á búvörusamningnum sem  mun fara fram á næsta ári en ég reikna með að sú vinna fari að stórum hluta fram á þessu ári. Endurskoðunarnefnd búvörusamninga hefur nú verið skipuð í þriðja sinn og ætlar sér að skila áliti sínu í lok þessa árs.“

Hitt málið er atkvæðagreiðslan um kvótakerfið sem fram fer á næsta ári. „Starfandi mjólkurframleiðendur koma til með að greiða um það atkvæði í byrjun næsta árs hvort þeir vilji halda í framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslunni. Í könnun sem stjórn LK lét gera fyrir aðalfund samtakanna 2017 kom í ljós að mikill meirihluti kúabænda á Íslandi vill viðhafa framleiðslustýringu í greininni. Það er ætlunin að nota aðalfundinn til að ræða þessi mál, skiptast á skoðunum, og komast að niðurstöðu í málinu,“ sagði Arnar sem reiknar með að aðalfundurinn feli stjórn LK að vinna málið í samræmi við umræður og tillögur fundarins. „Þannig verði tryggt að allir komi að kjörborðinu með opin augun og viti nákvæmlega hvað það felur í sér að kjósa með framleiðslustýringarkerfi og á móti framleiðslustýringarkerfi,“ sagði Arnar.

Óvissa um hrákjötsmál

Arnar sagði að nokkur hrollur hefði farið um kjötgreinarnar á Íslandi þegar EFTA-dómstóllinn úrskurðaði það óheimilt að takmarka innflutning á fersku kjöti til landsins. „Skemmst er frá því að segja að nokkur óvissa ríkir enn um það hvernig brugðist verði við þessum úrskurði en óhætt er að segja að drjúgur tími starfsmanna hagsmunagæslufélags kúabænda, LK, hefur farið í að greina og þrýsta á ráðamenn varðandi að gefa nú skýr svör um viðbrögð við þessu.

Þessu tengt hafa bæði formaður og framkvæmdastjóri hitt ráðamenn og ráðherra nokkrum sinnum og átt góðar umræður um málið. Vonandi skilar það sér en í máli sem þessu sýnir það sig best hversu mikilvægt það er að bændur eigi sér öflugt hagsmunafélag sem hefur bolmagn til að sinna málum sem þessum.“


Aðalfundur LK á Selfossi. Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri LK og Arnar Árnason formaður.

Stefnumótun hjá LK

Arnar sagði frá því að undanfarið hafi tveir hópar á vegum LK unnið að stefnumótun fyrir greinina til næstu tíu ára. Annars vegar er það hópur sem er kallaður „mjólkurhópur“ og hins vegar „kjöthópur“. „Ákveðið var að vinna stefnumótun að þessu sinni í tvennu lagi til að gefa kjötmálunum aukið vægi í vinnunni. Það hefur mjög færst í vöxt síðustu árin að bændur einbeiti sér að framleiðslu nautakjöts í stað þess að hafa þá framleiðslu eingöngu sem hliðargrein við kúabúskapinn, þess vegna var ákveðið að fara þessa leið í stefnumótunarvinnunni,“ sagði Arnar.

Ráðamenn benda á hvern annan í tollamálunum

Tollamálin eru bændum hugleikin þessi misserin sagði Arnar en nýr tollasamningur við Evrópusambandið gildi nú í byrjun maí. „Það er með miklum ólíkindum hvernig það gat átt sér stað að samningurinn líti út eins og hann gerir og ráðamenn hafa undanfarið keppst við að benda á hvern annan í þeim efnum, segjast ekkert hafa vitað og þar fram eftir götunum. Það er magnað ef það er þannig að hægt sé að gera milliríkjasamninga fyrir Íslands hönd og enginn veit af því. Hvernig sem þeim söguskýringum er háttað þá er ábyrgðin klárlega þeirra sem stóðu í brúnni á þeim tíma sem samningurinn var gerður. Annað er ótrúverðugur málflutningur,“ sagði Arnar sem bætti því við að sama væri uppi á teningnum með hráakjötsmálið. „… enginn veit nákvæmlega hvaða áhrif samningurinn kemur til með að hafa enda hefur engin vitsmunaleg tilraun verið gerð af hálfu opinberra aðila til að meta áhrifin. Bændasamtökin hafa nú, ásamt flestum búgreinafélögunum, hafið vinnu í samstarfi við innlent ráðgjafafyrirtæki og norska lögfræðistofu við að meta áhrifin og að setja fram töluleg gögn í málinu. Við bindum miklar vonir við þetta starf og ákvað stjórn LK að taka fullan þátt í verkefninu enda um gríðarlegt hagsmunamál að ræða,“ sagði Arnar.

Af hverju á ég að borga hagsmunagæsluna fyrir þig?

Í kjölfarið minnti Arnar á gildi þess að allir kúabændur snéru bökum saman og kallaði hann það nokkurs konar siðferðisspurningu sem menn stæðu frammi fyrir. „Það er ljóst að þetta samstarf BÍ og búgreinafélaganna ásamt aðkomu afurðastöðvanna kostar Landssamband kúabænda 800.000 krónur og þá spyrjum við okkur, í ljósi þess að rétt um tveir þriðju hluti kúabænda á aðild að LK, er eðlilegt að þessi hluti bænda borgi hagsmunagæsluna fyrir alla bændur? Í mínum huga er svarið einfalt og það er nei. Það er ekki eðlilegt að einn þriðji hluti starfandi kúabænda taki ekki þátt í leiknum og séu nokkurs konar farþegar í hagsmunagæslunni. Það er reyndar af ýmsum ástæðum sem bændur ákveða að vera ekki með og enn hittir maður bændur sem halda að þeir séu með af því að þeir hafi alltaf verið  það og átta sig ekki á þeim breytingum sem orðið  hafa á félagskerfinu okkar.“ Hann spurði hvað væri til ráða og hvatti menn til þess að halda því að nágrönnum sínum hvað hagsmunagæslustarfið væri mikilvægt. Það þyrfti að höfða til samvisku bænda og spyrja „af hverju á ég að borga hagsmunagæsluna fyrir þig?“

Sækjum fram og þróum kúabúskapinn

Í lok stefnuræðu sinnar sagði Arnar Árnason að á hverjum tíma væru ógnanir og tækifæri í mjólkurframleiðslu á Íslandi og þannig hefði það alltaf verið. „Við höfum í áratugi þurft að takast á við aukinn innflutning, það kemur ekkert til með að breytast en það besta sem við getum gert til að gera greinina okkar samkeppnishæfari og betur í stakk búna fyrir framtíðina er einmitt að gera það sem við höfum alltaf verið að gera. Sækja fram, þróa búskapinn okkar, tæknivæðast og tileinka okkur nýjungar í greininni. Það væri afar ósanngjarnt að halda því fram að það hafi litlar eða engar framfarir átt sér stað í mjólkurframleiðslu hér á landi. Íslenskur landbúnaður er ekki eftirbátur annarrar framleiðslu hér á landi þegar kemur að hagræðingu og framþróun,“ sagði Arnar að lokum.

Nýir liðsmenn Bændablaðsins
Fréttir 21. júní 2024

Nýir liðsmenn Bændablaðsins

Lesendur hafa kannski tekið eftir nýjum efnisþáttum í blaðinu í vor. Hugarleikfi...

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun
Fréttir 21. júní 2024

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun

Lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi fá aðgengi að 3,2 milljarða króna fjármög...

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum
Fréttir 20. júní 2024

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum

Hvítlauksbændurnir í Neðri-Brekku í Dölum fengu nýlega tvo styrki úr Matvælasjóð...

Verðlaunuðu góðan árangur
Fréttir 20. júní 2024

Verðlaunuðu góðan árangur

Tabea Elisabeth Schneider hlaut verðlaun fyrir besta árangur á B.S. prófi þegar ...

Fuglum fækkar vegna óveðurs
Fréttir 20. júní 2024

Fuglum fækkar vegna óveðurs

Samkvæmt fuglatalningu varð algjört hrun í fjölda fugla á Norðausturlandi þegar ...

Óhrædd að takast á við áskoranir
Fréttir 19. júní 2024

Óhrædd að takast á við áskoranir

Tilkynnt var um ráðningu Margrétar Ágústu Sigurðardóttur í starf framkvæmdastjór...

Halla færir út kvíarnar
Fréttir 19. júní 2024

Halla færir út kvíarnar

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjuframleiðandi og eigandi garðyrkjustö...

Sala Búvís stöðvuð
Fréttir 19. júní 2024

Sala Búvís stöðvuð

Samkeppniseftirlitið hefur komið í veg fyrir að Skeljungur kaupi Búvís ehf. þar ...