Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Fjórhjóladrifin Nissan Juke.
Fjórhjóladrifin Nissan Juke.
Mynd / HLJ
Á faglegum nótum 22. nóvember 2016

Kraftmikill fjórhjóladrifinn Nissan Juke

Höfundur: Hjörtur L. Jónsson
Þegar Nissan Juke kom fyrst til Íslands 2012 prófaði ég þann bíl og varð hrifinn af útliti og skemmtilegum krafti í 117 hestafla vélinni. 
 
Seinna kom svo Juke með dísilvél og  nú er hægt að fá Nissan Juke með fjórhjóladrifi með bensínvél sem er kominn úr 117 hestöflum í 190 hestöfl. Fyrir nokkru prófaði ég þennan kraftmikla fjórhjóladrifna fólksbíl.
 
Misjafnt álit um útlit bílsins
 
Glannalegt og nýtískulegt útlit bílsins verður til þess að fólk skiptist á skoðunum hvort bíllinn sé ljótur eða flottur, en fyrir mér er þessi sérstæða hönnun á bílnum bara flott og gefur bílnum sérstakt útlit sem bæði er glannalegt og heillandi. 
 
Að keyra bílinn á malbiki er bara skemmtilegt þar sem bíllinn er léttur, kraftmikill og stuttur (lengd milli hjóla er 2530 mm). Hann er svo kraftmikill að í hvert skipti sem bílnum var gefið út úr beygju eða tekið skarplega af stað spólaði hann og spólvörnin fór í gang. Að vísu voru allar götur blautar svo að grip var í lágmarki þrátt fyrir góða og nýja hjólbarða undir bílnum.
 
Stöðugur á lausum malarvegi í fjórhjóladrifinu
 
Ég hef oft ekið bílum sem ég prófa lengra, en sökum veðurs var þessi prufurúntur óvenju stuttur og að mestu innanbæjar á blautum götum Reykjavíkur. Í þessum innanbæjarakstri kom lipurð bílsins vel í ljós, gott að leggja í þröng stæði, snöggur af stað úr kyrrstöðu og þægilegt að keyra þrátt fyrir mikið vatn í hjólförum á flestum götum. Það eina sem ég þurfti að passa sérstaklega var að fara ekki yfir hraðamörk þar sem bíllinn er óvenju snöggur að ná umferðarhraða og það aðeins ríflega. 
 
Á lausum og holóttum malarvegi var ég ekki eins ánægður með bílinn, en þar sem fjórhjóladrifinn Nissan Juke er á 18 tommu felgum og dekkin eru 225/45/18 er hæð þeirra ekki nema 45% af breidd dekkjanna sem gerir það að þau fjaðra ekki neitt, en höggva leiðinlega í öllum holum. Eindrifs Juke kemur hins vegar á 17 tommu felgum sem gefa færi á belgmeiri dekkjum. 
 
Þegar bíllinn er keyrður í fjórhjóladrifinu á lausum sléttum malarvegi er hann svo stöðugur að mér datt í hug rallýbíll í beygjunum, en ef fyrir voru holur vantaði fjöðrun í dekkin. 
 
Þegar ég gaf bílnum í lausri malarvegabeygju var eins og að bíllinn væri hreinlega límdur við veginn. Sömu beygjur tók ég án þess að vera í fjórhjóladrifinu og munurinn var mikill.
 
Ekki jepplingslegt þegar manni finst maður sitja á veginum
 
Þegar ég skoðaði útbúnað í bílnum sá ég að „varadekksauminginn“ er á 16 tommu felgu sem segir mér að hægt væri að setja bílinn á 16 tommu felgur, en með því myndi ég áætla að bíllinn væri góður malarvegabíll með hærri og belgmeiri fjaðrandi dekk. 
 
Þegar útlit bílsins er skoðað utan frá dettur manni í hug við fyrstu sýn að bíllinn sé þröngur að innan og farangursrými nánast ekkert, en fótapláss er gott í framsætum og í aftursætum er gott rými fyrir farþega. Hins vegar er útsýni frekar lítið úr aftursætum bílsins þar sem gluggar eru frekar litlir. 
 
Farangursrými er glettilega mikið og aðeins breytt og endurhannað frá fyrstu árgerðinni. Þó ekki sé pláss fyrir golfsett,  þá er það nú svipað og í Dacia Duster-jepplingnum. Sætin eru þægileg að sitja í, en þó fannst mér ég sitja frekar neðarlega. Hafði stundum á tilfinningunni að ég sæti á veginum. 
 
Skemmtilegt vinnslusvið vélarinnar
 
Fjórhjóladrifni Nissan Juke er bara í boði með 1618 cc bensínvél sem skilar 190 hestöflum. Eins og fyrri bíllinn, sem ég prófaði fyrir Bændablaðið 19. janúar 2012 er þessi bíll með þrem kraftstillingum fyrir vélina. Munurinn er mikill í krafti á þessum þrem stillingum. Kraftminnsta stillingin (Eco) er mýkst og eldsneytiseyðslan er afgerandi minnst á þeirri stillingu (uppgefin eyðsla í blönduðum akstri er 6,5 lítrar á hundraðið).
 
Miðkrafturinn (Norm.) er það mikill að á blautu malbiki tók bíllinn af og til spól út úr beygjum og þegar lagt var af stað.
 
Kraftmesta stillingin (Sport) er hættulega skemmtileg fyrir innanbæjarakstur ef maður vill halda í ökuskírteinið, eldsnögg vélin upp á snúning á þessari stillingu hreinlega skýtur bílnum á örstuttri stundu upp í of mikinn hraða.

6 myndir:

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...