Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Kosningarréttur kvenna: Hvenær er þetta afmæli?
Lesendabásinn 6. mars 2015

Kosningarréttur kvenna: Hvenær er þetta afmæli?

Höfundur: Auður Styrkársdóttir formaður Framkvæmdanefndar um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.
Ekki hefur farið framhjá mörgum að á þessu ári er haldið upp á aldarafmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. En er það virkilega rétt? Getur hugsast að kosningarétturinn sé bara 99 ára? Eða er hann kannski 94 ára þegar allt kemur til alls? Stórt er spurt og full ástæða til að leita svara.
 
Ástæðan fyrir spurningunni er sú að lögin frá Alþingi, sem Kristján konungur X staðfesti með undirskrift sinni þann 19. júní 1915, tóku gildi 19. janúar 1916. Sumir telja að réttara fari á því að halda upp á aldarafmælið 19. janúar 2016 og geyma hátíðahöld til næsta árs. 
 
En hér þarf að fleiru að hyggja. Formæður okkar mörkuðu stefnu fyrir 100 árum þegar þær ákváðu að fagna staðfestingu konungs á lögunum á stærsta fjöldafundi Íslandssögunnar til þess tíma á Austurvelli. Ekki gátu þær vitað hvaða dag konungur skrifaði undir lögin, en þegar skeyti barst hingað þann 19. júní um staðfestingu hans hófust þær handa við að undirbúa hátíðahöld. Þær völdu 7. júlí vegna þess að Alþingi kom saman þann dag. Þær þökkuðu þinginu með skrautrituðu ávarpi, (sem verður til sýnis í Landsbókasafni frá 16. maí) og konungi sendu þær símskeyti. Þannig fögnuðu íslenskar konur því að vera „viðurkenndar löglegir borgarar þjóðfélagsins“, eins og Bríet Bjarnhéðinsdóttir sagði í frásögn af hátíðahöldunum í Kvennablaðinu 16. júlí 1915.
 
Dagurinn 19. júní hafði þó strax sérstaka merkingu hjá íslenskum konum. Þann 30. apríl 1918 skrifaði Bríet í Kvennablaðið: „Hann er grundvallarlagadagur vor íslensku kvennanna, sem gerði okkur að lagalegum þjóðfélagsborgurum, með sömu skyldum og réttindum og bræður vorir hafa. Þann dag höfum vér sjálfar í fyrstu kjörið að hátíðisdegi...“
 
Grundvallarlagadagurinn 19. júní hefur verið sérstakur hátíðisdagur íslenskra kvenna í heila öld. Hann hefur verið kallaður „Kvennadagurinn“ og  „Kvenréttindadagurinn“ í dagatölum landsmanna um margra áratuga skeið.
 
Fyrir nokkrum árum hittist hópur kvenna til að ræða hvernig halda mætti upp á aldarafmæli kosningaréttarins. Þá var bent á að í raun yrði hann aðeins 95 ára árið 2015. Árið 1915 náði hann nefnilega aðeins til um 52% kvenna á kosningaaldri karlmanna og því var langt í frá að kosningaréttur kvenna hafi þá orðið almennur. Réttara væri að tala um aldarafmælið þann 18. maí 1920. Þá skrifaði konungur Íslands undir þá breytingu á stjórnarskránni sem nam í burtu kynferði sem eitt lykilatriða í kosningarétti þegnanna. Og jafnvel væri aldarafmælið ekki fyrr en 1. janúar 1921 þegar sú breyting öðlaðist gildi. Samkvæmt því á kosningaréttur kvenna 94 ára afmæli á þessu ári. 
 
Þá var bent á hefðina. Eigum við að kollvarpa henni fyrir reglufestu og vísa þar með fyrri hátíðahöldum kvenna á bug sem markleysu, eða í besta falli vandræðagangi? Hin langa hefð, og skrif Bríetar í Kvennablaðinu 1918, sem ég vísaði til hér ofar, sannfærðu allar um að ekki væri rétt að vera svo stíf í falsinu. Við höfum því kosið að fagna þessum áfanga, þessu fyrsta skrefi í átt til jafnréttis, eins og formæður okkar gerðu og hafa gert allar götur síðan, þótt lögin 1915 væru þessum mikla annmarka háð. Dagurinn 19. júní er grundvallarlagadagur íslenskra kvenna.
 
Við erum ekki ein á báti með að miða afmæli kosningaréttar við samþykkt þings og/eða undirskrift konungs. Konur í Danmörku fagna aldarafmæli síns kosningaréttar þann 5. júní næstkomandi. Þann dag fyrir réttum 100 árum staðfesti Kristján konungur X lög frá danska þinginu um kosningarétt danskra kvenna með undirskrift sinni. Norskar konur fögnuðu aldarafmælinu þann 11. júní 2013, en þann dag samþykkti stórþingið lög um kosningarétt kvenna. Í Svíþjóð verða hátíðahöld 26. janúar 2021 þegar öld verður liðin frá því sænska þingið samþykkti endanlega lög um kosningarétt kvenna. 
 
Aldarafmæli kosningaréttar kvenna verður fagnað með margs konar viðburðum um allt land. Það er von afmælisnefndar að þeir verði til þess að minna fólk á að kosningaréttur er ekki og var ekki sjálfsagður. Almenningi var treyst fyrir honum hægt og bítandi. Framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna hefur dregið fram söguna á vefsíðu afmælisins (http://kosningarettur100ara.is) Ég hvet hér með alla áhugasama til þess að kynna sér hana og velta  fyrir sér þessum hornsteini lýðræðis í landi okkar. Nú er svo komið að mörgu ungu fólki finnst ekki taka því að nýta réttindi sín. Er það ekki áhyggjuefnið?
 
 
Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar: tryggja á fæðuöryggi á Íslandi
Fréttir 29. nóvember 2021

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar: tryggja á fæðuöryggi á Íslandi

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfsstæðisflokks og Vi...

Ný hitaveita Hornafjarðar formlega tekin í notkun
Fréttir 29. nóvember 2021

Ný hitaveita Hornafjarðar formlega tekin í notkun

Hitaveita Hornafjarðar var tekin formlega í notkun fimmtudaginn 21. október en l...

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar
Fréttir 27. nóvember 2021

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar

Samkvæmt heimildum Bændablaðsins mun þingmaður Vinstri grænna vera með ráðuneyti...

Bitbein um áburðarnotkun
Fréttir 26. nóvember 2021

Bitbein um áburðarnotkun

Lífrænir bændur í Danmörku geta nýtt sér húsdýraáburð frá ólífrænum búum í meira...

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega
Fréttir 26. nóvember 2021

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega

Í síðasta Bændablaði var greint frá því að samkvæmt könnun sem kynnt var af Euro...

Kolefnissporið kortlagt
Fréttir 26. nóvember 2021

Kolefnissporið kortlagt

Skútustaðahreppur hefur samið við nýsköpunarfyrirtækið Greenfo um að kortleggja ...

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki
Fréttir 25. nóvember 2021

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki

Vetnisvæðing, sem nú er rekin áfram af mikilli ákefð hjá öllum stærstu iðnríkjum...

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama
Fréttir 25. nóvember 2021

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama

Norðmenn hafa upplifað spreng­ingu í uppsetningu vindorkustöðva á undanförnum ár...