Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Stefán Ólason í Merki og Gísli Sigurgeirsson sjónvarpsmaður tóku eina salibunu á Merkiskláfnum yfir Jökulsá.
Stefán Ólason í Merki og Gísli Sigurgeirsson sjónvarpsmaður tóku eina salibunu á Merkiskláfnum yfir Jökulsá.
Mynd / MÞÞ
Viðtal 21. október 2014

Kláfur yfir Jökulsá var helsta samgöngutæki heimilisfólks á Merki

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

„Kláfurinn var okkar helsta samgöngutæki yfir vetrar­mánuðina, ég þekkti ekki annað í mínum uppvexti, við fórum ekki öðruvísi yfir Jökulsá á veturna en að draga okkur yfir á kláfnum,“ segir Stefán Ólason, bóndi á Merki í Jökuldal. 

Hann sýndi hópi fólks, sem var á ferð síðsumars á vegum Landbótasjóðs Norður-Héraðs, kláfinn sem staðsettur er tæpum tveimur kílómetrum neðan við bæinn. Kláfar voru allnokkrir yfir Jökulsá í eina tíð, auk þess að vera við Merki voru slík farartæki við Eiríksstaði, Hjarðarhaga, Brú, Gauksstaði og Teigasel og örlar á leifum þeirra þriggja síðastnefndu.  Kláfurinn yfir Jökulsá við Merki var sá síðasti sem tekinn var úr notkun, þegar brú var byggð yfir ána árið 1975. Þá loksins komst bærinn í vegasamband. Kláfurinn var gerður upp árið 1996  enda þótti ástæða til að halda þessum þætti samgöngumála Jökuldælinga við.  Fjöldi ferðamanna kemur við á hverju sumri, skoðar kláfinn og myndar í bak og fyrir og sumir fá jafnvel að renna sér eina salibunu í honum yfir Jökulsá.

Glannaskapur aldrei viðhafður

Stefán ólst upp á Merki með foreldrum sínum, Óla Stefánssyni og Elínu Sigríði Benediktsdóttur, og fjórum systkinum. Hann segir að börnin hafi fljótt lært að umgangast kláfinn af virðingu og með öryggistilfinningu, aldrei hafi neinn glannaskapur verið viðhafður í umgengni við hann. „Við ólumst upp við að fara með þessum hætti yfir ána, annað var ekki í boði yfir veturinn og fljótt var okkur treyst fyrir honum, við til að mynda sóttum gjarnan póstinn niður í kláf,“ segir Stefán. Hann minnist þess að drengir hafi einhverju sinni við annan kláf verið að fíflast, hangið á vírunum og spriklað þar.  Faðir drengjanna hafi þá sagt bónda sem var að sækja hann að kláfnum og hafði af þeim áhyggjur;  ekki horfa, krakkar drepa sig aldrei á fikti.

Leiðinda vegslóði notaður yfir sumarið

Yfir sumarið gat heimilisfólk notast við bíl sem ekið var eftir „gömlum leiðindaslóða“ eins og hann nefndi veg sem lá austan megin dalsins og náði niður að brú á móts við Hjarðarhaga. Slóðinn var nokkurn veginn bílfær frá því hann þornaði að vori og fram á haust, en ófær með öllu yfir veturinn. „Hann varð ófær í fyrsta snjó eða um leið og frysti, bílnum var þá lagt handan árinnar og hér á bæ var ekki annað samgöngutæki en kláfurinn,“ segir Stefán. Þegar ána lagði fóru menn yfir á ís og þótti bæði fljótlegra og þægilegra. Stefán minnist þess að á haustin var kappkostað við að koma öllum nauðsynjum inn á heimilið áður en vegslóðinn varð ófær. Hveiti og sykur var flutt heim á hlað í stórum sekkjum sem og önnur matvara, menn birgðu sig upp til vetrarins.

Gríðarlega erfiðir áburðarflutningar

Einhverju sinni þegar seint voraði þurfti að notast við kláfinn til að flytja áburð og minnist Stefán þess að verkið hafi reynt vel á þá þrjá sem þátt tóku, hann, föður hans og föðurbróður. „Mikil skelfing, þetta var ekki létt verk, að draga kláfinn milli bakka stútfullan af 50 kílóa áburðarpokum. Þetta er eitt mesta erfiðisverk sem ég hef komið nálægt,“ segir hann. Fyrst þurfti að drösla pokunum niður að kláfi, koma þeim þar fyrir, draga kláfinn yfir og taka þá upp úr og koma fyrir á vörubílspalli.  „Þetta var gríðarlegur burður og mikið erfiði, ég man að eitt sinn var heldur mikið í kláfnum og hann bara hreinlega súnkaði niður fyrir miðri ánni,“ segir Stefán. Benedikt, föðurbróður hans, hugkvæmdist í miðju verki að nýta traktor sem var austan megin til að draga kláfinn yfir og munaði það miklu. Honum var komið fyrir á milli steyptra stólpa og vélaraflið leysti handaflið af hólmi við að  draga níðþungan kláfinn yfir Jökulsá.

Silkihanski húsfreyjunnar féll ofan á klettasyllu

Stefán man einnig eftir því að fjölskyldan fór öll saman af bæ, líklega á einhverja skemmtun eða samkomu í sveitinni.  Allir koma sér fyrir í kláfnum, en ekki vildi betur til en svo að móðir hans missti af sér fínan silkihanska og lenti hann á klettasyllu.  Hrafn kemur fljúgandi í sömu mund, grípur hanskann neðan úr gilinu og flýgur með hann upp á tún handan árinnar. Þar missir hrafninn hanskann og hélt Óli, faðir Stefáns, þegar af stað aftur yfir ána til að sækja hann.

Eitt sinn kom það upp á Merki að bærinn varð mjólkurlaus, það stóð á burði hjá einni kúnni og enga mjólk að fá heima við af þeim sökum.  Beitarhús frá Hákonarstöðum stóðu á bakka handan Jökulsár, á svipuðum slóðum og Merkiskláfurinn var. Stefán rifjar upp að Ragnar bóndi á Hákonarstöðum hafi á þeim tíma oft sett mjólkurflöskur í kláfinn.  „Og þá var nú aldeilis hlaupið til og mjólkin sótt umsvifalaust. Þau fyrir handan hafa vitað af mjólkurleysinu á bænum, en okkur krökkunum þótti þetta mjög ánægjulegt,“ segir hann.

„Við höfum flutt naut í kláfnum“

Hann rifjar að lokum upp fræga sögu af því er kona nokkur, vel við aldur, ætlaði yfir ána með kláfnum í heimsókn að Merki. Hún var mjög rög og ætlaði aldrei að hafa sig upp í, spurði í þaula um allt sem ef til vill gæti farið úrskeiðis. Benedikt, föðurbróðir Stefáns, var í hlutverki ferjumanns og hann brast að lokum þolinmæðin og sagði, nokkuð höstugur; „hafðu þig upp í kláfinn,  kona, við höfum flutt naut í kláfnum.“ Sú gamla vippaði sér snarlega upp í og ferðin yfir gekk eins og í sögu.

Stefán minnist þess að margir hafi verið í sömu sporum og þessi kona, fólk sem ekki þekkti til stóð nokkur ógn af þessum fararmáta. „Ég veit til þess að fólk þorði ekki að koma í heimsókn, mamma, sem var frá Hvanná, átti stóran frændgarð fyrir sunnan sem jafnan kom í heimsóknir austur, en höfðu sig ekki í að koma yfir til okkar, lagði bara hreinlega ekki í það,“ segir hann.

Mikil umskipti að fá brúna

Mikil umskipti urðu þegar ný brú yfir Jökulsá, við Merki, var tekin í notkun og heimilisfólk komst á bíl allra sinna ferða hver svo sem árstíðin var. „Ég man að oft var verið að þrýsta á þessa framkvæmd og að koma bænum í vegasamband, en það verkefni mætti alltaf afgangi. Líkast til hefur á þessum tíma, upp úr 1970, skapast stemning í þjóðfélaginu fyrir því að bæta samgöngur og tengja saman hinar dreifðu byggðir. Ég held líka að þetta hafi hreinlega verið spurning um að búskapur legðist hér af, menn voru að gefast upp. Það tók verulega á að komast hvorki lönd né strönd nema ferja sig yfir Jökulsá,“ segir Stefán.

Stefán telur að faðir hans, sem nú er á tíræðisaldri, og þau systkinin í Merki séu líklegast síðustu núlifandi Íslendingarnir sem bjuggu við það að kláfur var þeirra eina samgöngutæki við vegakerfið. 

4 myndir:

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa
Fréttir 12. apríl 2024

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa

Matvælastofnun lagði stjórnvaldssektir á þrjú kúabú á Vesturlandi á dögunum vegn...

Dregur úr kaupvilja
Fréttir 12. apríl 2024

Dregur úr kaupvilja

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun apríl sýna að ja...

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar
Fréttir 11. apríl 2024

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar

Vigdís Häsler hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. ...

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður
Fréttir 11. apríl 2024

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður

Búast má við að innflutningur á mómosamold (sphagnumríkri mold) fari minnkandi á...

Bjarkey ætlar að skerpa línurnar
Fréttir 11. apríl 2024

Bjarkey ætlar að skerpa línurnar

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er nýr ráðherra matvælaráðuneytis en Svandís Svavars...

Greiðslumark færist til Norðvesturlands
Fréttir 11. apríl 2024

Greiðslumark færist til Norðvesturlands

Um sjötíu prósent mjólkurkvóta sem skipti um eigendur á síðasta tilboðsmarkaði f...

Nemendur vilja betri hádegismat
Fréttir 10. apríl 2024

Nemendur vilja betri hádegismat

Fulltrúar ungmennaráðs Mýrdalshrepps vöktu máls á skólamáltíðum á sveitarstjórna...