Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Kjötsala eykst jafnt og þétt í Kína og framboð í verslunum og hjá sérstökum kjötkaupmönnum hefur mikið breyst á örfáum árum.
Kjötsala eykst jafnt og þétt í Kína og framboð í verslunum og hjá sérstökum kjötkaupmönnum hefur mikið breyst á örfáum árum.
Á faglegum nótum 26. júlí 2019

Kjötmarkaðurinn í Kína stækkar á ógnarhraða

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Neysluþróunin í Kína hefur breyst gríðarlega á stuttum tíma og á það ekki einungis við um mjólkurvöruneyslu heldur líka bæði kjöt og fisk sem áður fyrr var ekki stór hluti máltíðanna í Kína. Kjötneysla Kínverja er þó enn langtum minni en t.d. í Evrópu en vegna mikils mannfjölda í landinu hefur neysluþróunin mjög mikil áhrif langt út fyrir kínverska hagkerfið enda geta bændur í Kína engan veginn svarað kalli neytenda eftir meira magni af kjöti.
 
7 kíló á mann
 
Eins og fyrr segir er neysla Kínverja enn langtum minni en í flestum ef ekki öllum þróuðum löndum en talið er að kjötneysla á hvern íbúa þar sé ekki nema rétt um 7 kg á ári. Til samanburðar er reiknuð kjötneysla á Íslandi rúm 80 kíló þannig að þótt Kínverjar auki ekki neyslu sína á kjöti nema til helmings við það sem við gerum á Íslandi þá þarf nærri að sexfalda núverandi neyslutölu í Kína á kjöti! Það liggur því fyrir að samhliða batnandi efnahag landsins og auknum fjárráðum fólks þá heldur þessi þróun áfram jafnt og þétt og kjötmarkaðurinn í Kína mun fyrirsjáanlega vaxa gríðarlega mikið á komandi árum. Þessi þróun hefur ýtt undir miklar fjárfestingar Kínverja í kjöt-framleiðslu. Þannig hafa t.d. sprottið upp kjötframleiðslubú víða í Kína og þá sér í lagi svína- og alífuglabú.
 
Neysla Kínverja á bæði kjöti og fiski eykst jafnt og þétt en er þó enn margfalt minni en t.d. hér á landi.
 
Horfa langt fram í tímann
 
Kínversk stjórnvöld eru með skammtímamarkmið og langtímamarkmið og þegar horft er til langtímamarkmiða horfa kínversku stjórnvöldin allnokkuð lengra en gerist og gengur meðal annarra stjórnvalda. Líkleg skýring á því er einfaldlega sú staðreynd að í Kína er stjórnarfarið töluvert frábrugðið því sem við þekkjum og sama fólkið er við völd í langan tíma og þegar talað er um lang-tímamarkmið er horft til áratuga. Stjórnvöld hafa fyrir margt löngu áttað sig á því að eigi að vera hægt að metta kjötþörf heimamanna til lengri tíma litið, þá þarf meira til en kínverska kjötframleiðslu í Kína. Landið verði að treysta á innflutning á kjöti en Kínverjar vilja þó gjarnan sjálfir fá bita af þeirri innflutningsköku og því hafa kínverskir kaupahéðnar farið víða um heiminn og keypt upp land og búgarða. Líklega eru enn sem komið er mest umsvif slíkra uppkaupa Kínverja í öðrum löndum í Asíu, Ástralíu og Suður-Ameríku en svona fjárfestingar á landi eru þó víða og m.a. hafa Kínverjar keypt land í Afríku og eiga meira að segja umstalsvert marga búgarða í sjálfum Bandaríkjunum! Á þessum svæðum, sem kínverskir verslunarmenn hafa komið og keypt land og búgarða, hafa þeir komið sér upp kjötframleiðslubúum eða jafnvel keypt upp bú sem þegar voru starfandi en gott dæmi um það er m.a. stærsta holdanautabú í heimi, sem er í Ástralíu, sem nú er í eigu Kínverja. Kjöt þessara búa allra saman er svo sent heim til Kína á hinn ört stækkandi kjötmarkað.
 
Ein leiðin til að nýta landið betur að er byggja búfjárbyggingar á mörgum hæðum. Hér má sjá margra hæða svínabú í byggingu í Kína.
 
Svínabú á 13 hæðum
 
Heima í Kína er landið þéttsetið og þó svo að víða sé nú ónumið land eru stjórnvöld, sem eiga allt land í Kína, afar varfærin í að láta land af hendi nema nýting hvers fermetra sé afar góð og réttlætanleg. Þannig er t.d. víða óheimilt að byggja annað en háhýsi fyrir fólk og að nota land undir einbýlishús er litið á sem hálfgerða sóun á landi! Það nýjasta í þessu sambandi, þ.e. varðandi betri nýtingu á því landi sem er til ráðstöfunar, er að byggja kjötframleiðslubú á mörgum hæðum! Enn sem komið er, er þetta á hálfgerðu tilraunastigi en í dag er amk. eitt svínabú til í Kína sem er með 18 þúsund gyltur í níu hæða blokk og á næsta ári stendur til að byggja aðra blokk upp á 13 hæðir sem líka er eingöngu fyrir gyltur, alls 26 þúsund talsins! Svona risastórt svínabú þarf gríðarlega mikið fóður og er því fóðurstöð einfaldlega staðsett við hlið þessara risablokka. Fóðurstöðin er engin smásmíð sjálf og er hámarks afkastageta hennar um 84 þúsund tonn af fóðri á ári eða um 230 tonn á dag.
 
Eins og tölurnar benda til þá er hér um gríðarlega stórt svínabú að ræða en það er þó bara eitt af mörgum sem fyrirtækið Yangziang á og rekur. Fyrirtækið er með 90 þúsund gyltur alls og með árlega kjötframleiðslu upp á um 180 þúsund tonn. Til að setja þessa tölu í samhengi má geta þess að árleg svínakjötframleiðsla á Ísland er um sjö þúsund tonn eða tæplega 4% af árlegri framleiðslu þessa eina kínverska fyrirtækis.
 
Stórbú er kínverska leiðin
 
Kínversk stjórnvöld hafa markað stefnuna og til að nýta landið sem best hafa þau ýtt markvisst undir stækkun búa. Þannig fá bændur með áform um stórbúskap, oft fyrir tugþúsundir skepna, fengið umtalsverða styrki og fyrirgreiðslur á meðan þeir sem hafa áform um litlar viðbætur eða endurbætur á litlum búum fá oft ekki neitt. Bændur sem standa frammi fyrir ákvörðun um breytingar þurfa því að gera það upp við sig hvort þeir ætli í stórbúskap eða hreinlega ætli að hætta í búskap.
 
Vinna úr 300 þúsund nautgripum á ári
 
Eitt stærsta fyrirtæki Kínverja í kjötvinnslu er fyrirtækið Delisi, en það er nú þegar í bæði svína- og nautakjötsframleiðslu og þegar kínversk fyrirtæki eru stór, þá eru þau stór! Delisi er með árlega kjötvinnslugetu upp á um 300 þúsund nautgripi á ári og innan fárra ára gera spár þess ráð fyrir að vinna árlega úr einni milljón nautgripa! Margir þessara sláturgripa koma frá kínverskum kúabændum en hluti kjötsins er fluttur inn til Kína frá ýmsum löndum.
 
Innflutningur háður skilyrðum
 
Í dag er Kína stór innflytjandi á öllum tegundum af kjöti og er t.d. næststærsti innflytjandi á nautakjöti í heiminum, á eftir Bandaríkjunum, og árið 2017 nam innflutningur landsins á nautakjöti 700 þúsundund tonnum en árið 2010 var þetta magn ekki nema 23 þúsund tonn svo þróunin er gríðarlega hröð. Þrátt fyrir mikinn innflutning þá eru kínversk yfirvöld með afar hörð skilyrði sem uppfylla þarf ætli einhver að flytja kjöt til landsins. Skýringin felst í mati á bæði áhættu vegna hugsanlegra smitefna en fleira skiptir þar máli eins og t.d. stjórnmálasamband Kína og viðkomandi framleiðslulands.
 
Fljót að loka, lengi að opna
 
Þegar horft er til heilbrigðismálanna eru stjórnvöld í Kína afar fljót að loka á innflutning ef eitthvað bendir til þess að kjöt frá innflutningslandi gæti verið frá sýktu svæði og væntanlega er takmörkuð heimild fyrir innflutningi á íslensku lamabakjöti ágætt dæmi um þetta. Reynslan sýnir einnig að ef það lokast á innflutning af einhverjum sökum þá er hreint ekki einfalt að fá opnað fyrir innflutninginn á nýjan leik og hafa breskir útflytjendur á nautakjöti reynt það á eigin skinni. Árið 1999, þegar kúariða kom upp í Bretlandi, bönnuðu kínversk stjórnvöld allan innflutning á nautakjöti frá landinu og þrátt fyrir að það hafi tekist að uppræta kúariðu fyrir margt löngu er ekki enn búið að leyfa innflutning á bresku nautakjöti til Kína og það var ekki fyrr en árið 2018 að starfsmenn kínverska matvælaeftirlitsins sannfærðust um að óhætt væri að byrja að flytja inn nautakjöt á ný frá Bretlandi. Það var því leyft en þar með var björninn ekki unninn, við tók skilorðstími og tekur hið formlega leyfi fyrst gildi árið 2021.
 
Afrísk svínapest er vírussjúkdómur sem er bráðsmitandi og bráðdrepandi fyrir svín og berst fyrst og fremst um heiminn með villisvínum sem ná að færa vírusinn á milli áður en þau verða sjálf honum að bráð.
 
Alvarlegur sjúkdómur í svínum
 
Í fyrra kom upp alvarlegur og bráðsmitandi sjúkdómur í kínverskum svínum en þessi pest kallast afrísk svínapest og hefur verið að breiðast út um heiminn undanfarin ár. Pestin er bráðsmitandi og bráðdrepandi fyrir svín og smitast m.a. með villisvínum sem ná að bera með sér vírusinn á milli svæða áður en þau drepast af völdum hans. Þá er vitað að þessi vírus getur lifað af í kjöti í langan tíma einnig en þess ber þó að geta að hann er með öllu skaðlaus fólki. Þessi pest hefur breiðst afar hratt út í Kína og þar sem pestin hefur komið upp hafa kínversk yfirvöld brugðist hratt við og fella öll dýr á viðkomandi búi, auk allra svína á nágrannabúum einnig svona til öryggis! Vegna þessara miklu áhrifa svínapestarinnar og hins umsvifamikla niðurskurðar á svínum í nágrenni smitaðra búa er talið að svínapestin kosti allt að helmings samdrátt í svínaframleiðslu landsins í ár. Spár um áhrifin eru reyndar afar breytilegar og meðan sumar segja að um 20% samdrátt verði að ræða þá segja aðrar spár að allt að 70% samdráttur verði í framleiðslu á svínakjöti landsins.
 
Vantar 10 milljónir tonna af dýrapróteinum
 
Í fyrra nam innflutningur á svínakjöti ekki nema 2% af innanlandsneyslunni í Kína en þessi 2% voru þó um 20% af heimsviðskiptum með svínakjöt og nú er talið að vegna svínaveikinnar þá þurfi að auka þennan innflutning upp í 5% eða sem svarar til helmings alls svínakjöts á alþjóðlegum markaði! Það gæti hæglega ýtt upp verðinu á svínakjöti í heiminum þó þess sjáist reyndar alls ekki merki enn sem komið er, en nú um stundir er t.d. afurðastöðvaverð á svínakjöti í Evrópu frekar lágt.
 
Ef heimsmarkaðurinn ætlar að reyna að bæta upp aukna eftirspurn eftir svínakjöti í Kína er einfaldlega ekki til nóg svínakjöt eins og staðan er í dag en það er þó til umtalsvert af öðru kjöti og ef kjötþörfin er umreiknuð í tonn af dýrapróteinum, þ.e. próteinum sem einnig gætu komið frá mjólk og mjólkurvörum, þá er talið að það vanti um 10  milljónir slíkra próteina inn á Kínverska markaðinn til að svara kalli neytenda. Hluti af þessari þörf verður klárlega sinnt af kínverskum bændum en áætlað er að bændur í Kína muni sjálfir ná að sinna um 75% af þessari þörf en afgangurinn þarf þá að koma með innflutningi með tilheyrandi áhrifum á þróun heimsmarkaðsverðsins.
 
Nýir liðsmenn Bændablaðsins
Fréttir 21. júní 2024

Nýir liðsmenn Bændablaðsins

Lesendur hafa kannski tekið eftir nýjum efnisþáttum í blaðinu í vor. Hugarleikfi...

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun
Fréttir 21. júní 2024

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun

Lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi fá aðgengi að 3,2 milljarða króna fjármög...

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum
Fréttir 20. júní 2024

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum

Hvítlauksbændurnir í Neðri-Brekku í Dölum fengu nýlega tvo styrki úr Matvælasjóð...

Verðlaunuðu góðan árangur
Fréttir 20. júní 2024

Verðlaunuðu góðan árangur

Tabea Elisabeth Schneider hlaut verðlaun fyrir besta árangur á B.S. prófi þegar ...

Fuglum fækkar vegna óveðurs
Fréttir 20. júní 2024

Fuglum fækkar vegna óveðurs

Samkvæmt fuglatalningu varð algjört hrun í fjölda fugla á Norðausturlandi þegar ...

Óhrædd að takast á við áskoranir
Fréttir 19. júní 2024

Óhrædd að takast á við áskoranir

Tilkynnt var um ráðningu Margrétar Ágústu Sigurðardóttur í starf framkvæmdastjór...

Halla færir út kvíarnar
Fréttir 19. júní 2024

Halla færir út kvíarnar

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjuframleiðandi og eigandi garðyrkjustö...

Sala Búvís stöðvuð
Fréttir 19. júní 2024

Sala Búvís stöðvuð

Samkeppniseftirlitið hefur komið í veg fyrir að Skeljungur kaupi Búvís ehf. þar ...