Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Berglind Hilmarsdóttir, bóndi á Núpi III, þakkaði RML fyrir góða rekstrarráðgjöf en styrkleiki fyrirtækisins væri á því sviði. Hins vegar þyrfti að efla fóðurráðgjöf til muna því þar lægju mikil tækifæri.
Berglind Hilmarsdóttir, bóndi á Núpi III, þakkaði RML fyrir góða rekstrarráðgjöf en styrkleiki fyrirtækisins væri á því sviði. Hins vegar þyrfti að efla fóðurráðgjöf til muna því þar lægju mikil tækifæri.
Mynd / TB
Fréttir 29. janúar 2018

Kjaramál brenna á bændum og mikill áhugi á að ræða loftslagsmálin

Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Bændafundir fyrir félagsmenn Bændasamtakanna voru haldnir um allt land dagana 16.-19. janúar. Alls voru fundarstaðirnir 18 talsins og tæplega 600 manns mættu til fundanna. Á dagskrá voru framsöguerindi frá forystufólki BÍ og Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins og umræður. 
 
Bændablaðið var á fundi í Heimalandi þar sem meðfylgjandi myndir voru teknar. Í umræðum var áberandi að bændum stendur hreint ekki á sama um nýfallinn hráakjötsdóm EFTA- dómstólsins og þeir óttast verri afkomu og aukna tíðni dýrasjúkdóma í kjölfarið á meiri innflutningi. Margir kalla eftir kröftugra markaðsstarfi með íslenskar afurðir og nefna mikilvægi upprunamerkinga. Loftslagsmál voru víðast rædd og velta menn vöngum yfir því hvað kolefnisbinding og áherslur í þeim málaflokki þýða fyrir landbúnaðinn.
 
Fyrsta ár nýrra búvörusamninga að baki
 
Í framsöguerindi BÍ var fjallað vítt og breitt um fyrsta framkvæmdaár búvörusamninga. Þar kom m.a. fram að greiðslur úr nautgripasamningi námu 6,6 milljörðum á síðasta ári og úr sauðfjársamningi tæpum 5 milljörðum. Alls var 556 milljónum króna veitt í garðyrkjuna en þar af eru orkuniðurgreiðslur um 280 milljónir króna til 88 framleiðenda. Úr rammasamningi voru landgreiðslur 372 milljónir og ræktunarstyrkir um 250 milljónir króna. Nýliðunarstuðningur nam 129 milljónum króna en af 40 umsóknum fengu 24 nýliðar styrki, að meðaltali 5,4 milljónir króna hver. 
 

Eiríkur Blöndal, stjórnarmaður í BÍ, ræddi um þau mál sem eru efst á baugi.
 
Vantar iðnaðarmenn til sveita
 
176 umsóknir bárust um fjárfestingarstuðning á árinu 2017, 124 vegna endurbóta og 52 vegna nýframkvæmda. 100 aðilar uppfylltu styrkskilyrði en dæmi voru um að bændum hafi gengið illa að fá iðnaðarmenn og því ekki getað klárað þær framkvæmdir sem áætlaðar voru. Viðræður eru uppi við Matvælastofnun að gefa bændum rýmri tíma vegna þessa. 
 
Fjórðungur af öllu kjöti flutt inn frá útlöndum
 
Fulltrúar BÍ ræddu um stöðu landbúnaðarins og þau mál sem eru efst á baugi þessi dægrin. Ber þar hæst kjaramál bænda, yfirvofandi innflutning á hráu kjöti og eggjum og tollamál. Fram kom í máli fulltrúa BÍ að um þessar mundir er um 25% af öllu kjöti í landinu flutt inn frá útlöndum. 
 
Samúel U. Eyjólfsson, bóndi í Bryðjuholti, velti því upp hvað það kostaði þjóðina þegar alvarlegar matarsýkingar verða hér á landi. Hann nefndi nýlegt dæmi þegar loka þurfti skólum á höfuðborgarsvæðinu síðsumars vegna magakveisu. 
 
Umræða um erfiða stöðu sauðfjárræktarinnar var rædd á þeim svæðum þar sem mikið er um sauðfé en minna annars staðar. 
 
Félagsmenn BÍ um 3.400 talsins
 
Farið var yfir starfsemi BÍ og rekstur þeirra. Fram kom að samkvæmt félagatali eru nú um 3.400 bændur í samtökunum. Innheimta félagsgjalda, í stað búnðargjalds, var tekin upp á síðasta ári og gekk vel. Alls voru innheimt félagsgjöld að upphæð 87,5 milljónir króna, sem er um 62% af þeim tekjum sem samtökin höfðu áður af búnaðargjaldi. Athygli fundargesta var vakin á sérstöku félagsmannasvæði á Bændatorginu þar sem hægt er að fá margvíslegar upplýsingar, s.s. um ársreikninga, aðgang að fundargerðum og fleiru. 
 
RML í fimm ár
 
Í erindi fulltrúa Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) var farið yfir starfsemina og helstu verkefni fram undan. RML hefur nú starfað í fimm ár og ýmislegt breyst á þeim tíma. Í byrjun voru verkefnin aðallega tengd búfjárrækt, jarðrækt og eftirliti og alls voru stöðugildin 50 talsins. Nú eru stöðugildin alls 39 og verkefnin hafa þróast og breyst. Tap var á rekstrinum fyrstu tvö árin en rekstrarafgangur næstu tvö. Nú er reksturinn í ágætis jafnvægi að sögn stjórnenda en töluverður niðurskurður er fram undan í framlögum hins opinbera. Fram kom í máli framsögumanna RML að þróunin er hröð í landbúnaðinum og mikilvægt fyrir bændur að nýta alla þá þekkingu sem mögulegt er til þess að bæta sinn rekstur. 
Sagt var frá samningi sem RML gerði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið í fyrrasumar þar sem markmiðið er að meta umfang losunar gróðurhúsalofttegunda ásamt því að koma auga á leiðir til þess að draga úr losun frá búum í íslenskum landbúnaði. 
 
Karvel L. Karvelsson, framkvæmdastjóri RML, fór sjálfur á fimm fundi og sagði að það hefði verið gagnlegt að hitta bændur. „Varðandi loftslagsmálin þá virtist vera töluverður áhugi á þeim en maður skynjaði að umræðan hefur mikið snúist um það að endurheimt á mýrum sé svarið við öllum okkar vanda í þeim efnum og það fer ekkert sérstaklega vel í bændur. Það eru heldur ekki allir inni í því hvað felst í loftslagsmálunum og það þarf því að upplýsa betur. Landbúnaðurinn þarf nauðsynlega að koma meira að þessari umræðu og afla gagna,“ sagði Karvel.
 

Guðný Halla Gunnlaugsdóttir, bóndi á Búlandi, sagði að það þyrfti að hefja framleiðsluvörur bænda á hærra plan og huga meira að því að fræða neytendur og efla markaðssetningu.
 
Umræða um félagskerfi bænda
 
Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri BÍ, fór á fundi á Austurlandi og í Skaftafellssýslum. Hann sagði að umræðan hefði mikið snúist um loftslagsmálin, vanda sauðfjárræktarinnar, tollasamning og hráakjötsdóm EFTA-dómstólsins. 
 
„Að öðru leyti var nokkuð rætt um félagskerfi bænda, reyndar þá mest hluti sem ekki eru á okkar valdi, þ.e. um hvað mörg félög eigi að vera og hvernig þau eigi að vera skipulögð. Ég hef alltaf svarað því þannig að það getur engin ákveðið örlög félags nema félagarnir sjálfir. Bændasamtökin geta ekki og vilja ekki miðstýra því,“ sagði Sigurður og bætti við að hann væri mjög sáttur við að fá nær 600 félagsmenn BÍ á bændafundi á þessum árstíma.
 
Kolefnisbinding og sauðfjárræktin
 
Einar Ófeigur Björnsson, stjórnarmaður í BÍ og bóndi í Lóni II í Kelduhverfi, sagði að tvennt hefði staðið upp úr á þeim fundum sem hann hefði farið á. Það væri umræðan um kolefnisbindingu og um aðgerðir vegna stöðunnar í sauðfjárræktinni. 
 
„Sérstaklega eru menn tortryggnir á þessar hugmyndir um að moka ofan í skurði og telja margt órannsakað þar, sem er eflaust rétt. Hvað varðar sauðfjármálin þá bar hæst áhyggjur bænda af því hver framtíð þeirra verður. Ég var spurður á tveimur fundum hvort við værum búnir að fá verð hjá afurðastöðvum fyrir haustið. Reglur um svæðisbundinn stuðning voru gagnrýndar enda umdeildar og á Ísafirði og Barðaströnd komu fram áhyggjur af því hvort sláturleyfishafar mundu hætta að flutningsjafna kostnað við fjárflutninga. Á Ísafirði var mikið rætt um sláturleyfishafa og samskipti við þá sem alla vega einn fundarmaður taldi að væru í ólestri. Það voru spurningar um stefnu BÍ við endurskoðun búvörusamninga og spurningar um hvort koma þyrfti á framleiðslustýringu.“ 
 
Einar Ófeigur sagði bændur vilja leggja enn meiri þunga í kynningu á íslenskum mat og að koma kjöti í stóreldhús. Þá sagði hann að lítið hefði verið um spurningar og vangaveltur um mjólkurframleiðsluna. „Hrákjötsmálið og tollamálin voru til umræðu og þá helst að við þyrftum að standa okkur betur í að verjast í þeim efnum.“


Gunnar Eiríksson og Eiríkur Blöndal voru fulltrúar BÍ á fundi í Heimalandi undir Eyjafjöllum. Runólfur Sigursveinsson sagði frá starfsemi RML.

 
Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032
Fréttir 15. apríl 2024

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032

Í nýrri landsáætlun verður stefnt að því að hverfandi líkur verði að upp komi ri...

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa
Fréttir 15. apríl 2024

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var í Ásgarði Landbúnaðarháskóla Ísla...